„Óbærilegar þjáningar“

Sýrland | 15. mars 2021

„Óbærilegar þjáningar“

Óbærilegar þjáningar fylgja stríði sem hefur geisað í áratug. Heimurinn hefur brugðist Sýrlendingum, segir Filippo Grandi, framkvæmdastjóri Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNHCR.

„Óbærilegar þjáningar“

Sýrland | 15. mars 2021

Óbærilegar þjáningar fylgja stríði sem hefur geisað í áratug. Heimurinn hefur brugðist Sýrlendingum, segir Filippo Grandi, framkvæmdastjóri Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNHCR.

Óbærilegar þjáningar fylgja stríði sem hefur geisað í áratug. Heimurinn hefur brugðist Sýrlendingum, segir Filippo Grandi, framkvæmdastjóri Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNHCR.

Hann segir erfitt að minnast þessara tímamóta. Áratugar dauða, eyðingar og fólksflutninga. Hann minnir leiðtoga ríkja heims að þetta hafi gerst á þeirra vakt. Á tíu árum hefur helmingur íbúa Sýrlands neyðst til þess að flýja heimili sitt. Í dag eru tíu ár síðan fimmtán drengir á aldr­in­um tíu til fimmtán ára tóku sig sam­an, upp­t­endraðir af ar­ab­íska vor­inu, og rituðu slag­orð á vegg skóla síns í borg­inni Deraa. Voðaverk­in sem ung­lings­pilt­arn­ir frömdu fel­ast í þeim orðum sem þeir skrifuðu á vegg skól­ans: As-Shaab / Yor­eed / Eska­at el nizam! – Þjóðin vill losna við vald­haf­anna!

Varað er við myndefni sem fylgir greininni

Yfir 387 þúsund hafa verið drepin og yfir 5,5 milljónir Sýrlendinga eru á flótta í nágrannaríkjunum, þar af 3,7 milljónir í Tyrklandi. Allt í allt er talið að 6,6 milljónir Sýrlendinga séu landflótta sem þýðir að um ein milljón þeirra er skráð sem flóttamenn í um 130 mismunandi löndum heims.

Fátækt sýrlensks flóttafólks er gríðarleg og hefur aukist undanfarin ár. Talið er að níu af hverjum tíu Sýrlendingum sem eru á flótta í Líbanon búi við gríðarlega fátækt. Í Jórdaníu eru fjórir af hverjum fimm sýrlenskum flóttamönnum undir fátæktarmörkum en þar miðast þau við að hafa 3 bandaríkjadali á dag til að lifa af. Það er framfærslukostnaðurinn er miðaður við 384 krónur á dag. 

Af þeim 6,7 milljónum Sýrlendinga sem eru á vergangi innanlands hafa margir þeirra ítrekað hrakist að heiman, farið héraða á milli í leit að lífi, og meira en helmingur þeirra hefur verið án heimilis í meira en fimm ár. 

Idlim 6. mars 2012. Mohammed al-Hamid er 28 ára gamall …
Idlim 6. mars 2012. Mohammed al-Hamid er 28 ára gamall fyrrverandi hermaður uppreisnarmanna. Hamid særðist í bardaga við stjórnarherinn árið 2016 í Latakia. Bróðir hans lést í örmum hans þar. Þetta sama ár frétti hann að þrjú systkina hans höfðu látist í fangelsi stjórnarinnar tveimur árum áður. Árið 2017 lést dóttir hans þegar herþotur sprengdu heimili hans í Idlib. AFP

Á sama tíma höfum við séð ótrúlega manngæsku sem hefur bjargað lífi milljóna Sýrlendinga. Ekki síst í nágrannaríkjunum sem hafa tekið við milljónum flóttamanna og axlað stærsta hluta byrðanna. Þessi manngæska hefur þýtt mikinn þrýsting á efnahag þessara ríkja, innviði og samfélögin almennt. Eins hafa mörg önnur ríki breytt um stefnu og boðið fram ómetanlega aðstoð segir Grandi. Þau hafa tekið á móti sýrlensku flóttafólki og boðið ættingja þess velkomna. En þessu er hvergi nærri lokið og ekki í boði að stöðva þessa aðstoð segir hann. 

Michelle Bachelet, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, telur nauðsynlegt að sett verði á laggirnar alþjóðleg sjálfstæð rannsókn á afdrifum allra þeirra karla, kvenna og barna sem hafa horfið sporlaust í Sýrlandi frá því stríðið hófst þar fyrir tíu árum. Hún biðlar til stríðandi fylkinga í landinu að hætta handtökum án dóms og laga og láta eigi þá lausa sem þegar eru í haldi. 

11. mars 2021. Þetta er húsveggur í bænum Binnish í …
11. mars 2021. Þetta er húsveggur í bænum Binnish í Idlib-héraði. AFP

Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna hefur ekkert aðgengi að Sýrlandi en talið er að tugþúsunda sé saknað. Ekki hefur verið haldið utan um fólk sem er saknað frá því stríðið braust út árið 2011.

Bachelet hefur farið fram á það við stjórn Bashar al-Assad að upplýsa um öll fangelsi þar sem fólki er haldið og birta nöfn allra sem þar eru. Að líkamsleifum þeirra sem hafa látist í haldi verði skilað til fjölskyldna þeirra.

Koblenz 4. júní 2020. Wafa Mustafa heldur á mynd af …
Koblenz 4. júní 2020. Wafa Mustafa heldur á mynd af föður hennar. Með henni á myndinni eru kvikmyndagerðarmaðurinn Feras Fayyad og mannréttindalögmaðurinn Anwar al-Bunni. AFP

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, segir að stjórnvöld í Sýrlandi verði að heimila alþjóðlegum hjálparstofnunum að koma inn í landið með frekari aðstoð. Ástandið er enn martraðarkennt. Um 60% Sýrlendinga munu væntanlega glíma við hungur á þessu ári segir Guterres og hvetur til þess að gefið verði í varðandi mannúðaraðstoð til Sýrlendinga. 

Nú er verið að draga böðla forseta Sýrlands, Bashar al-Assad, fyrir dóm í Evrópu en nýverið var fyrrverandi leyniþjónustumaður dæmdur fyrir aðild að pyntingum í umboði ríkisins. 

Annar fyrrverandi sérsveitarmaður, Anwar Raslan, sem var handtekinn á sama tíma og Eyad al-Gharib, bíður dóms í Koblenz en hann er sakaður um glæpi gagnvart mannkyninu með beinum hætti. Þar á meðal að hafa haft umsjón með drápi á 58 manneskjum og pyntingum á fjögur þúsund föngum í illræmdu fangelsi sýrlenskra stjórnvalda, Al-Khatib. Vonir standa til þess að dómur falli í því máli í október. 

Berlín 16. febrúar 2021. Wassim Mukdad er einn þeirra Sýrlendinga …
Berlín 16. febrúar 2021. Wassim Mukdad er einn þeirra Sýrlendinga sem hafa leitað á náðir evrópska réttarkerfisins vegna stríðsglæpa í heimalandinu. AFP

Sjö Sýrlendingar, sem lifðu af pyntingar, og mannréttindasamtök hafa lagt fram kæru gegn fleirum sérsveitarmönnum Assad í Þýskalandi. 

„Ég leit á hann en hann hunsaði mig“

Sýrlenski mannréttindalögmaðurinn Anwar al-Bunni er sennilega afkastamestur þeirra sem elta uppi þá sem hafa flúið Sýrland en eru þekktir fyrir ofbeldi og pyntingar í heimalandinu. Einn þeirra sem hann rakst á fyrir tilviljun í Berlín er Raslan sem á yfir höfði sér lífstíðardóm fyrir glæpi sína.

Anwar al-Bunni flúði til Þýskalands árið 2012 eftir fjöldamorð sýrlenska hersins í Houla og hefur búið í Berlín síðan þá. Bunni, sem var verjandi margra baráttumanni fyrir mannréttindum í heimalandinu, var handtekinn í Sýrlandi árið 2006 og dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að krefjast lýðræðisumbóta. Samkvæmt ákærunni hafði hann gerst sekur um að dreifa falsfréttum. Bunni var látinn laus árið 2011. 

Douma 20. febrúar 2018.
Douma 20. febrúar 2018. AFP

Tæpum áratug eftir handtökuna í Damaskus 2006 sá hann fyrir tilviljun manninn sem handtók hann, Anwar Raslan, við húsnæði flóttafólks í Berlín. „Ég sagði við sjálfan mig, ég þekki hann. En það var vonlaust fyrir mig að muna hvaðan,“ segir Bunni í samtali við AFP-fréttastofuna. 

Í mars 2015 rakst hann á Raslan að nýju í verslun en þá hafði rifjast upp fyrir honum hvaðan hann þekkti Raslan. „En á þeim tíma hafði ég ekki hugmynd um hvað ég gæti gert,“ segir Bunni. Í þriðja skiptið sem þeir hittust var það fyrir rétti. Raslan á sakamannabekknum en Bunni í vitnastúkunni. „Ég leit á hann en hann hunsaði mig.“

Douma 12. september 2016.
Douma 12. september 2016. AFP

Tæplega 27 þúsund myndir sem fyrrverandi ljósmyndari sýrlenska hersins tók, maður sem gengur undir heitinu Sesar og flúði með þær úr landi, hafa verið lagðar fram í þýska dómskerfinu sem sönnunargögn í málaferlum gegn fólki sem er talið sekt um pyntingar og morð. 

Fórnarlömb nauðgana og annarra pyntinga af hálfu sérsveita Assads hafa borið vitni og vegna vitnisburða þeirra hafa nokkrir þegar verið ákærðir en annarra en enn leitað. Þar á meðal Jamil Hassan, sem stýrði leyniþjónustu flughersins. Sýrlenskur læknir, Alaa M, var handtekinn í Hesse í Þýskalandi en hann hefur verið ákærður fyrir að hafa pyntað fanga í fangelsi sem leyniþjónustan rak í Homs. Hann er jafnframt ákærður fyrir morð.

23. ágúst 2012. Sýrlenskur karlmaður sýnir áverka sem hann fékk …
23. ágúst 2012. Sýrlenskur karlmaður sýnir áverka sem hann fékk í haldi stjórnarhersins í Bustan Pasha-hverfinu í Aleppo. AFP

Í Frakklandi eru nokkrar rannsóknir í gangi á vegum saksóknaraembætta þar í landi á hlut sýrlenskra sérsveitarmanna í pyntingum og morðum í boði sýrlenskra stjórnvalda. Svipaða sögu er að segja úr réttarkerfum Svíþjóðar, Spánar, Austurríkis og Noregs, samkvæmt upplýsingum frá ECCHR, evr­ópsku stjórn­ar­skrár- og mann­rétt­inda­miðstöðinni.  

Einn þeirra flóttamanna sem bar vitni í Koblenz er Wassim Mukdad en hann hefur glímt við alvarlegar afleiðingar hryllingsins sem hann upplifði líkt og margir samlandar hans í Sýrlandi.

Hann var 26 ára gamall þegar hann tók þátt í mótmælum í höfuðborg Sýrlands, Damaskus, í september 2011. Hann var handtekinn af lögreglu 30. september 2011 og dreginn inn í Al-Khatib-fangelsið ásamt fjölda annarra mótmælenda. 

Raqqa 20. október 2017.
Raqqa 20. október 2017. AFP

Tíu árum síðar lýsti hann því fyrir rétti í Þýskalandi hvernig hann var yfirheyrður í þrígang með bundið fyrir augun. Það voru ekki bara spurningar sem beindust að honum heldur einnig svipuhögg undir iljarnar. Hann lýsti kvölunum við að reyna að stíga í fæturna á eftir, að reyna að ganga lengi á eftir. Þetta sé hins vegar aðeins upphafið. Markmiðið sé að Assad og hans nánustu samstarfsmenn verði látnir gjalda fyrir þau voðaverk sem unnin hafa verið á sýrlensku þjóðinni síðasta áratuginn. 

10. ágúst 2015, árás sem hersveitir Bashar al-Assad forseta gerðu …
10. ágúst 2015, árás sem hersveitir Bashar al-Assad forseta gerðu á þorpið Foua í Idlib-héraði. AFP

Nýverið fengu níu ungar mæður að hitta syni sína og dætur sem voru tekin frá þeim fyrir tveimur árum. Börn sem þær töldu að þær myndu aldrei sjá aftur. Blaðamaður New York Times fylgdist með endurfundunum á landamærum Sýrlands.

Börnin voru flest of ung til þess að muna eftir mæðrum sínum. Þau fóru að gráta þegar kjökrandi mæður gripu þau, föðmuðu þau og kysstu. Þau voru óttaslegin enda erfitt að skilja við starfsmenn félagsþjónustunnar sem höfðu sinnt þeim.

AFP

Leynd ríkti yfir þessum aðgerðum á landamærum Sýrlands og Íraks enda enn sem komið er fyrstu skipulögðu endurfundir jazída-kvenna frá Írak og barna sem þær eignuðust í kynlífsánauð vígamanna Ríkis íslams. Börn sem þær fæddu eftir að hafa verið nauðgað af kvölurum sínum. 

Saga þessara kvenna er ein margra skelfilegra atburða tengdum Ríki íslams í Sýrlandi og Írak. Saga jazída er þyrn­um stráð en árið 2014 réðust víga­sam­tök­in Ríki íslams til at­lögu gegn þeim í Sýr­landi og Írak, ekki síst í Sinj­ar-héraði í norður­hluta Íraks þar sem fjöl­marg­ir jazíd­ar bjuggu.

21. ágúst 2013. Eiturvopnaárás á Ghouta.
21. ágúst 2013. Eiturvopnaárás á Ghouta. AFP

Vígamennirnir slátruðu þúsundum jazída og rændu sex þúsund til viðbótar. Þessar konur eiga jafnvel aldrei möguleika á að snúa aftur í samfélag jazída því þeir sem fara með völdin, yfirleitt eldri karlar, hafa sagt að þeir muni aldrei leyfa þessum börnum að koma inn í þeirra samfélag. Að börn þeirra verði jafnvel drepin ef mæður þeirra koma með þau heim.

Þegar þessar ungu konur voru frelsaðar úr prísund sinni í Sýrlandi fyrir tveimur árum stóðu þær frammi fyrir tveimur afarkostum. Ef þær myndu snúa aftur heim til fjölskyldna sinna í Írak yrðu þær að skilja börn sín eftir. Mörgum var tjáð, ranglega, að þær myndu fá að heimsækja börn sín. Eitthvað sem ekki gerðist. 

EPA

Nú neyðast þær til þess að velja að nýju. Þessar konur sem fóru til Sýrlands fyrir rúmri viku þurftu að slíta öll tengsl við foreldra, systkini og aðra þorpsbúa. Það var gjaldið sem þær greiddu fyrir að hitta börn sín að nýju. 

„Enginn getur í raun skilið hversu stór og þung skref þessar konur hafa stigið. Hvaða áhættu þær eru að taka og hversu ofboðslega hugrakkar þær eru,“ segir læknirinn Nemam Ghafouri, sem stýrði endurfundunum.

Börnin eru nú á svæði í norðausturhluta Sýrlands sem Kúrdar stýra með stuðningi Bandaríkjanna. Sinj­ar-hérað er hinum megin landamæranna við Írak.

Þegar vígasveitir Ríkis íslams náðu á svæði jazída árið 2014 drápu þær 10 þúsund karla og drengi og hafa Sameinuðu þjóðirnar lýst atburðinum sem þjóðarmorði. Um 6 þúsund konur og börn voru seld til vígamannanna. Þau urðu eign viðkomandi, ítrekað nauðgað og gengu kaupum og sölum. Þegar vígamennirnir voru hraktir frá suðausturhluta Sýrlands snemma árs 2019 voru flestar kvennanna frelsaðar og fluttar með börnum sínum í skjól. Þar var þeim tjáð að þær fengju að snúa heim ef þær myndu skilja börn sín eftir.

Nú geta þessar konur ekki annað en beðið eftir því að vita hver framtíð þeirra verður. Framtíð sem svo margir geta ekki ímyndað sér eftir margra ára átök sem virðast engan endi ætla að taka.
mbl.is