Íslendingar farnir að streyma til Spánar

Kórónuveiran Covid-19 | 16. maí 2021

Íslendingar farnir að streyma til Spánar

Arngrímur Guðmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum, segir álag á landamærunum vera mikið. Upp undir þúsund farþegar fari í gegnum Keflavíkurflugvöll daglega. 

Íslendingar farnir að streyma til Spánar

Kórónuveiran Covid-19 | 16. maí 2021

Ferðamenn ganga út úr Leifsstöð.
Ferðamenn ganga út úr Leifsstöð. mbl.is/Árni Sæberg

Arngrímur Guðmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum, segir álag á landamærunum vera mikið. Upp undir þúsund farþegar fari í gegnum Keflavíkurflugvöll daglega. 

Arngrímur Guðmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum, segir álag á landamærunum vera mikið. Upp undir þúsund farþegar fari í gegnum Keflavíkurflugvöll daglega. 

„Það er stígandi í komu farþega til landsins og við sjáum bara aukningu í spilunum,“ segir Arngrímur í samtali við mbl.is. 

Vegna þessa stendur til að færa þá aðstöðu sem lögreglan hefur til að skoða þau gögn sem farþegar leggja fram, sem og aðstöðu til sýnatöku. Með flutningnum verða fleiri vinnustöðvar og starfsmenn sem geta annað fjöldanum. 

„Eins og þetta er núna er skoðun á vottorðum staðsett annars staðar í byggingunni, svokallaðri suðurbyggingu. Það stendur til að færa hana í komusalinn, þar verður hægt að setja upp mun fleiri vinnustöðvar þar sem verður hægt að greina vottorð og sýnatakan verður líka færð þangað,“ segir Arngrímur. 

Hann segir að reglulega komi hingað til lands einstaklingar sem ekki uppfylli skilyrði um nauðsynlegar ferðir frá ákveðnum löndum. 

„Það hefur verið eitthvað um að það komi hingað farþegar sem uppfylla ekki skilyrði sem eru gefin fyrir svokölluð rauð og dökkrauð lönd. Það eru nokkrir sem við höfum þurft að frávísa aftur til síns heima, en það er enginn fjöldi,“ segir Arngrímur. 

Slíkir farþegar dvelji á hóteli við flugvöllinn þar til þeir komast um borð í flug til síns heima. 

Þægilegra þegar farþegar eru bólusettir 

Arngrímur segir mun þægilegra að taka á móti farþegum sem eru bólusettir. 

„Þetta er mun þægilegra fyrir þau lönd sem farþegar koma bólusettir frá. Það er þægilegra fyrirkomulag, bara ein sýnataka og það er yfirleitt bara sama dag að það komi niðurstaða úr því. Við erum að bregðast við þessum aukna fjölda með því að færa til þessa aðstöðu. En í sjálfu sér er margt óljóst enn þá og síðan er spurning hvað sóttvarnayfirvöld gera,“ segir Arngrímur. 

Öryggisfyrirtæki og lögregla gæti að því að þeir sem þurfi að fara á sóttkvíarhótel skili sér um borð í rútu þangað. Þá séu í ákveðnum tilvikum undanþágur veittar af landlækni fyrir slíkri dvöl.

Arngrímur segir að talsverð aukning hafi verið í ferðalögum meðal Íslendinga, þá sérstaklega þeim sem eldri eru og hafa lokið bólusetningu. 

„Íslendingar hafa verið að streyma utan, sérstaklega til Spánar. Síðan hafa Íslendingar sem eru búsettir á Spáni verið að koma til Íslands fyrir sumarið. Það er aukning á því. Það má segja að fólk sé að nýta sér það að fara í frí þegar það er orðið bólusett. Þetta er meira eldra fólk sem er að ferðast til útlanda. Íslendingar eiga líka mikið af eignum á Spáni og það eru margir að fara og vitja eigna sinna,“ segir Arngrímur. 

mbl.is