Faraldurinn ræður ferðinni

Faraldurinn ræður ferðinni

Faraldurinn ræður ferðinni

Málefni - Kórónuveiran COVID-19

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að Íslendingar eigi að geta glaðst yfir þeim tilslökunum á sóttvarnareglum sem taka gildi á morgun. Þær gilda í þrjár vikur og telur Svandís ómögulegt að spá fyrir um það hvort hægt sé að slaka meira á reglunum að þremur vikum loknum. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. Þar voru …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. Þar voru tillögur sóttvarnalæknis ræddar. mbl.is/Árni Sæberg

Al­menn­ar fjölda­tak­mark­an­ir verða hækkaðar í 50 manns á morgun en einnig er gert ráð fyr­ir til­slök­un­um í til­tek­inni starf­semi. Allt að 200 manns mega koma sam­an á ákveðnum stöðum, meðal ann­ars á söfn­um, í sviðslist­um og á íþróttaviðburðum. Þá mega sund- og líkamsræktarstöðvar hleypa fleirum að en áður og veitingastaðir þurfa ekki að loka sínum dyrum fyrr en kl. 23. 

Opnasta samfélag Evrópu

Spurð hvaða skilaboð hún hafi til þeirra sem hefðu viljað sjá meiri tilslakanir segir Svandís:

„Við eigum bara að vera glöð. Við erum með opnasta samfélag í Evrópu og sem betur fer erum við að stíga stór skref og við erum að gera það núna strax en ekki einhvern tímann í óskilgreindri framtíð. Það breytir því ekki að við þurfum að halda áfram að gæta okkar, þetta er rosalega dýrmætur árangur og við vitum alveg hvernig á að passa upp á hann,“ segir Svandís og bætir við:

„Þetta er alltaf álitamál. Einhverjir vilja að við göngum lengra og aðrir vilja að við göngum skemur. Þannig er það og þannig hefur það verið í heilt ár. Aðalatriðið er það að við sjáum að við höfum verið að taka góðar og réttar ákvarðanir. Annars værum við ekki stödd þar sem við erum í dag.“

Breytingar metnar frá degi til dags

Faraldurinn hefur dregist mikið saman innanlands síðustu mánuði. Tíu smit hafa greinst innanlands það sem af er febrúarmánuði og ein­ung­is tvö smit síðastliðna viku. Fyrrnefndar sóttvarnareglur gilda í þrjár vikur. Spurð hvort gera megi ráð fyrir frekari tilslökunum að þremur vikum liðnum, ef þróun faraldursins innanlands verður Íslendingum áfram hagstæð, segir Svandís að breytingar á sóttvarnareglum séu metnar frá degi til dags. 

„Það fer allt eftir faraldrinum, það er hann sem ræður ferðinni.“

mbl.is