Samdrátturinn 1,7%

Kórónukreppan | 31. maí 2021

Samdrátturinn 1,7%

Áætlað er að landsframleiðsla hafi dregist saman um 1,7% að raungildi á fyrsta ársfjórðungi 2021 borið saman við sama tímabil fyrra árs.

Samdrátturinn 1,7%

Kórónukreppan | 31. maí 2021

Einkaneysla innanlands er farin að aukast að nýju.
Einkaneysla innanlands er farin að aukast að nýju. mbl.is/​Hari

Áætlað er að landsframleiðsla hafi dregist saman um 1,7% að raungildi á fyrsta ársfjórðungi 2021 borið saman við sama tímabil fyrra árs.

Áætlað er að landsframleiðsla hafi dregist saman um 1,7% að raungildi á fyrsta ársfjórðungi 2021 borið saman við sama tímabil fyrra árs.

Á sama tíma er áætlað að þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, hafi aukist um 1,7% að raungildi, einkaneysla um 0,8%, samneysla um 2,9% en áætlað er að fjármunamyndun hafi dregist saman um 2,9%.

Þar sem útflutningur dróst meira saman en innflutningur á fyrsta ársfjórðungi 2021 er framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar í heild neikvætt segir í tilkynningu á vef Hagstofu Íslands.

Samdráttur í útflutningi 20%

Á fyrsta ársfjórðungi 2021 mældist samdráttur í flestum undirliðum utanríkisviðskipta en áætlað er að útflutningur hafi dregist saman um 20% að raungildi á sama tíma og innflutningur dróst saman um 11,3%. Áhrif utanríkisviðskipta á hagvöxt eru því neikvæð á tímabilinu.

„Samdráttur í útfluttri þjónustu mældist 52% á tímabilinu en vöxtur í vöruútflutningi mældist 4,6%. Samdráttur í vöruinnflutningi mældist 1,5% en 30% samdráttur mældist í þjónustuinnflutningi. Vöruútflutningur var áætlaður 165 milljarðar króna á fyrsta ársfjórðungi 2021 en vöruinnflutningur 186,8 milljarðar króna.

Vöruviðskiptajöfnuður var því áætlaður neikvæður um 21,9 milljarða króna. Þjónustujöfnuður var áætlaður neikvæður um 10,9 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi 2021 en það er í fyrsta skipti síðan árið 2007 sem þjónustujöfnuður mælist neikvæður á ársfjórðungsgrunni. Útflutt þjónusta var áætluð 58,7 milljarðar króna á tímabilinu en innflutt þjónusta 69,6 milljarðar króna,“ segir á vef Hagstofu Íslands.

Eftir samfelldan samdrátt í einkaneyslu síðustu þrjá ársfjórðunga mældist hóflegur vöxtur á fyrsta ársfjórðungi borið saman við sama tímabil fyrra árs eða 0,8%. Líkt og síðastliðna ársfjórðunga eykst einkaneysla heimila innanlands en neysla Íslendinga erlendis dregst umtalsvert saman.

Áætlað er að fjármunamyndun atvinnuveganna hafi dregist saman um 4,9% að raungildi á fyrsta ársfjórðungi borið saman við sama tímabil fyrra árs. Að frádreginni fjárfestingu í skipum, flugvélum og stóriðju er áætlað að fjármunamyndun atvinnuveganna hafi staðið í stað að raungildi á fyrsta ársfjórðungi borið saman við sama tímabil fyrra árs. 

mbl.is