Kim Jong-un varar við harðindaskeiði

Norður-Kórea | 10. apríl 2021

Kim Jong-un varar við harðindaskeiði

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hefur tjáð þjóð sinni að búa sig undir harðræðistíma fram undan. Kom boðskapurinn í kjölfar aðvarana frá mannréttindahópum um að alvarlegur matvælaskortur sé mikill og efnahagslegur óstöðugleiki.

Kim Jong-un varar við harðindaskeiði

Norður-Kórea | 10. apríl 2021

Kim Jong-un.
Kim Jong-un. AFP

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hefur tjáð þjóð sinni að búa sig undir harðræðistíma fram undan. Kom boðskapurinn í kjölfar aðvarana frá mannréttindahópum um að alvarlegur matvælaskortur sé mikill og efnahagslegur óstöðugleiki.

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hefur tjáð þjóð sinni að búa sig undir harðræðistíma fram undan. Kom boðskapurinn í kjölfar aðvarana frá mannréttindahópum um að alvarlegur matvælaskortur sé mikill og efnahagslegur óstöðugleiki.

Sagði Kim þetta í ræðu á flokksráðstefnu norðurkóreska kommúnistaflokksins, en þar virtist hann líkja núverandi ástandi við hungursneyð sem ríkti á tíunda áratug síðustu aldar. Í henni dóu hundruð þúsunda manna úr sulti og harðræði. Landamærum ríkisins var lokað í fyrra vegna kórónuveirufaraldursins, en af þeim sökum drógust viðskipti landsmanna saman um 80% á síðasta ári til viðbótar talsverðum samdrætti 2019.

Sjaldgæft er að ráðamenn í Pyongyang játi aðsteðjandi neyð en Kim skoraði á ráðamenn að „heyja aðra og meiri þrautagöngu til að létta erfiðleikunum af þjóðinni, jafnvel í smáum skrefum í einu,“ sagði hann.

Með hugtakinu þrautagöngu skírskota norðurkóreskir embættismenn til lífsbaráttu landsmanna í hungursneyðinni undir lok síðustu aldar í framhaldi af hruni Sovétríkjanna sem reitt höfðu fram mikla aðstoð við Kóreumenn. Fjöldi þeirra sem sultu í hel liggur ekki fyrir en talað hefur verið um allt að þrjár milljónir manna.

Fyrr í vikunni varaði Kim við því að „aldrei hefðu aðrir eins erfiðleikar dunið á Norður-Kóreu og nú og áskoranirnar sem við væri að fást ættu sér engin fordæmi.

Úr mörgum áttum hefur undanfarna mánuði verið varað við að norðurkóreska þjóðin byggi við sult og seyru. Koma lýsingar á harðræðinu frá borgum í nágrenni landamæranna en þar hafa smyglarar þénað vel á viðskiptum. Verð á korni sem er undirstaða matvæla til sveita hefur tekið miklum sveiflum og kostað á stundum rúmlega mánaðarlaun kílóið.

Lina Yoon, sérfræðingur mannréttindasamtakanna Human Rights Watch (HRW), hafði eftir ótilgreindum heimildum í Norður-Kóreu að nánast engin matvæli bærust tillandsins frá Kína. „Betlurum hefur fjölgað mjög, nokkrir hafa dáið úr hungri við landamærin og engin sápa, ekkert tannkrem eða rafhlöður er að hafa,“ skrifaði hún í skýrslu um ástandið í landinu.

Sérlegur mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna (SÞ) í málefnum Norður-Kóreu, Timas Ojea Quintana, varaði í mars sl. við „alvarlegum matarskorti“ sem þá þegar hafði leitt til vannæringar og þjáninga vegna sveltis. „Skýrt hefur verið frá dauðasvelti og börn og gamalmenni hafa lagst í betl þar sem fjölskyldur geta ekki lengur séð fyrir þeim,“ sagði Quintana.

Óljóst er hvort aðstoð í einhverju mæli berist yfir höfuð til Norður-Kóreu þar sem yfirvöld í Pyongyang hafa hafnað öllum boðum um utanaðkomandi aðstoð. Þá hafa nær allir diplómatar og hjálparstarfsfólk, þar á meðal starfsfólk Matvælaáætlunar SÞ, yfirgefið landið.

Hermt er að Norður-Kóreumenn hafi takmarkað verulega innflutning á undirstöðumatvælum í ágúst í fyrra og síðan stöðvað nær öll viðskipti í október, þar á meðal verslun með matvæli og lyf. Í aðdraganda þess hafði verið farin herferð í Norður-Kóreu gegn smygli sem yfirvöld lýstu sem „andsósíalísku“ hátterni og „óvinaatferli“, að sögn HRW. Ofan í matvælaskortinn skall mikið óveður á landinu tvisvar í fyrra með flóðum sem talin eru hafa grandað uppskeru.

mbl.is