Röð mistaka leiddi til heimsfaraldursins

Kórónuveiran Covid-19 | 12. maí 2021

Röð mistaka leiddi til heimsfaraldursins

Hægt hefði verið að komast hjá þeim hræðilegu hamförum sem fylgt hafa faraldri kórónuveirunnar um heimsbyggðina. Þetta eru niðurstöður sjálfstæðrar alþjóðlegrar rannsóknarnefndar sem kynntar voru í morgun.

Röð mistaka leiddi til heimsfaraldursins

Kórónuveiran Covid-19 | 12. maí 2021

Fólk bíður í röð eftir bóluefni í Mexíkóborg í gær.
Fólk bíður í röð eftir bóluefni í Mexíkóborg í gær. AFP

Hægt hefði verið að komast hjá þeim hræðilegu hamförum sem fylgt hafa faraldri kórónuveirunnar um heimsbyggðina. Þetta eru niðurstöður sjálfstæðrar alþjóðlegrar rannsóknarnefndar sem kynntar voru í morgun.

Hægt hefði verið að komast hjá þeim hræðilegu hamförum sem fylgt hafa faraldri kórónuveirunnar um heimsbyggðina. Þetta eru niðurstöður sjálfstæðrar alþjóðlegrar rannsóknarnefndar sem kynntar voru í morgun.

Bent er á að eitruð blanda óákveðni og slæmrar samræmingar hafi orðið til þess að ýmis varúðarmerki voru hundsuð.

Röð slæmra ákvarðana hafi gert veirunni kleift að verða 3,3 milljónum manns að bana, til þessa, og um leið leika efnahag ríkja grátt.

Stofnanir brugðust þegar þær hefðu átt að verja fólk og leiðtogar sem afneituðu vísindum grófu undan trausti fólks til sóttvarnaaðgerða, segir í skýrslu nefndarinnar.

Látinn ástvinur syrgður í Brasilíu á mánudag. Landið hefur farið …
Látinn ástvinur syrgður í Brasilíu á mánudag. Landið hefur farið illa út úr faraldrinum. AFP

Gefi milljarð bóluefna

Tekið er fram að fyrstu viðbrögð við útbreiðslu veirunnar í Wuhan í Kína, í desember 2019, hefðu mátt vera mun sterkari. Febrúar í fyrra hafi svo reynst dýrkeyptur, „týndur mánuður“, þar sem fjölda ríkja hafi mistekist að bregðast við aðvörunum.

Til að eiga við faraldurinn sem nú geisar mælir nefndin með því að ríkustu ríki heims gefi milljarð bóluefna til þeirra fátækustu. Að auki kallar hún eftir því að sömu ríki komi á fót nýjum stofnunum sem tileinkaðar séu viðbúnaði fyrir næsta faraldur.

Aðildarríki Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar óskuðu fyrir ári eftir að skýrslan yrði unnin. Fyrir nefndinni fóru Helen Clark, fyrrverandi forsætisráðherra Nýja-Sjálands og Ellen Johnson Sirleaf, fyrrverandi forseti Líberíu og handhafi friðarverðlauna Nóbels árið 2011.

Fórnarlömb faraldursins brennd á báli í Allahabad í Indlandi um …
Fórnarlömb faraldursins brennd á báli í Allahabad í Indlandi um helgina. AFP

WHO hefði ekki átt að bíða

Skýrslan ber heitið: „Covid-19: Látum þetta vera síðasta heimsfaraldurinn“. Færð eru rök fyrir því að taka þurfi viðvörunarkerfi í gegn á heimsvísu, til að koma í veg fyrir aðrar eins hamfarir.

„Hægt hefði verið að komast hjá því ástandi sem við finnum okkur nú í,“ sagði Sirleaf við blaðamenn þegar skýrslan var kynnt í morgun.

„Þetta er vegna ótalmargra mistaka og tafa í viðbúnaði og viðbrögðum,“ bætti hún við.

Nefndin fer heldur ekki mjúkum höndum um Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO). Bent er á að stofnunin hefði getað lýst yfir lýðheilsuhættustigi á heimsvísu, efsta hættustiginu sem stofnunin getur lýst yfir, þann 22. janúar 2020.

Þess í stað hefði hún beðið í átta daga til viðbótar, áður en viðvörunin fór á loft.

Samt sem áður, miðað við tiltölulega lítil viðbrögð ríkja, „þá hefðum við getað endað í sömu sporum,“ sagði Clark.

Minningarveggur um þá sem látist hafa af völdum veirunnar, á …
Minningarveggur um þá sem látist hafa af völdum veirunnar, á suðurbakka árinnar Thames í Lundúnum. AFP

Tafir og týndur mánuður

Það var aðeins í marsmánuði eftir að WHO hafði lýst ástandinu sem heimsfaraldri – hugtak sem er þó ekki í opinberu viðvörunarkerfi stofnunarinnar – sem mörg ríki tóku að bregðast hraðar við.

„Það voru klárlega tafir í Kína. En það voru tafir alls staðar,“ sagði Clark á blaðamannafundinum.

Án tafanna, á milli þess sem fyrst varð vart við veiruna í Wuhan og svo yfirlýsingar WHO í lok janúar, og án týnda mánaðarins í febrúar 2020, „þá trúum við að við værum ekki að horfa á svona vaxandi heimsfaraldur, eins og við höfum gert síðustu 15 eða 16 mánuðina. Svo einfalt er það.“

mbl.is