Skilar sér margfalt til baka

Flóttafólk á Íslandi | 14. febrúar 2021

Skilar sér margfalt til baka

„Með því að veita flóttafólki tækifæri, meiri tíma og um leið eftirfylgni er því bæði gert auðveldara að samlagast samfélaginu og gefa af sér til samfélagsins,“ segir Ragheb Besaiso, sem er flóttamaður frá Palestínu. 

Skilar sér margfalt til baka

Flóttafólk á Íslandi | 14. febrúar 2021

Ragheb Besaiso hefur verið búsettur á Íslandi í rúmt ár …
Ragheb Besaiso hefur verið búsettur á Íslandi í rúmt ár en hann kemur frá Palestínu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Með því að veita flóttafólki tækifæri, meiri tíma og um leið eftirfylgni er því bæði gert auðveldara að samlagast samfélaginu og gefa af sér til samfélagsins,“ segir Ragheb Besaiso, sem er flóttamaður frá Palestínu. 

„Með því að veita flóttafólki tækifæri, meiri tíma og um leið eftirfylgni er því bæði gert auðveldara að samlagast samfélaginu og gefa af sér til samfélagsins,“ segir Ragheb Besaiso, sem er flóttamaður frá Palestínu. 

Hann hefur búið ásamt fjölskyldu sinni á Íslandi í rúmt ár. Ragheb er með BA-gráðu í viðskiptafræði og MBA-gráðu og hefur unnið lengi með alþjóðlegum hjálparsamtökum í Palestínu. Meðal annars evrópskum hjálparstofnunum sem starfa á átakasvæðum víða um heim. Þar leiddi hann ýmis verkefni og vann að áætlunargerð við mannúðaraðstoð af ýmsu tagi. Hann kenndi einnig við viðskiptafræðideild háskóla á Gaza.

Hann var meðal þeirra sem héldu erindi í velferðarkaffi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar nýverið þar sem fjallað var um málefni flóttafólks og vöktu ráðleggingar hans töluverða athygli. 

Ragheb segir að með því að styðja vel við flóttafólk við að nýta og um leið hámarka hæfileika sína sé hægt að koma í veg fyrir að það verði háð félagslegri aðstoð. Í samtali við blaðamann segir hann að þar hafi hann ekki bara talað af reynslu sem flóttamaður á Íslandi heldur einnig sem sérfræðingur í að starfa með flóttafólki. Hann hefur mikinn áhuga á að leggja sitt af mörkum hér á Íslandi á þessu sviði enda Ísland ekki með jafn mikla reynslu af móttöku flóttafólks og önnur norræn ríki. 

Tveimur mánuðum eftir að Ragheb kom hingað til lands skall kórónuveirufaraldurinn á af fullum þunga hér á landi. Sem þýddi enn meiri einangrun flóttafólks en áður og nánast enga atvinnumöguleika.

Sótt um 100 störf hið minnsta

Ragheb hefur gengið illa að fá vinnu en hann segist hafa sótt um að minnsta kosti 100 störf án árangurs fyrir utan eitt tímabundið verkefni sem ráðgjafi flótta- og hælisleitenda. Jafnframt hefur hann unnið sem túlkur í hlutastarfi.

„Ég vil hjálpa og bæta þá þjónustu sem er í boði. Það þarf ekki að kosta mikið meira en með breyttum áherslum er bæði hægt að auka skilvirkni og bæta stöðu flóttafólks sem í nánast öllum tilvikum þráir að vinna og leggja sitt af mörkum til samfélagsins á þeim stað sem það býr á,“ segir Ragheb. 

„Ég tel að áherslan mætti vera meiri á að flóttafólk sé betur upplýst og fái stuðning við að fara frá því að vera með stöðu flóttafólks í að verða virkir samfélagsþegnar,“ segir Ragheb. 

Fjárfest í mannauði

Hann tekur dæmi af því að ef veittur er aukinn stuðningur megi gera ráð fyrir að eftir tvö eða þrjú ár sé viðkomandi flóttamaður hættur að þiggja aðstoð frá velferðarkerfinu og farinn að gefa af sér. Þetta yrði því eins konar fjárfesting í mannauði sem hingað hefur komið. Á sama tíma er viðkomandi virkari en annars væri og upplifði sig sem hluta af heild í stað þess að vera einangraður sem er upplifun margra á Covid-tímum að sögn Ragheb. 

Í fyrirlestri sínum í velferðarkaffinu benti Ragheb á að gera mætti tungumálakennsluna sem flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd stendur til boða. Hann telur hana þurfa að vera fjölbreyttari og taka mið af því hvað hópurinn er ólíkur innbyrðis.

Hann hefur lokið fjórum námskeiðum í íslensku og gengur ágætlega að lesa og skrifa málið. Aftur á móti vanti hann sárlega æfingu í að tala íslensku. Nánast allt íslenskunámið fór fram á netinu vegna Covid-19 sem kom í veg fyrir þá nánd sem svo margir hafa þörf fyrir til þess að einangrast ekki að sögn Ragheb.

Að íslenskukennsla fyrir fólk af erlendum uppruna væri einstaklingsmiðaðri en hún er í dag. „Því geta og tungumálafærni fólks er mjög ólík og eiginlega ekki hægt að búa til eitt box sem öllum er gert að passa inn í,“ segir Ragheb sem mælir einnig með því að aukin áhersla verði lögð á að auka þekkingu fólks á íslensku talmáli þannig að það sé fljótara að geta spjallað við aðra á íslensku í stað þess að grípa til enskunnar.

Mjög mikilvægt er að hans sögn koma upp upplýsingabanka fyrir fólk sem hingað kemur með upplýsingum með alls konar atriðum sem snerta daglegt líf. Til að mynda upplýsingar um matvöruverslanir, upplýsingar um réttindi og skyldur fólks samkvæmt íslenskum lögum sem snerta flóttafólk og veru þess hér. Svo sem varðandi skattamál og réttindi á vinnumarkaði. 

Hann segir að þegar hann kom hingað til lands hafi  þessar upplýsingar ekki legið á lausu. Að minnsta kosti ekki fyrir fólk eins og hann sem ekki vissi hvernig á að leita slíkar upplýsingar uppi.

Með því að afhenda slíkan upplýsingapakka á fyrsta fundi með starfsmanni velferðarsviðs væri hægt að létta álagið á bæði sviðið og flóttamanninn síðar meir. Þetta væri góð fjárfesting fyrir hið opinbera sem og flóttamanninn, segir Ragheb.

Ekki reynslulaust og viljalaust

„Flóttafólk er ekki reynslulaust fólk og viljalaust. Heldur er þetta upp til hópa fólk sem vill verða sjálfbjarga og gefa aftur til samfélagsins. Þetta er ekki einsleitur hópur þar sem eitt gildir um alla. Það er allra hagur að fólk læri íslensku hratt og vel. Eins held ég að það væri miklu betra að styðja fólk til náms sem hingað kemur og er ekki með menntun. Til að mynda í iðn- eða tækninám,“ segir Ragheb og vísar til mikils atvinnuleysis meðal fólks af erlendum uppruna á Íslandi í dag.

Þó svo að viðkomandi sé orðinn 18 ára eða eldri breytir það ekki því að viðkomandi getur átt fullt erindi í skóla. Fólk er að koma hingað til lands úr alls konar aðstæðum og hefur kannski ekki haft tök á að verða sér úti um menntun. Þetta er fólk sem vill búa hér og og vill svo sannarlega verða sjálfbjarga án aðstoðar velferðarkerfisins sem fyrst.

Ragheb telur að þegar Covid-faraldurinn hefur gengið yfir sé mikilvægt að setja á laggirnar verkefni sem miðar að því að bjóða flóttafólki upp á störf sem eru sérstaklega ætluð því á vegum hins opinbera.

Að öðrum kost getur reynst erfitt fyrir þennan hóp að komast inn á íslenskan vinnumarkað. Eins þýðir þetta að viðkomandi myndar tengsl á vinnumarkaði sem ekki bara auðveldar honum lífið heldur eykur líkur á að hann fái starf síðar á eigin vegum. „Við erum ekki að tala um að þetta þyrfti að vera til langs tíma heldur til að veita fólki eitthvað að gera á meðan atvinnuástandið skánar og einkafyrirtæki hafa rétt úr kútnum eftir Covid.“

Gefur fólki færi á að kynnast Íslendingum

Ragheb Besaiso er með MBA-gráðu auk BA-prófs í viðskiptafræði.
Ragheb Besaiso er með MBA-gráðu auk BA-prófs í viðskiptafræði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sem fjárfestingu í þessum mannauði nefnir Ragheb að gefa fólki kost á að mennta sig í iðn- og tæknigreinum og búa til tímabundin störf fyrir aðra. Þannig gæfist fólki tækifæri á að læra íslensku og komast í tengsl við aðra, ekki síst Íslendinga, í stað þess að vera eingarað, því í núverandi ástandi kynnast flóttamenn kannski öðru flóttafólki en ekki Íslendingum. 

Þegar fólk er í skóla eða vinnu eykst tungumálafærni þess og íslenskan verður tamari tungunni. Það er hins vegar ólíklegt að svo verði ef fólki er haldið í einangrun frá samfélaginu. Að meiri áhersla verði lögð á að styðja fólk í að samlagast og verða virkir samfélagsþegnar í stað þess að þiggja stuðning frá því opinbera í kjölfarið segir hann.

Fjárhagsstaða flóttafólks er slæm að sögn Ragheb og allur aukakostnaður eins og læknis- og tannlæknakostnaður getur verið nánast óyfirstíganlegur. Í kórónuveirufaraldrinum hefur staða þessa hóps versnað mikið, ekki bara fjárhagslega heldur einnig hefur hann einangrast sem hefur alvarleg áhrif á andlega líðan fólks.

Hann segir að margt gott hafi verið gert hér á landi en eðlilega sé margt enn ógert. „Um leið og flóttafólk er upplýst og meðvitað um réttindi sín og skyldur verður það líklegra til að vilja taka þátt. Þegar það finnur að það á raunverulegan möguleika á að aðlagast samfélaginu verður það opnara fyrir því að leggja sitt af mörkum.“

Fólki, sem kemur til Íslands í leit að alþjóðlegri vernd og sest að í Reykjavík, hefur fjölgað verulega á undanförnum árum. Á árinu 2020 voru 220 nýir einstaklingar teknir inn í þjónustu Teymis umsækjenda um alþjóðlega vernd á velferðarsviði. Alls veitti teymið um 433 einstaklingum, fullorðnum og börnum, þjónustu það ár.

Fyrirséð er að þjónusta velferðarsviðs aukist enn frekar á þessu sviði, þar sem borgarráð samþykkti nýlega að fela sviðinu undirbúning að viðræðum við félagsmálaráðuneytið um þjónustu við allt að 500 einstaklinga sem fengið hafa stöðu flóttamanna.

mbl.is