Bylgjan ekki haft áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið

Kórónuveiran Covid-19 | 23. júlí 2021

Bylgjan ekki haft áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir uppsveiflu í faraldrinum ekki haft nein áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið. Hún metur þær takmarkanir sem munu taka gildi á sunnudaginn ekki í líkingu við þær sem giltu hér í vetur, ríkisstjórnin hafi rætt málið í þaula og að algjör samstaða hafi verið um það að lokum.  

Bylgjan ekki haft áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið

Kórónuveiran Covid-19 | 23. júlí 2021

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Ari

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir uppsveiflu í faraldrinum ekki haft nein áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið. Hún metur þær takmarkanir sem munu taka gildi á sunnudaginn ekki í líkingu við þær sem giltu hér í vetur, ríkisstjórnin hafi rætt málið í þaula og að algjör samstaða hafi verið um það að lokum.  

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir uppsveiflu í faraldrinum ekki haft nein áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið. Hún metur þær takmarkanir sem munu taka gildi á sunnudaginn ekki í líkingu við þær sem giltu hér í vetur, ríkisstjórnin hafi rætt málið í þaula og að algjör samstaða hafi verið um það að lokum.  

„Við metum það þannig að þessar ráðstafanir séu skynsamlegar. Við erum búin að setja af stað stefnumótun um hvernig við getum horft lengra fram í tímann hér eftir. Við höfum mikinn skilning á því að fólk kalli eftir fyrirsjáanleika. Það er eðlilegt og ekki síst þegar við erum komin á þennan stað í bólusetningum,“ segir Katrín í samtali við mbl.is

Segir aðgerðirnar varfærnislegar

Katrín segir ríkisstjórnina hafa stigið til jarðar með varfærnum hætti með þessum aðgerðum. „Hér er verið að leggja til breyttan afgreiðslutíma á börum og veitingahúsum. Sömuleiðis er verið að setja þessi 200 manna fjöldatakmörk sem er ekki ósvipað því sem sést á öðrum Norðurlöndum þar sem svipaðar takmarkanir eru í gildi,“ segir Katrín sem kveðst þó skilja gremju fólks vel.

„Fólk er að sjálfsögðu orðið lúið á þessu og vonaðist til að sjá ekki slíka fjölgun smita. Nálgun bæði okkar í ríkisstjórninni og almenningi í landinu er að taka skynsamlegar ákvarðanir með því að lágmarka veikindi og hámarka frelsi og samfélagsleg gæði. Það er okkar hlutverk að finna leiðir að þeim markmiðum,“ segir Katrín sem viðurkennir þó að einhver hiti hafi verið á ríkisstjórnarfundinum sem stóð í þrjár klukkustundir:

„Þarna fóru fram mjög hreinskilnar og góðar samræður. Þetta eru ekkert auðveldar ákvarðanir sem þarf að taka, það er mikilvægt að gefa sér tíma í að taka þær. Þetta eru ákvarðanir sem hafa áhrif á fjölda fólks og við nálgumst það ekki af neinni léttúð.

Við fórum vel og vandlega yfir hverja tillögu og við fórum líka yfir stöðuna. Það er bara eðlilegt, það er kannski einkenni þessarar stjórnar að hún er ræðin, ráðherrar tala töluvert.  Það er ekkert sjálfstætt markmið að hafa stutta fundi þó ég hafi skynjað það að fjölmiðlamönnum hefði fundist hann of langur. Okkur fannst hann að minnsta kosti ekki of langur,“ segir Katrín glettin.

Samstaða um aðgerðirnar

Katrín ítrekar að samstaða hafi verið um þessa niðurstöðu og metur aðgerðirnar varfærnislegar miðað við þær sem ráðist var í í vetur: „Við leggjum auðvitað áherslu á að þetta sé ekki neitt í líkingu við það sem var þegar þjóðin var óbólusett. Þá vorum við með fjöldatakmarkanir niður í 10 til 20 manns. Við erum ekki að leggja til neinar lokanir á starfsemi en auðvitað hefur þetta áhrif. Hér eftir sem hingað til munum við meta þau áhrif og bregðast við með viðeigandi hætti.“

mbl.is