Smitaðist af líffæragjafa

Smitaðist af líffæragjafa

Smitaðist af líffæragjafa

Málefni - Kórónuveiran COVID-19

Þremur dögum eftir að bandarísk kona fékk tvöfalda lungnaígræðslu á sjúkrahúsi í Michigan í haust veiktist hún. Öll einkenni minntu á Covid-19; öndunarerfiðleikar, hár hiti og röntgenmyndataka sýndi að hún var með lungnabólgu.

Frá gjörgæsludeild á bandarísku sjúkrahúsi. Mynd úr safni.
Frá gjörgæsludeild á bandarísku sjúkrahúsi. Mynd úr safni. AFP

Konan var send í skimun við Covid-19 og tekið sýni úr nefi hennar en það reyndist neikvætt. Læknir konunnar, Daniel Kaul, var hins vegar ekki sannfærður þannig að hann fór fram á að tekin yrðu sýni úr nýjum lungum hennar og kannað hvort um kórónuveirusmit væri að ræða. Í ljós kom að hún var smituð af Covid-19. Kaul velti fyrir sér hvort smitið hefði komið frá líffæragjafanum að því er fram kemur í umfjöllun Washington Post í gær.

Grunur Kaul var fljótlega staðfestur þar sem konan, sem lést af völdum Covid-19 tveimur mánuðum síðar, hafði fengið veiruna með lungunum sem grædd voru í hana. Fjallað er um málið í American Journal of Transplantation fyrr í febrúar.

Fylgst með sjúklingi með Covid-19 á gjörgæsludeild.
Fylgst með sjúklingi með Covid-19 á gjörgæsludeild. AFP

„Þetta er fyrsta staðfesta tilvikið þar sem Covid-19-smit er rakið til líffæraígræðslu í Bandaríkjunum,“ segir Kaul en hann stýrir smitsjúkdóma- og líffæraígræðslu í Michigan. Hann segir í samtali við WP að afar ólíklegt sé að smitast af Covid-19 með þessum hætti og þetta eigi alls ekki að draga kjarkinn úr fólki til að fá líffæragjöf.

Yfir 39 þúsund líffæraígræðslur voru gerðar í Bandaríkjunum í fyrra. Þar af voru um 2.500 lungnaígræðslur. Nú er byrjað að græða ný lungu í fólk sem er með Covid-19. Í júní fór kona á þrítugsaldri í tvöfalda lungnaígræðslu í Bandaríkjunum og er talið að hún sé sú fyrsta.

Kaul vill ekki veita nákvæmar upplýsingar um lungnagjafann og konuna sem fékk lungun, en lést af völdum Covid-19 tveimur mánuðum síðar, til þess að tryggja persónuvernd.

Fóru í fjölda rannsókna fyrir aðgerðina

Líffæragjafinn var heiladauður eftir alvarlegt bílslys og sú sem fékk lungun þjáðist af krónískri lungnateppu. Báðar konurnar fóru í margvíslegar rannsóknir áður en samþykkt var að framkvæma aðgerðina. Innan tveggja sólarhringa áður en aðgerðin var gerð var tekið Covid-sýni úr nefi líffæragjafans og reyndist hann neikvæður. Jafnframt kom ekkert fram í lungnamyndatöku sem benti til Covid-19. Fjölskylda konunnar sagði að hún hefði ekkert ferðast áður en slysið varð og ekki vitað til þess að hún væri veik, ekki með hita, hósta, höfuðverk né magakveisu. 

Lungnaþeginn fór einnig í sýnatöku 12 tímum fyrir aðgerð og var sýnið neikvætt. Ekkert kom upp á daginn sem aðgerðin var gerð við háskólasjúkrahúsið í Ann Arbor. Síðar um daginn fór lungnaþeginn á gjörgæsludeild og bataferlið hófst. En þremur dögum síðar fór konan að sýna merki um kórónuveiruna.

Kaul segir í samtali við Washington Post að það hafi ekki komið í ljós að hún var smituð af Covid-19 fyrr en sýni voru tekin úr lungum hennar. Til þess að komast að því hvort rekja mætti smitið til gjafans tók Kaul sýni úr vökva sem hafði komið úr lungum gjafans á meðan aðgerðin var gerð og þau sýni voru jákvæð.

Einn læknir smitaðist líka

„Þessi lungu voru með Covid-19 áður en þau fóru inn í líkama viðtakandans,“ segir Kaul. Um svipað leyti, eða þremur dögum eftir aðgerðina, byrjaði einn skurðlæknanna sem kom að aðgerðinni að sýna Covid-einkenni. Í ljós kom að hann var með veiruna en þurfti ekki að leggjast inn á sjúkrahús. 

Allt var gert til þess að bjarga lífi konunnar en heilsu hennar hrakaði og 61 degi eftir aðgerðina lést hún eftir að ljóst var að hún myndi ekki lifa af aðra lungnaígræðslu. 

Frétt Washington Post

mbl.is