Óljóst hvenær fólk með mótefni verður bólusett

Kórónuveiran COVID-19 | 15. júní 2021

Óljóst hvenær fólk með mótefni verður bólusett

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir líklegt að þeir sem hafa áður greinst með Covid-19 fái bólusetningu en alls óvíst sé hvenær það verði gert. 

Óljóst hvenær fólk með mótefni verður bólusett

Kórónuveiran COVID-19 | 15. júní 2021

Þórólfur segir óljóst hvenær fólk með mótefni verður bólusett.
Þórólfur segir óljóst hvenær fólk með mótefni verður bólusett. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir líklegt að þeir sem hafa áður greinst með Covid-19 fái bólusetningu en alls óvíst sé hvenær það verði gert. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir líklegt að þeir sem hafa áður greinst með Covid-19 fái bólusetningu en alls óvíst sé hvenær það verði gert. 

„Það er svolítið breytilegt eftir löndum hvað menn vilja gera með bólusetningar þeirra sem hafa fengið Covid. Það er mjög líklegt að þeim verði boðin bólusetning en það er ekki búið að ákveða nákvæmlega hvenær það verður. Við gætum þurft að slaka aðeins á bólusetningum núna í júlí til að leyfa fólki að komast aðeins í sumarfrí þannig að í júlí verður sennilega eingöngu gefin bólusetning tvö en ekki ný bólusetning. Þetta mun dragast eitthvað aðeins áfram að bólusetja alla,“ segir Þórólfur. 

Mega ekki þiggja afgangsbóluefni

Eins og staðan er núna má þessi hópur ekki mæta í Laugardalshöll og þiggja bólusetningu þegar hún er opin öllum, eins og komið hefur fyrir á síðustu dögum, þegar klára þarf skammta.

Aðspurður hvers vegna það sé segir Þórólfur að verið sé að leggja áherslu á þau sem hafa ekki smitast af kórónuveirunni. „Þeir sem hafa fengið Covid eru langsamlega flestir vel varðir þannig að það er ekki forgangsverkefni að bólusetja þá,“ segir hann. Ástæðan fyrir því að fólk sem hefur fengið Covid er bólusett víða er sú að mótefni þess gæti dalað með tímanum. 

Þá sé ekki samræmt vottorð til staðar sem fólk með mótefni getur notað til að ferðast á milli landa. „Það er mismunandi eftir löndum hvort þeir taka slík vottorð gild eða ekki. Við gerum það, en það eru ekki allar þjóðir sem gera það,“ segir Þórólfur.

Þá segir hann að það verði reynt að koma til móts við fólk með mótefni sem þarf á bólusetningu að halda af einhverjum ástæðum, til dæmis vegna þess að það er á leið í nám erlendis. Hann ítrekar þó að það sé búið að vera gríðarlegt álag á starfsfólki og að það sé mikilvægt að gefa fólki frí í júlí.

Bólusetning í Laugardalshöll.
Bólusetning í Laugardalshöll. mbl.is/Kristinn Magnússon

Erfitt að segja um ástæður þess að færri mæta

Dregið hefur lítillega úr mætingu í bólusetningu undanfarið. 

Ég veit ekki hvernig á að túlka þetta, hvort þetta sé aldurshópurinn sem er verið að boða. Hvort yngra fólk sé eitthvað tregara almennt til að mæta í bólusetningu eða hvort þetta hafi eitthvað með Janssen-bóluefnið að gera, það verður að koma svolítið í ljós. Svo er það náttúrlega þannig að fólk getur verið að mæta síðar þannig að það er erfitt að segja nákvæmlega af hverju þetta stafar,“ segir Þórólfur. 

Hann bendir á að margt yngra fólk gæti verið rangt skráð í Heilsuveru og hvetur fólk til að fara yfir hvort til dæmis símanúmer þess sé rétt skráð. 

„Af hverju ekki 300 eins og 500?"

Aðspurður hvers vegna hámarksfjöldi fólks sem má koma saman var hækkaður í 300 frekar en 500 eins og var í fyrra, nú þegar ástandið er orðið gott og margir bólusettir, segir Þórólfur töluna ekki skipta miklu máli. 

Ein tala umfram aðra er ekki heilög. Þannig að þá get ég spurt á móti: af hverju ekki 300 eins og 500? Það breytir ekki miklu fyrir marga staði. Það sem breytir meiru fyrir starfsemi í landinu er að breyta nándarreglunni eins og við gerðum. Við höfum talað um það að fara frekar hægt í þetta og þess vegna held ég að það sé mikilvægara núna að breyta nándarreglunni og fella hana jafnvel niður á einhverjum stöðum,“ segir hann.

Ég bendi líka á að við erum með minni takmarkanir en flestar aðrar þjóðir í kringum okkur þannig að ég held að við getum bara vel við unað.“

mbl.is