Með klúbbastrípur og eyrnalokk í Berlín

Fatastíllinn | 17. júní 2021

Með klúbbastrípur og eyrnalokk í Berlín

Halldór Armand Ásgeirsson rithöfundur er alltaf flottur til fara en dæmir engan út frá klæðaburði. Skemmtilegasti maður sem hann þekkir gæti alveg eins búið í tunnu eins og Díógenes og haft engan áhuga á tísku. 

Með klúbbastrípur og eyrnalokk í Berlín

Fatastíllinn | 17. júní 2021

Halldór Armand rithöfundur dæmir fólk ekki eftir klæðaburði.
Halldór Armand rithöfundur dæmir fólk ekki eftir klæðaburði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halldór Armand Ásgeirsson rithöfundur er alltaf flottur til fara en dæmir engan út frá klæðaburði. Skemmtilegasti maður sem hann þekkir gæti alveg eins búið í tunnu eins og Díógenes og haft engan áhuga á tísku. 

Halldór Armand Ásgeirsson rithöfundur er alltaf flottur til fara en dæmir engan út frá klæðaburði. Skemmtilegasti maður sem hann þekkir gæti alveg eins búið í tunnu eins og Díógenes og haft engan áhuga á tísku. 

Hvernig myndir þú lýsa eigin fatastíl?

„Það er ekkert eitt ráðandi trend en mér hefur samt alltaf liðið vel í sportý-stíl, sem sagt íþróttapeysum og hlaupastrigaskóm og svo framvegis. Ég geng í raun oft í svipuðum fötum núna og þegar ég var kannski 13 til 14 ára. Annars er þetta frekar klassískt bara, ég geng í Levi's 501 og Dr Martens-skóm.“

Ertu sammála því að föt og það hvernig einstaklingur ber sig – segi mikið til um persónuleika hans?

„Ég er ekkert endilega svo viss um það. Sumir fá útrás fyrir sköpunargleði sína gegnum tísku og stíl, aðrir ekki. Skemmtilegasti maður sem ég þekki gæti alveg eins búið í tunnu eins og Díógenes og hefur engan áhuga á tísku. Svo eru aðrir sem kaupa sér strigaskó fyrir hundrað þúsund kall og eru alltaf á leiðinni í eða nýkomnir úr klippingu.“

Halldór klæðist vanalega sportlegum fatnaði.
Halldór klæðist vanalega sportlegum fatnaði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Með krosseyrnalokk og klúbbastrípur

Hvaða áhrif hafði það á þig að búa í Berlín?

„Ég var ekki búinn að búa lengi í Berlín þegar ég leit einn daginn í spegil og var kominn með krosseyrnalokk og klúbbastrípur. Maður er í sífelldri mótun. Ég trúi á hina eilífu endurnýjun.“

Klæðumst við öðruvísi ástfangin en í ástarsorg?

„Hamlet Danaprins klæðist svörtum sorgarklæðum í samnefndu leikriti Shakespeares. Ég hef klæðst svörtu yfir löng tímabil. Hvað ætli það sé við svörtu fötin? Ætli það sé ekki einhver hluti af okkur sem vill hverfa og verða að engu þegar við syrgjum.“

Hvað væri gaman að prófa tengt fatnaði og stíl – fyrir þá sem eru að bugast á ástandinu?

„Er ekki stóra baráttan alltaf við mann sjálfan? Það getur verið snúið að átta sig á því hvað maður nákvæmlega vill. Ég hvet fólk bara til þess að storka sjálfu sér og láta ekki umhverfið aftra sér frá því að klæða sig eins og það vill. Það eru engin raunveruleg hlutverk. Við erum okkar eigin sköpunarverk.“

Ef þú mættir gefa eitt gott tískuráð, hvað væri það?

„Kannski bara að hafa þetta í huga með að það eru engin raunveruleg hlutverk í heiminum. Það er ekkert eitt svar til um okkur, engin ein lausn, enginn einn stíll sem hæfir okkur. Hið eina sanna frelsi er að enduruppgötva sjálfan sig í sífellu og leyfa sér að verða að einhverju nýju.“

Hamingjusamasta fólkið eigi eiginlega engin föt

Þarf maður að eiga mikið af fötum til að vera hamingjusamur?

„Vitur maður sagði mér einu sinni að stundum sé ein ný peysa allt sem maður þarf til að líða ferskum. Stundum þurfum við bara eitthvað nýtt inn í líf okkar. Ég get alveg ímyndað mér að hamingjusamasta fólk í heimi eigi eiginlega engin föt. En ég held að það sé rosalega erfitt að ná slíkum andlegum þroska.“

Hver eru bestu fatakaupin sem þú hefur gert?

„Bleiki gallajakkinn minn. Franskur sirkúslistamaður gaf mér hann árið 2005 eftir að ég hafði hrósað honum. Þegar hann klæddi sig úr honum sagði hann með rammfrönskum hreim: „I don't care about material things.“

Af hvernig klæddum konum og körlum heillast þú?

„Það er dálítið erfitt að svara því. Svolítið eins og að reyna að útskýra af hverju brandari er fyndinn eða sólarlag fallegt. Sumt fólk er bara svo glæsilegt og töfrandi. Þetta liggur í fasi og og fínhreyfingum, hinu næma auga. Sumir geta gert allt töff og aðlaðandi bara með því að vera þeir sjálfir.“

Ertu með fordóma fyrir einhverri tegund af klæðnaði?

„Ég held ekki. Það kemur í það minnsta ekkert upp í hugann. Ég fer aldrei í jakkaföt en ég veit ekki alveg af hverju. Finn mig bara ekki í þeim.“

Erfitt að finna almennilega neon-græna strigaskó

Hvað með skó – skipta þeir máli?

„Skór geta alveg verið vandmeðfarnir. Það tók mig þrjá mánuði að finna mér almennilega neon-græna strigaskó. Að því sögðu er ég meðvitaður um að Þórbergur Þórðarson gat lengi vel ekki farið út úr kvistherberginu sínu á Hringbraut því hann átti bara eitt par af skóm sem var götótt. Hann gat skrifað vel þrátt fyrir það svo skór skipta kannski ekki beinlínis sköpum í lífinu.“

Finnst þér þrengri rammi settur utan um karlmenn en konur þegar kemur að tískunni?

„Nei, er hann ekki einmitt víðari?“

Hvernig finnst þér karlar með eyrnalokka og jafnvel naglalökk?

„Ég er sjálfur með tvo eyrnalokka. Mig hafði dreymt um þetta í mörg ár að fá mér svona stóran hring í eyrað eins og George Michael var með þegar hann var mest töff. Vera svo mikið í víðum, ljósbláum gallabuxum og skjannahvítum bol. Síðan smitaði ég frænda minn af þessu og hann kýldi einhvern tímann á þetta eftir tvo bjóra í Brussel. Það var sparkið í rassinn sem ég þurfti og núna er ég búinn að taka fram úr honum með mína tvo. Vinir mínir eru oft með naglalakk en ég finn mig ekki alveg með það.“

Er eitthvað í tískunni núna í dag sem þú ert sérstaklega hrifinn af?

„Hafandi verið unglingur í lok næntís og byrjun aldarinnar er ég alveg mjög hrifinn af þessum aldamótastraumi í tískunni í dag. Að einhverju leyti er ég meira næntís núna en ég var í næntís.“

Halldór er á því að ef maður elskar einhvern fer …
Halldór er á því að ef maður elskar einhvern fer maður að elska allt í fari þess einstaklings. Hvort sem það er útlit, fatastíll eða jafnvel bíltegundina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hetjur lifa fyrir aðra

Oscar Wilde skrifaði eitt sinn: „You don't love someone for their looks, or their clothes, or for their fancy car, but because they sing a song only you can hear.“ – Ertu sammála því?

„Það er auðvitað á sinn hátt alveg rétt hjá Wilde. Hins vegar er það þannig að þegar þú elskar einhvern, þá ferðu að elska allt í fari hans, hvort sem það eru smáatriði í útliti, fatastíll eða þess vegna bíltegund. Svo ég myndi segja að auðvitað elskarðu ekki fólk út af útliti eða fötum, en þegar þú elskar aðra manneskju þá er útlit hennar og stíll hluti af þessum söng sem þú einn heyrir og elskar.“

mbl.is