Engin merki um útbreiddan líffæraskaða

Kórónuveiran COVID-19 | 19. apríl 2021

Engin merki um útbreiddan líffæraskaða

Mjög jákvætt er að ekki sjást merki um útbreiddan líffæraskaða hjá fólki sem er að jafna sig eftir að hafa fengið Covid-19. Þetta segir Hilma Hólm, hjartalæknir og yfirmaður hjarta- og æðarannsókna hjá Íslenskri erfðagreiningu, um niðurstöður nýrrar rannsóknar hennar og Ernu Ívarsdóttur tölfræðings á langtímaáhrifum sjúkdómsins.

Engin merki um útbreiddan líffæraskaða

Kórónuveiran COVID-19 | 19. apríl 2021

Heilbrigðisstarfsmenn á Landspítalanum að störfum.
Heilbrigðisstarfsmenn á Landspítalanum að störfum. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Mjög jákvætt er að ekki sjást merki um útbreiddan líffæraskaða hjá fólki sem er að jafna sig eftir að hafa fengið Covid-19. Þetta segir Hilma Hólm, hjartalæknir og yfirmaður hjarta- og æðarannsókna hjá Íslenskri erfðagreiningu, um niðurstöður nýrrar rannsóknar hennar og Ernu Ívarsdóttur tölfræðings á langtímaáhrifum sjúkdómsins.

Hún bendir á að í rannsókninni voru aðallega skoðaðir einstaklingar sem voru ekki það veikir að þeir þurftu að fara á spítala. Þeir hafi því ekki verið alvarlega veikir í upphafi. 

Hilma Hólm á fundinum í dag.
Hilma Hólm á fundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þriðjungur enn með mikil einkenni

„Við sjáum líka að það er um þriðjungur sem er að kljást við mikil einkenni ennþá, mæði og minnistruflun. Við verðum aftur að hafa í huga að þetta eru algeng einkenni úti  í samfélaginu, þannig að 14% einstaklinga sem voru ekki veikir eru líka með svipuð einkenni,“ bætir hún við.

Hún nefnir einnig þann möguleika að þeir sem hafi verið með einkenni hafi hugsanlega verið líklegri til að þiggja þátttöku í rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar, en 1.141 sem smitaðist af veirunni tók þátt í rannsókninni. 49 þeirra fóru á spítala. Aukning þessara einkenna sé engu að síður til staðar. „Það eru klárlega 10 til 15% þeirra sem fá Covid sem eru ennþá með talsverð einkenni 5 til 11 mánuðum síðar. Það er nokkuð stórt hlutfall,“ útskýrir Hilma.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á fundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hún minnist einnig á að þau hafi séð einkenni þess að því lengra sem líður á faraldurinn því verra sé líkamsástand okkar allra á heildina litið. Við séum í miðjum faraldri og takmarkanir séu í samfélaginu. „Fólk hreyfir sig minna og líkamsástand þess er á niðurleið. Það er eitthvað sem við þurfum að hafa í huga“ segir hún.

Fólk fái tíma til að jafna sig 

Spurð hvort niðurstöður rannsóknarinnar eigi ekki eftir að nýtast vel í framtíðinni segir hún mikilvægt að fólk átti sig á því að fólk sé að kljást við vandamál löngu eftir að hafa smitast af Covid-19. „Við þurfum að gefa því tíma og rúm til að jafna sig og fá persónubundna meðferð eins og þarf í hvert sinn. Við þurfum að sýna því skilning og sinna því,“ segir og hún og bætir við að mikilvægt sé að koma í veg fyrir sýkingar til að koma um leið í veg fyrir þessar langtímaafleiðingar.

Höfuðstöðvar Íslenskrar erfðagreiningar.
Höfuðstöðvar Íslenskrar erfðagreiningar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is