Íslenskar konur í Danmörku láta ekkert stoppa sig og halda jólamarkað

Danmörk | 14. desember 2020

Íslenskar konur í Danmörku láta ekkert stoppa sig og halda jólamarkað

Aldís Guðmundsdóttir og félagar hennar í Félagi kvenna í atvinnulífinu í Danmörku standa fyrir stafrænum jólamarkaði í ár. Hún segir að þetta hafi verið ákveðið vegna ástandsins í heiminum vegna veirunnar. 

Íslenskar konur í Danmörku láta ekkert stoppa sig og halda jólamarkað

Danmörk | 14. desember 2020

Stjórn félags kvenna í atvinnulífinu í Danmörku í halda stafrænan …
Stjórn félags kvenna í atvinnulífinu í Danmörku í halda stafrænan jólamarkað í ár.

Aldís Guðmundsdóttir og félagar hennar í Félagi kvenna í atvinnulífinu í Danmörku standa fyrir stafrænum jólamarkaði í ár. Hún segir að þetta hafi verið ákveðið vegna ástandsins í heiminum vegna veirunnar. 

Aldís Guðmundsdóttir og félagar hennar í Félagi kvenna í atvinnulífinu í Danmörku standa fyrir stafrænum jólamarkaði í ár. Hún segir að þetta hafi verið ákveðið vegna ástandsins í heiminum vegna veirunnar. 

„Í ljósi aðstæðna hefur öllum jólamörkuðum og slíku verið aflýst hér í Danmörku og datt okkur því í hug að halda Stafrænan jólamarkað fyrir Íslendinga.

Hugsunin með stafræna jólamarkaðnum kom svolítið til okkar út frá ástandinu. Nú eru færri að ferðast til Íslands fyrir jólin eða að fá gesti og póstþjónustan milli landanna er hægari. Við hjá FKA í DK viljum endilega hjálpa íslenskum konum í rekstri og íslenskum fyrirtækjum í DK að vekja athygli á sér. Fengum við því þessa hugmynd þar sem við sjáum fyrir okkur að margir til dæmis á Íslandi myndu vilja nýta sér að versla jólagjafir fyrir fjölskyldumeðlimi búsetta í Danmörku. Þeir þyrftu ekki að treysta á að koma gjöfunum milli landa með pósti. Það einfaldar dæmið allt að geta verslað við fyrirtæki staðsett í sama landi og sá sem á að fá gjöfina, en samt vera að versla íslenskar vörur og þjónustu.

Þetta er eins og ég segi, okkar leið til að styðja við íslenskar konur með rekstur hér í Danmörku og reyna að auðvelda ættingjum og vinum á Íslandi að versla jólagjafir án þess að þurfa að hafa áhyggjur af sendingarkostnaði og sendingartíma. Við erum hátt í tíu þúsund Íslendingar búsettir hér í Danmörku svo við höldum að það hljóti að vera ansi margir ættingjar/vinir á Íslandi sem gættu nýtt sér þennan platform til jólagjafaverslunar,“ segir Aldís.

Hvað verður boðið upp á á markaðnum í ár?

„Það eru enn að bætast við söluaðilar á markaðinn og eins og staðan er núna eru 23 fyrirtæki með. Fjölbreytnin er mikil og sem dæmi má nefna skómerkið JoDis sem vann línu í samstarfi með Andreu Röfn, Tiny Viking sem býður upp á barnavörur, hina margverðlaunuðu Newmero talnakubba, ýmis hönnunarfyrirtæki, ferðir um Íslendingaslóðir í Kaupmannahöfn og gjafabréf á snyrtistofu, kaffihús og íslenska ísbúð og svo mætti lengi áfram telja - slóðin er www.jolamarkadurfka.com og verður markaðurinn starfræktur fram til 23. desember.“

Aldís hefur sjálf verið búsett í Danmörku í fimm og hálft ár. Síðustu fjögur og hálft ár starfaði hún sem Key Account Manager hjá DMC Nordic/Denmark. 

„Ég missti því miður það starf í kjölfar kórónuveirunnar, enda lítið af erlendum fyrirtækjahópum að koma til Danmerkur núna til ráðstefnu- og viðburðahalda. Ég er því í leit að næsta atvinnutækifæri,“ segir Aldís. 

Aðspurð um jólastemninguna í Danmörku og hvort hún sé frábrugðin þeirri íslensku segir hún að Danir séu alltaf að „hygge“ sig og það aukist bara þegar nær dragi jólum. 

„Að mínu mati er helsti munurinn þessi danska „hygge“ sem er nú alltaf til staðar, en stigmagnast enn frekar kringum hátíðina. Jólastress er eitthvað sem ekki er til hér og fólk gerir mikið úr því að hafa það kósý og bara njóta stundarinnar með jólaljós, jólatónlist og glögg og eplaskífur á kantinum.“

Hvað kemur þér í jólaskap?

„Tvímælalaust jólaTivoli! Þegar maður labbar inn tekur á móti manni ekki bara ævintýraleg ljósadýrðin heldur líka grenilyktin, angan af glögg og jólatónlistin í bakgrunni – maður fær alveg jólin beint í æð!“

Hvað getur þú sagt mér um Félag kvenna í atvinnulífinu í Danmörku?

„FKA-DK – félag kvenna í atvinnulífinu í Danmörku var stofnað árið 2014 að frumkvæði Höllu Benediktsdóttur. Félagið hefur sérstöðu að því leyti að í því eru allar konur sem eru þátttakendur í atvinnulífinu hér í Danmörku, ekki einungis konur í stjórnunarstöðum eða eigendur fyrirtækja. Félagið hefur vaxið og dafnað og telur nú yfir 900 meðlimi.
Við höfum að markmiði að skapa öflugt tengslanet kvenna hér í landi, sameina konur í atvinnulífinu og um leið auka sýnileika og tækifæri kvenna.

Í venjulegu árferði höldum við ýmis konar viðburði, förum í fyrirtækjaheimsóknir þar sem íslenskar konur starfa og í fyrra veittum við í fyrsta sinn sérstaka viðurkenningu FKA-DK fyrir að vera öðrum konum hvatning í starfi, en hana hlaut Vigdís Finnsdóttir. Stefnan er að veita viðurkenninguna annað hvert ár.
Nú á þessum tímum heimsfaraldurs höfum við ekki haft tök á hinu hefðbundna viðburðahaldi, en höfum nýtt okkur tæknilausnir og haldið viðburði yfir Zoom. Þó það sé frábært að hægt sé að nýta sér tæknina hlökkum við samt óskaplega mikið til að geta aftur verið saman í eigin persónu.“

mbl.is