Heilbrigðiskerfið ræður vart við meira

Heilbrigðiskerfið ræður vart við meira

Heilbrigðiskerfið ræður vart við meira

Málefni - Kórónuveiran COVID-19

Álag á tékkneska heilbrigðiskerfið fer ört vaxandi vegna kórónuveirufaraldursins og nálgast nú hámarksgetu kerfisins.

Kona með grímu á gangi um Prag um helgina.
Kona með grímu á gangi um Prag um helgina. AFP

Hvergi í heiminum hafa greinst fleiri ný tilfelli á hverja hundrað þúsund íbúa en í landinu. Og aðeins í nágrannaríkinu Slóvakíu hafa hlutfallslega fleiri látist af völdum veirunnar á sama tímabili.

Ríkisstjórnin, sem náði að hemja fyrstu bylgju faraldursins snemma, hefur frá síðasta sumri þurft að eiga við fleiri og fleiri bylgjur smita í landinu sem telur um 10,7 milljónir manna.

Hægst á annarri þjónustu

„Við getum engan veginn haldið uppi núgildandi stöðlum í heilbrigðisþjónustu,“ sagði aðstoðarheilbrigðisráðherrann Vladimir Cerny við blaðamenn í dag.

Benti hann á að einnig hefði hægst verulega á annarri heilbrigðisþjónustu.

„Kerfið í heild sinni er að nálgast mörkin.“

Alls eru 1.300 manns á gjörgæslu vegna sjúkdómsins í Tékklandi. Þar af eru 660 í öndunarvél. Fleiri en 1,16 milljónir tilfella hafa greinst frá upphafi faraldursins og nær tuttugu þúsund látist.

mbl.is