Málhelti í kjölfar skólalokana

Kórónuveiran COVID-19 | 16. maí 2021

Mæli tvítyngdra nemenda hrakað í Danmörku

Fjórir danskir grunnskólastjórar hafa vakið máls á því að dönskukunnáttu tvítyngdra nemenda skóla þeirra hafi hrakað í langvinnum skólalokunum kórónuveirufaraldursins. Nemendurnir eigi hvort tveggja erfiðara með að tjá sig munnlega á dönsku og koma henni frá sér skriflega.

Mæli tvítyngdra nemenda hrakað í Danmörku

Kórónuveiran COVID-19 | 16. maí 2021

Danskir skólastjórnendur eru með böggum hildar yfir dönskukunnáttu tvítyngdra nemenda …
Danskir skólastjórnendur eru með böggum hildar yfir dönskukunnáttu tvítyngdra nemenda sem þeir segja hafa hrakað mjög eftir kórónuveirulokanir skólanna sem séu á við mörg sumarfrí í röð. Myndin er úr grunnskóla í Noregi. Ljósmynd/Utdanningsforbundet.no

Fjórir danskir grunnskólastjórar hafa vakið máls á því að dönskukunnáttu tvítyngdra nemenda skóla þeirra hafi hrakað í langvinnum skólalokunum kórónuveirufaraldursins. Nemendurnir eigi hvort tveggja erfiðara með að tjá sig munnlega á dönsku og koma henni frá sér skriflega.

„Fyrir kórónufaraldurinn bjó stór hluti nemenda okkar yfir takmörkuðum orðaforða. Þeir tala ef til vill ekki dönsku á heimilinu og tala kannski bara yfir höfuð ekki mikið. Svo þegar þeir koma ekki í skólann þar sem þeir æfa sína hversdagsorðræðu dragast margir aftur úr.“ Þetta segir Marco Damgaard, skólastjóri Tingbjerg-skólans í Kaupmannahöfn, þar sem fjórir af hverjum fimm nemendum eru af erlendu bergi brotnir, og kveður þróunina alvarlega.

Kennarar taki greinilega eftir að nemendunum er stirðara um stef eftir fjarveruna, þeir þurfi að hugsa sig lengur um til að finna réttu orðin auk þess sem þeir skjóti inn arabískum orðum í stað danskra eða bregði fyrir sig orðræðu sem ber keim af arabískum máleinkennum.

Á við mörg sumarfrí í röð

Svipuð tíðindi berast frá Strandgård-skólanum í Ishøj, Munkevængets-skólanum í Kolding og Søndervang-skólanum í Árósum. Kennararnir veita því athygli að börnum innflytjenda hefur farið aftur í dönskunni.

„Við heyrum það venjulega eftir sumarfríin að börnunum hefur förlast í málinu, þá hafa þau kannski ekki talað dönsku um tíma. En lokanirnar núna eru á við mörg sumarfrí í röð og því miður heyrist það glöggt á dönskukunnáttu sumra barnanna,“ segir Stine Kirk Jensen, skólastjóri Munkevængets-skólans.

Í sama streng tekur Rani Bødstrup Hørlyck, skólastjóri í Árósum. Orðaröð og uppbygging setninga sé breytt hjá mörgum barnanna og svipi oft meira til arabísku en dönsku, en mikil áhersla hafi einmitt verið lögð á það í fyrrahaust að hjálpa börnunum að greina milli málanna.

Getur haft miklar afleiðingar

Andreas Rasch-Christensen, rannsóknastjóri VIA-háskólans í Árósum, þar sem rannsóknir hafa meðal annars verið gerðar á mæli tvítyngdra barna, kveður ekki koma á óvart að danskan eigi undir högg að sækja eftir langvarandi skólalokanir.

Rasch-Christensen þekkir vel til „sumarfrísáhrifanna“ svokölluðu sem fram koma eftir að nemendur af erlendum uppruna hafa umgengist foreldra og aðra landa sína í sumarfríi frá skólanum. Kórónuveirulokunin marki þó mun dýpri spor að þessu leyti og þótt börnin hafi nú snúið aftur á skólabekkinn geti þessi langa fjarvist og „máltapið“ hjá þeim, sem höllustum fæti standa, haft langvarandi og alvarlegar afleiðingar.

Andreas Rasch-Christensen, rannsakandi og kennslufræðingur við VIA-háskólann í Árósum, segir …
Andreas Rasch-Christensen, rannsakandi og kennslufræðingur við VIA-háskólann í Árósum, segir afturförina geta haft áhrif á alla skólagöngu og framtíð barnanna verði ekki lagst á árarnar tímanlega. Ljósmynd/VIA

„Þetta getur auðveldlega haft áhrif á alla skólagöngu og framtíð barnanna sé ekki tekið á því af festu,“ segir Rasch-Christensen og leggur áherslu á orð sín. „Nú er ekki nóg að hugsa sem svo að börnin séu komin aftur í skólann og nú lagist allt. Vinna þarf upp það sem tapast hefur niður og það starf mun taka langan tíma,“ segir rannsakandinn.

Kallar eftir stuðningi og úrræðum

Danska ríkisútvarpið DR hefur sett sig í samband við stjórnendur fleiri skóla með hátt hlutfall tvítyngdra nemenda. Í sumum þeirra hefur verið brugðið á það ráð að útvega nemendum tímabundna sérkennslu sem þó hafi víða verið vandræðum háð þegar upp hafi komið hópsmit í skólunum og þurft að senda nemendur heim rétt einu sinni.

Stine Kirk Jensen í Munkevængets-skólanum í Kolding kallar eftir aðstoð hins opinbera við að snúa þróuninni við, skólarnir þurfi stuðning og úrræði til að sinna þeim nemendum sínum sem nú standa höllum fæti eftir langvarandi fjarvistir. Mikið sé í húfi.

„Við eigum að notast miklu meira við einn-með-einum-kennslu, stjórnmálamennirnir verða að setja það í forgang núna,“ segir hún og á við kennslufyrirkomulag þar sem kennari sinnir einum nemanda í einu.

Foreldrarnir oft líka að læra dönsku

Fréttamaður DR spyr þá út í ábyrgðarhluta foreldranna, eiga þeir ekki að hlutast til um að börn þeirra búi við nothæfa dönskukunnáttu?

„Vissulega bera foreldrar mikla ábyrgð á málþróun barna sinna, en margir foreldrar eru ekki í stakk búnir til að tala dönsku við börnin sín eða lesa fyrir þau á dönsku, foreldrarnir eru kannski sjálfir í tungumálaskólum sem hafa verið lokaðir í faraldrinum. Auk þess er það bara þannig að við sem samfélag verðum að koma til aðstoðar og leggja okkar lóð á vogarskálina,“ segir skólastjórinn í Kolding.

Jens Joel er þingmaður danska Jafnaðarmannaflokksins og talsmaður hans í málefnum barna og kennslu. Kveður hann athygli ríkisstjórnarinnar á málinu vakta og úrbætur væntanlegar. „Við erum einmitt núna í viðræðum við hina flokkana um hvernig við getum komið til móts við kennslutapið og tryggt að nemendur finni sig í náminu eftir lokanirnar. Von mín er að við komumst að samkomulagi sem tryggir að skólarnir geti lyft grettistaki í þessum efnum þar sem þörf er á að loknu sumarfríi,“ segir þingmaðurinn við DR.

DR

DRII (fjárveiting til höfuðs vandanum)

TV2 (skólalokanir í Esbjerg vegna smitaukningar)

mbl.is