Eyddi síðustu krónunum í varahluti

Kórónukreppan | 20. mars 2021

Eyddi síðustu krónunum í varahluti

Leikarinn Ívar Örn Sverrisson ákvað að venda kvæði sínu í kross þegar grynnkaði á verkefnum vegna kórónuveirufaraldursins síðasta vetur og eyða síðustu krónunum sínum í varahluti fyrir hjól. Nú, um ári síðar, hefur Ívar starfrækt heimsendingar-hjólaverkstæði í tæpt ár og opnaði nýverið verkstæði miðsvæðis í Osló. Ívar vonast til þess að geta veitt fleirum atvinnu á árinu og safnar nú fyrir ýmsum tækjum og tólum. 

Eyddi síðustu krónunum í varahluti

Kórónukreppan | 20. mars 2021

„Ég held að það sé svolítið Íslendingurinn í manni sem …
„Ég held að það sé svolítið Íslendingurinn í manni sem fær mann til að gera svona hluti, vera sama um það sem öðrum finnst og bara prófa þetta,“ segir Ívar Örn. Ljósmynd/Vanessa Storm

Leikarinn Ívar Örn Sverrisson ákvað að venda kvæði sínu í kross þegar grynnkaði á verkefnum vegna kórónuveirufaraldursins síðasta vetur og eyða síðustu krónunum sínum í varahluti fyrir hjól. Nú, um ári síðar, hefur Ívar starfrækt heimsendingar-hjólaverkstæði í tæpt ár og opnaði nýverið verkstæði miðsvæðis í Osló. Ívar vonast til þess að geta veitt fleirum atvinnu á árinu og safnar nú fyrir ýmsum tækjum og tólum. 

Leikarinn Ívar Örn Sverrisson ákvað að venda kvæði sínu í kross þegar grynnkaði á verkefnum vegna kórónuveirufaraldursins síðasta vetur og eyða síðustu krónunum sínum í varahluti fyrir hjól. Nú, um ári síðar, hefur Ívar starfrækt heimsendingar-hjólaverkstæði í tæpt ár og opnaði nýverið verkstæði miðsvæðis í Osló. Ívar vonast til þess að geta veitt fleirum atvinnu á árinu og safnar nú fyrir ýmsum tækjum og tólum. 

„Sem leikari er maður vanur því að ef það er eitthvað sem maður ætlar að vera þarf maður alltaf að trúa rosalega á það,“ segir Ívar sem hefur verið meira og minna sjálfstætt starfandi í um 20 ár. 

„Þannig að ég þekki alveg til óvissu. Hún slær mig ekkert út af laginu lengur.“

Heimsfaraldurinn hefur haft veruleg áhrif á listamenn sem margir hverjir hafa ekki getað stundað sína atvinnu vegna takmarkana í samfélaginu. Því eru tekjumöguleikar listamanna verulega skertir. Ívar Örn segir að hann hafi strax í byrjun mars séð að staðan væri slæm. 

„Það er náttúrlega frekar alvarlegt þegar innkomunni er kippt undan manni svona fljótt,“ segir Ívar. 

Ívar býr ásamt fjölskyldu sinni í Noregi. Þar hafa þau …
Ívar býr ásamt fjölskyldu sinni í Noregi. Þar hafa þau búið í tíu ár. Ljósmynd/Aðsend

Langaði ekki að eyða orku í að sækja um bætur

Öllum verkefnum sem voru á dagskránni hjá Ívari var frestað og þá þurfti stúdíóið sem hann stýrði að loka, vegna aðgerða til að takmarka útbreiðslu smita. Ívar segir að hann hafi verið óviss um það hvort hann gæti sótt um atvinnuleysisbætur vegna stöðunnar. 

„Svo ákvað ég bara nokkrum dögum seinna að mig langaði ekki að eyða orku í að sækja um einhverjar bætur og ekki vita hvað væri að fara að gerast og svona,“ segir Ívar. 

Hugmyndin um reiðhjólaverkstæðið, sem nú heitir Ivars Sykkelsjappe eða Hjólasoppa Ívars, kom upp þegar fyrrverandi konan hans veiktist og grunur var uppi um að hún væri smituð af Covid-19. Þá var hún í sóttkví heima við en vantaði viðgerð á reiðhjóli. Þá stökk Ívar til og lagaði það úti í garði. 

„Svo fórum við eitthvað að ræða þetta og áttuðum okkur á því að mögulega þyrftu fleiri svona hjálp þar sem margir væru fastir heima,“ segir Ívar. 

„Mér finnst gaman að kýla á hluti þannig að ég fór út í búð með einhverja smá vasapeninga sem ég átti aukalega og keypti bremsuklossa og hjólavarahluti fyrir 1.500 norskar krónur [22.440 íslenskar krónur]. Ég var á smá bömmer á leiðinni heim, hafandi eytt síðustu krónunum mínum í bremsuklossa.“ 

Dóttir Ívars hannaði lógóið fyrir Hjólasjoppu Ívars.
Dóttir Ívars hannaði lógóið fyrir Hjólasjoppu Ívars.

Tæmdi bakpokann og fyllti hann af verkfærum, slöngum og varahlutum

Á leiðinni heim hringdi nágranni Ívars og spurði hvort Ívar ætti hjólapumpu. Hann sagðist ekki geta lánað honum hana af sóttvarnasjónarmiðum en kom við og pumpaði í hjólið. Nágrannarnir voru þá akkúrat í bakgarðinum og voru að þvo hjólin sín. 

„Þannig að ég gerði bara við hjólin fyrir alla þar og pumpaði í dekkin,“ segir Ívar. Hann hafði þá ekki mikla reynslu af reiðhjólaviðgerðum en hafði starfað í reiðhjóladeildinni í Útilífi í eitt ár. 

Sama dag og Ívar tók hjól nágrannanna í gegn teiknaði dóttir hans lógó fyrir verkstæðið og nágranninn sem Ívar pumpaði í dekkin fyrir hvatti hann áfram og skrifaði fyrir tillögu að texta um verkstæðið til þess að setja á Facebook. Síðan þá hefur boltinn í raun ekki hætt að rúlla.

„Þetta varð svo skemmtilegt. Ég bara tæmdi gamla vinnubakpokann minn, fyllti hann bókstaflega af verkfærum, slöngum og varahlutum. Ég setti í loftið facebooksíðu og fór að auglýsa þar. Þegar fólki líkar við eitthvað byrjar það  að dreifa sér á netinu,“ segir Ívar. 

Höfuðstöðvar reiðhjólaverkstæðisins voru um tíma í skotti fjölskyldubílsins.
Höfuðstöðvar reiðhjólaverkstæðisins voru um tíma í skotti fjölskyldubílsins. Ljósmynd/Aðsend

Hjólasjoppa í bílskotti

Fyrst um sinn var hann í raun eins konar farandviðgerðamaður og hjólaði sjálfur í vesturhluta Oslóar úr miðbænum til þess að gera við hjól. Nokkru síðar var verkstæðið búið að taka sér bólfestu í skotti fjölskyldubílsins sem gafst upp rétt fyrir jól. Nú vinnur Ívar að því að setja upp reiðhjólaverkstæði við Þrándheimsveg og er búinn að ráða einn mann í vinnu.

„Hann er miklu reyndari en ég þannig að ég þarf ekki að skjótast inn í bíl og kíkja á Youtube þegar ég lendi í vandræðum,“ segir Ívar kíminn. 

Spurður hvernig það sé að fara úr atvinnuleysi og í það að veita sjálfum sér og öðrum atvinnu segir Ívar: 

„Það var mjög góð tilfinning þegar ég gat búið til vinnu fyrir sjálfan mig en núna finnst mér svo ofboðslega gaman að geta þróað þetta og skapað vinnu fyrir fleiri. Það er virkilega gaman að það skuli hafa tekist.“

Nú hefur Ívar leigt húsnæði undir hjólasjoppunavið Þrándheimsveg í Osló. …
Nú hefur Ívar leigt húsnæði undir hjólasjoppunavið Þrándheimsveg í Osló. Ívar býður þó enn upp á heimsendingarþjónustu eins og í upphafi. Ljósmynd/Aðsend

Markmiðið að veita fleirum atvinnu

Markmið Ívars er að veita fleira fólki vinnu hjá verkstæðinu á þessu ári. Hann hefur lagt sparifé sitt í reksturinn en leitar nú styrkja frá almenningi til þess að geta byggt upp almennilegt verkstæði. Hann hrinti af stað hópfjármögnun nýverið þar sem hann stefnir á að safna um 750.000 íslenskum krónum. Nú þegar hafa safnast um 450.000 íslenskar krónur með framlögum frá Norðmönnum og nokkrum Íslendingum. Söfnuninni lýkur á sunnudag en mögulegt er að leggja henni lið í gegnum PayPal eða norsku síðuna Startskudd. Þá segir Ívar aldrei að vita nema Hjólasjoppa Ívars komi til Íslands líka einn daginn. 

Þó að Osló komist ekki með tærnar þar sem Kaupmannahöfn er með hælana hvað hjólreiðar varðar eykst hjólreiðamenningin þar sífellt, sérstaklega vegna Covid-19. 

„Núna eru þeir að spýta svo rosalega inn í reiðhjólastíga og eru að hvetja fólk til þess að hjóla meira. Það vissi ég ekkert um þegar ég byrjaði með þetta. Stjórnvöld byrjuðu að ráða fólki frá því að taka strætó og taka frekar hjólin vegna Covid svo það er mikil hjólavakning núna,“ segir Ívar. 

„Íslendingurinn í manni sem fær mann til að gera svona“

Nú sér vonandi fyrir endann á kórónuveirufaraldrinum með tilkomu bóluefnis gegn Covid-19 og má því ætla að listalífið fari aftur af stað innan tíðar. Ívar segist samt sem áður sjá fyrir sér að einbeita sér áfram að reiðhjólaviðgerðum og hefur jafnvel hafnað atvinnutilboðum undanfarið. 

„Mér finnst svo gaman að byggja þetta upp sjálfur og þróa það. Ég vil einbeita mér að þessu, alla vega í sumar, og gera þetta að einhverju sem rúllar,“ segir Ívar sem hefur verið búsettur í Noregi í um tíu ár.

„Ég held að það sé svolítið Íslendingurinn í manni sem fær mann til að gera svona hluti, vera sama um það sem öðrum finnst og bara prófa þetta,“ segir Ívar.

Hann flutti til Noregs með þáverandi konunni sinni árið 2010 þar sem hún var á leið í meistaranám þar í landi. Þá var efnahagshrunið nýafstaðið. 

„Mér fannst rosalega fínt að komast í burtu. Það voru rosalega margir í sárum og leiðir, mikið nöldur á Íslandi þá. Það var rosalega fínn tími fannst mér til að fara aðeins út. Það er skrýtið að það séu allt í einu 10 ár síðan,“ segir Ívar sem nýtur þess að búa í Noregi þótt hann segi það auðvitað hafa verið erfitt að yfirgefa heimalandið.

mbl.is