Hitti gerandann 11 árum eftir brotið

MeT­oo - #Ég líka | 23. maí 2021

Hitti gerandann 11 árum eftir brotið

Eftir að Fjóla Sigurðardóttir opnaði sig um kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir sem barn komst hún í samband við þrjár aðrar konur sem sögðust hafa verið beittar ofbeldi af sama geranda. Fjóla samþykkti nýverið að hitta manninn, ellefu árum eftir að hann braut á henni, og vonaðist til þess að hann myndi viðurkenna brot sín. Það gerði hann ekki.

Hitti gerandann 11 árum eftir brotið

MeT­oo - #Ég líka | 23. maí 2021

„Hann vildi ekki viðurkenna að það sem hann gerði hafi …
„Hann vildi ekki viðurkenna að það sem hann gerði hafi verið rangt,“ segir Fjóla um fundinn við gerandann. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Eftir að Fjóla Sigurðardóttir opnaði sig um kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir sem barn komst hún í samband við þrjár aðrar konur sem sögðust hafa verið beittar ofbeldi af sama geranda. Fjóla samþykkti nýverið að hitta manninn, ellefu árum eftir að hann braut á henni, og vonaðist til þess að hann myndi viðurkenna brot sín. Það gerði hann ekki.

Eftir að Fjóla Sigurðardóttir opnaði sig um kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir sem barn komst hún í samband við þrjár aðrar konur sem sögðust hafa verið beittar ofbeldi af sama geranda. Fjóla samþykkti nýverið að hitta manninn, ellefu árum eftir að hann braut á henni, og vonaðist til þess að hann myndi viðurkenna brot sín. Það gerði hann ekki.

Fjóla er annar stjórnandi hlaðvarpsins Eigin konur. Í hlaðvarpinu hafa Fjóla og Edda Falak að miklu leyti beint augum að kynferðisofbeldi og misrétti í samfélaginu. Hlaðvarpinu var hleypt af stokkunum í lok mars. Nokkrum mánuðum síðar hófst önnur bylgja #Metoo og hafa Fjóla og Edda tekið virkan þátt í henni og báðar opnað sig um ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir. Þá stóðu þær einnig að gerð myndbandsins „Við trúum þolendum“ þar sem þolendum kynferðisofbeldis er sýndur stuðningur.

Fjóla segir seinni bylgjuna nauðsynlega.

„Þetta þurfti virkilega að gerast,“ segir Fjóla í samtali við mbl.is.

Fjóla greindi foreldrum sínum frá kynferðislega ofbeldinu fyrir stuttu. Hún segir að foreldrar upplifi gjarnan skömm þegar þeir komast að því að börn þeirra hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

„Mamma og pabbi voru í auðvitað áfalli, enda að heyra þetta í fyrsta skipti. Það var ekki það að ég treysti þeim ekki fyrir þessu heldur var þetta skömm hjá mér, eins og ég hefði brugðist þeim. En auðvitað leið þeim svoleiðis að þau hefðu brugðist mér. Ég útskýrði fyrir þeim að þau hefðu ekkert getað passað mig betur en þau gerðu, skömmin væri hans, ekki okkar,“ segir Fjóla.

„Ég er henni ævinlega þakklát“

Nýlega greindi hún líka vinkonum sínum frá því að henni hafi verið nauðgað þegar hún var 13 ára. Í kjölfarið fékk hún að heyra af því að önnur kona hefði stigið fram með mjög sambærilega lýsingu. Eftir smá umhugsun ákvað Fjóla að setja sig í samband við konuna.

„Við töluðum saman og áttum okkur þá á því að sami maður hafi brotið á okkur. Ég er henni ævinlega þakklát, hún hjálpaði mér að opna mig,“ segir Fjóla.

„Svo stigu tvær aðrar stelpur fram og höfðu samband við okkur þannig að við erum orðnar fjórar í dag. Við stöndum þétt við bakið hver á annarri og höfum hist og rætt okkar sögur í trúnaði. Það var átakanlegt.“

Vildi vita á hvaða stað maðurinn væri andlega

Aðspurð segir Fjóla að þótt það sé ömurlegt að fleiri konur hafi verið beittar ofbeldi af umræddum geranda hafi það styrkt hana að ræða við brotaþolana þrjá.

„Ég var með algjörlega brotna sjálfsmynd í mörg, mörg ár. Þolendum líður illa, eins og þetta sé algjör skömm. Ég er búin að vera í ellefu ár að púsla sjálfsmyndinni minni saman. Mér leið eins og þetta væri allt mér að kenna og við tengdum svolítið þar,“ segir Fjóla.

Fyrr í maímánuði, eftir að Fjóla deildi sinni reynslu á samfélagsmiðlinum Instagram, hafði þriðji aðili samband við hana og sagði að sá sem braut á henni vildi hitta hana. Hún var fyrst ekki viss um að það væri góð hugmynd en tók svo ákvörðun um að hitta manninn.  

„Ég ákvað að hitta hann til þess að vita á hvaða stað hann væri andlega. Þarna gaf ég honum tækifæri til að viðurkenna það sem hann hafði gert og gera sér grein fyrir því að það sem hann gerði væri rangt. Ég vonaði að hann væri betri maður í dag, sem var því miður ekki raunin. Það var áfall út af fyrir sig. Hann vildi ekki viðurkenna að það sem hann gerði hefði verið rangt.“

„Þetta þurfti virkilega að gerast,“ segir Fjóla um seinni bylgju …
„Þetta þurfti virkilega að gerast,“ segir Fjóla um seinni bylgju #Metoo sem fór af stað í byrjun maímánaðar. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Mælir ekki með sömu leið fyrir alla aðra

Maðurinn bað Fjólu fyrirgefningar á því að hún hefði upplifað það að hann hefði brotið á henni en baðst ekki afsökunar á því að hafa brotið á henni. Fjóla sagði honum þá að hún vonaði að hann myndi leita sér aðstoðar.

„Ég sagði honum líka að hann ætti ekki að verða betri maður fyrir mig heldur fyrir vini sína, fjölskyldu og sjálfan sig.“

Fjóla segir aðspurð að hún sé ánægð að hafa ákveðið að hitta þann sem braut á henni en það þýði ekki að sú leið sé vænleg fyrir alla. Hún hafi einfaldlega sjálf verið tilbúin í að feta þessa braut en hún fór til sálfræðings tveimur tímum áður en þau hittust. Sálfræðingurinn tjáði henni að það gæti orðið henni áfall að hitta manninn en vonandi yrði það til þess að hún tæki nokkur skref fram á við.

„Ég mæli ekki með því að fólk fari þessa leið. Ef fólk ákveður að gera það er best að vera búin að fara í gegnum þetta með fagaðila og fara til fagaðila eftir á til þess að halda vel í andlegu heilsuna því það er það sem skiptir mestu máli,“ segir Fjóla.

„Mér fannst mjög gott að hafa hitt hann þótt hann sé ekki á þeim stað sem ég vildi að hann væri á. Ég fór algjörlega á réttum tíma í mínu lífi, bara fyrir ári hefði ekki verið rétti tíminn fyrir þetta verkefni. Í dag er ég búin að skila skömminni og ég var ekki lengur reið. Ég tók algjörlega mitt pláss til baka. Þótt hann hafi ekki viðurkennt að það sem hann gerði var rangt er ég ekki hrædd við hann lengur.“

Hlakkar til að taka fleiri framfaraskref

Eftir fundinn með gerandanum og þriðja aðila segist Fjóla finna fyrir framförum hjá sjálfri sér þótt hún eigi erfiða daga og að fundurinn hafi verið visst áfall.

„Ég fékk smá skell nokkrum dögum eftir þetta. Þá vissi ég bara hvers vegna mér leið eins og mér leið. Í dag held ég að ég sé komin tvö skref fram á við og ég hlakka bara til að taka fleiri framfaraskref,“ segir Fjóla.

Þolend­ur kyn­ferðisof­beld­is og aðstand­end­ur þeirra geta leitað sér hjálp­ar hjá Stíga­mót­um. Hægt er að hafa sam­band í síma 562-6868 eða senda tölvu­póst á stiga­mot@stiga­mot.is.

mbl.is