Þriðjungur kvenna hefur upplifað áreitni í vinnu

MeT­oo - #Ég líka | 6. júní 2021

Þriðjungur kvenna hefur upplifað áreitni í vinnu

Um þriðjungur íslenskra kvenna hefur lent í kynferðisáreitni á vinnustað einhvern tímann yfir ævina. Þar af hafa 8% upplifað áreitni á núverandi vinnustað.

Þriðjungur kvenna hefur upplifað áreitni í vinnu

MeT­oo - #Ég líka | 6. júní 2021

Þriðjungur íslenskra kvenna á aldrinum 18 til 69 ára hefur …
Þriðjungur íslenskra kvenna á aldrinum 18 til 69 ára hefur orðið fyrir kynferðisáreitni á vinnustað. mbl.is/Hari

Um þriðjungur íslenskra kvenna hefur lent í kynferðisáreitni á vinnustað einhvern tímann yfir ævina. Þar af hafa 8% upplifað áreitni á núverandi vinnustað.

Um þriðjungur íslenskra kvenna hefur lent í kynferðisáreitni á vinnustað einhvern tímann yfir ævina. Þar af hafa 8% upplifað áreitni á núverandi vinnustað.

Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar sem byggir á svörum 15.799 íslenskra kvenna á aldrinum 18 til 69 ára. Telja höfundar að þetta sé í fyrsta sinn sem lýðgrunduð rannsókn af þessu tagi sé gerð þvert á atvinnugreinar en þetta verkefni er hluti af vísindarannsókninni Áfallasaga kvenna.

Hæsta tíðni kynferðisáreitni á núverandi vinnustað mældist meðal kvenna sem störfuðu sem opinberar persónur, í ferðamannaþjónustu og við lög- og öryggisgæslu. Voru þá konur sem voru einhleypar, háskólamenntaðar, samkynhneigðar og tvíkynhneigðar einnig í meiri hættu á kynferðisáreitni á vinnustöðum en aðrar konur.

Svava Dögg Jónsdóttir, doktorsnemi hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum, segir niðurstöðurnar ekki koma mikið á óvart en sambærilegt hlutfall er að finna í öðrum Evrópulöndum þótt tölurnar séu aðeins hærri hér á landi, sérstaklega í samanburði við hinar Norðurlandaþjóðirnar.

Yngri konur líklegri til að hafa upplifað áreitni

Þá eru konur yngri en 44 ára líklegri en konur á aldrinum 60 til 69 ára til að hafa upplifað kynferðisáreitni á vinnustað einhvern tímann á lífsleiðinni. Kom þetta rannsakendum á óvart enda líklegra að konur sem hafa verið lengur á vinnumarkaði hafi orðið fyrir áreitni.

Svava Dögg Jónsdóttir, doktorsnemi hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum.
Svava Dögg Jónsdóttir, doktorsnemi hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum. Ljósmynd/Aðsend

Segir Svava að mögulega megi rekja þessar niðurstöður til viðhorfsbreytinga milli kynslóða gagnvart kynferðisáreitni auk þess sem minnið geti haft áhrif.

„Þessar konur þurfa að rifja upp atvik sem áttu sér kannski stað fyrir mörgum tugum ára og gæti það leitt til vanmats á algengi kynferðisáreitni. Einnig gæti verið kynslóðamunur á því hvað konur telja vera kynferðisáreitni sem gæti skýrt þennan mun.“

Tíðni mældist hæst í hópi atvinnulausra

Mældist þá tíðni kynferðisáreitis yfir lífsleiðina hvað mest í hópi atvinnulausra kvenna, en 44% þeirra höfðu orðið fyrir því á fyrrverandi vinnustað. 

Spurð hvort mögulegt sé að draga einhverjar ályktanir út frá þessari tölfræði segir Sunna að hægt sé að gera ráð fyrir einhverri fylgni þar á milli. „Já, rannsóknir erlendis hafa sýnt að konur sem hafa orðið vitni að eða lent í kynferðisáreitni eru líklegri til að hætta sökum þess.“

Þjónustustörf bjóða upp á meiri hættu

Bendir þá Svava á að þær starfsgreinar þar sem áreitni mælist hvað mest virðast flestar eiga það sameiginlegt að konurnar eru í samskiptum við mikið af fólki eins og til dæmis í þjónustustörfum. Í þeim atvinnugeira eru konur ekki eingöngu í hættu að vera áreittar af yfirmönnum og samstarfsfélögum, heldur einnig viðskiptavinum, skjólstæðingum og sjúklingum. Samskipti við fleira fólk virðist því auka líkur á áreitni.

Á heildina litið bendir rannsóknin til að konur á skrifstofum, í dagvinnu og í yfirmannsstöðum séu ekki jafn líklegar til að verða fyrir áreitni.

Rannsóknin heldur áfram

Stefnir rannsóknarteymið á að kynna niðurstöður fyrir þá sem geta komið af stað breytingum, meðal annars stéttarfélögum.

Rannsókninni er þó hvergi nærri lokið en þessar niðurstöður eru einn hluti af þremur í doktorsverkefni Svövu en næstu skref fela í sér að skoða heilsufarslegar afleiðingar sem kynferðisleg áreitni hefur á konur.

mbl.is