„Það er alltaf einhver eftir, það er vandamálið“

Bólusetningar við Covid-19 | 12. júlí 2021

„Það er alltaf einhver eftir, það er vandamálið“

Á Vestfjörðum verður því fagnað að bólusetningum gegn Covid-19 sé svo gott sem lokið með svokallaðri bólulokahátíð þegar hlé verður gert á bólusetningum fram í ágúst. Á Suðurlandi er starfsfólk í startholunum fyrir þriðju bólusetningu ef hún skyldi verða nauðsynleg.

„Það er alltaf einhver eftir, það er vandamálið“

Bólusetningar við Covid-19 | 12. júlí 2021

Bólusett við frábærar aðstæður á Ísafirði í maímánuði.
Bólusett við frábærar aðstæður á Ísafirði í maímánuði. Ljósmynd/Hvest

Á Vestfjörðum verður því fagnað að bólusetningum gegn Covid-19 sé svo gott sem lokið með svokallaðri bólulokahátíð þegar hlé verður gert á bólusetningum fram í ágúst. Á Suðurlandi er starfsfólk í startholunum fyrir þriðju bólusetningu ef hún skyldi verða nauðsynleg.

Á Vestfjörðum verður því fagnað að bólusetningum gegn Covid-19 sé svo gott sem lokið með svokallaðri bólulokahátíð þegar hlé verður gert á bólusetningum fram í ágúst. Á Suðurlandi er starfsfólk í startholunum fyrir þriðju bólusetningu ef hún skyldi verða nauðsynleg.

Hlé verður gert á bólusetningu á flestum svæðum á landinu í þessari viku eða þeirri næstu. Á Suðurlandi halda endurbólusetningar þó áfram í júlí og ágúst.

Um 90% Íslendinga sem fæddir eru árið 2005 eða fyrr hafa nú þegar fengið bólusetningu og telja þeir framkvæmdastjórar hjúkrunar sem mbl.is ræddi við að flestir sem vilji bólusetningu hafi þegar fengið slíka. Þó séu alltaf einhverjir eftir og hefur aðeins verið um að foreldrar hafi óskað eftir bólusetningum fyrir börn sín sem hafa náð 12 ára aldri. Í nokkrum tilvikum hefur heilbrigðisstarfsfólk orðið við því, þá helst í tilvikum barna sem eru í þann veginn að flytja úr landi. Börn eru ekki boðuð í bólusetningu sem stendur en foreldrar geta óskað eftir bólusetningu þeirra.

Frá bólusetningu á Akureyri. Hlé verður gert á bólusetningu þar …
Frá bólusetningu á Akureyri. Hlé verður gert á bólusetningu þar eins og víða annars staðar. mbl.is/Margrét Þóra

Þakka starfsfólkinu fyrir sitt framlag

Á Vestfjörðum verður bólusett í þessari viku og svo skellur á sumarfrí. Fyrstu bólusetningum á Vestfjörðum er svo til lokið, í bili í það minnsta, en það var auglýst fyrir nokkrum vikum að 24. júní væri síðasti dagurinn til þess að fá fyrstu bólusetningu þar.

„Það er einn og einn sem á eftir að fá bólusetningu, helst skólafólk sem er að koma erlendis frá. Þetta er þá fólk sem er í námi erlendis og hefur ekki fengið bólusetningu þar,“ segir Hild­ur Elísa­bet Pét­urs­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heil­brigðis­stofn­un Vest­fjarða.

Hildur segir það mikinn létti að hafa náð eins útbreiddri bólusetningu og raun ber vitni.

„Við ætlum að halda svona bólulok. Þá verður hátíð hjá okkur. Þá ætlum við að bjóða öllum sem hafa hjálpað okkur, því þetta er náttúrlega allt gert hérna innan veggja sjúkrahússins. Við höfum verið að nota matsal starfsfólks til bólusetninga svo það hafa allir þurft að sýna tillitssemi og allir gert það einhvern veginn. Við ætlum aðeins að segja takk við starfsfólkið okkar. Þannig að við ætlum að hafa bólulokahátíð.“

Beðið eftir bólusetningu í Laugardalshöll. Þar fara síðustu bólusetningar fyrir …
Beðið eftir bólusetningu í Laugardalshöll. Þar fara síðustu bólusetningar fyrir sumarfrí fram á miðvikudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Langt sumarfrí ekki í kortunum á Suðurlandi

Á Suðurlandi verður „ekkert stórt“ sumarfrí tekið, að sögn Baldvinu Ýrar Hafsteinsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

„Við ætlum að halda áfram með bólusetningu númer tvö hjá okkur einu sinni til tvisvar í viku en við erum ekki að fara að taka fyrstu bólusetningar,“ segir Baldvina.

Spurð hvort hún telji að öll þau sem vildu fá bólusetningu hafi fengið í það minnsta fyrsta skammt af bóluefni segir Baldvina:

„Það er alltaf einhver eftir, það er vandamálið. Það er þá helst fólkið sem er ekki upplýst um þessar bólusetningar. Innflytjendur, starfsfólk sem starfar í ferðaþjónustu og aðrir sem eru að uppgötva þetta núna. Við reynum eftir bestu getu að bjóða fólki bólusetningu, sérstaklega ef við vitum um einhverja einstaklinga og eigum auka efni.“

Baldvina á von á því að aftur verði fólki sem á eftir að fá fyrstu bólusetningu boðið í slíka bólusetningu í ágúst.

Spurð hvernig tilfinning það sé að hafa náð eins útbreiddri bólusetningu og raun ber vitni segist Baldvina ekki vera farin að fagna enn, þá sérstaklega vegna nýrra og meira smitandi afbrigða af veirunni, sem og vegna fregna af því að mögulega verði nauðsynlegt fyrir fólk að fá auka skammt af bóluefni til þess að verjast afbrigðunum. 

„Við erum eiginlega búin að setja okkur í startholurnar fyrir þriðju bólusetningu ef þess skyldi þurfa. Þannig að ég held að það sé enginn farinn að anda neitt léttar enn þá. Það eru allir bara að bíða og sjá hvað verður,“ segir Baldvina. „Við erum ekki farin að fagna því að þessu sé „lokið“. Nú eru þessi nýju afbrigði að koma fram, það þarf að koma í ljós hvort við þurfum að bregðast við því. Ég held að allir séu enn bara í startstöðu þótt akkúrat núna sé kannski kærkomin lognmolla.“

Starfsfólki seint fullþakkað

Á Austurlandi verður bólusett í þessari viku og aðeins í þeirri næstu. Eftir það fer bólusetningin í sumarfrí. Jón­ína Óskars­dótt­ir, fag­stjóri hjúkr­un­ar á heilsu­gæslu­sviði Heil­brigðis­stofn­unar Aust­ur­lands, segir útlit fyrir að nánast allir sem vilja þiggja bólusetningu hafi fengið slíka, fyrir utan börn sem foreldrar hafa óskað eftir bólusetningum fyrir. Bólusetning á Austurlandi hefst aftur í ágúst.

Jónína segir sérstakt að vera farin að sjá fyrir endann á bólusetningunni.

„Það er ofboðslega gleðilegt og ótrúlegt hvernig starfsfólk um allt land hefur staðið í lappirnar í gegnum þetta álag. Ég held að því verði seint fullþakkað.“

Á Vesturlandi verður gert hlé á bólusetningum frá fimmtudegi og til fjórða ágúst næstkomandi. Þá verður hlé gert á bólusetningu á Norðurlandi í vikunni og hefst hún aftur í ágústmánuði. Hlé hefur verið gert á bólusetningu á Suðurnesjum og hefst hún aftur í ágúst. 

mbl.is