Hanna aðgerðir á grundvelli gagna

Kórónuveiran Covid-19 | 27. júlí 2021

Hanna aðgerðir á grundvelli gagna

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir gögnin þurfa að ráða för í framhaldinu í baráttu við kórónuveiruna. Hann telur þjóðina vera nægilega vel bólusetta til þess að geta tekið bylgju eins og nú gengur yfir, það fáist þó ekki staðfest fyrr en gögn liggja fyrir um hversu mikið bólusettir veikjast.

Hanna aðgerðir á grundvelli gagna

Kórónuveiran Covid-19 | 27. júlí 2021

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar Ljósmynd/Aðsend

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir gögnin þurfa að ráða för í framhaldinu í baráttu við kórónuveiruna. Hann telur þjóðina vera nægilega vel bólusetta til þess að geta tekið bylgju eins og nú gengur yfir, það fáist þó ekki staðfest fyrr en gögn liggja fyrir um hversu mikið bólusettir veikjast.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir gögnin þurfa að ráða för í framhaldinu í baráttu við kórónuveiruna. Hann telur þjóðina vera nægilega vel bólusetta til þess að geta tekið bylgju eins og nú gengur yfir, það fáist þó ekki staðfest fyrr en gögn liggja fyrir um hversu mikið bólusettir veikjast.

Kári telur möguleika á því að þeir 123 sem greindust í gær séu bara lítill hluti þeirra sem séu raunverulega smitaðir í samfélaginu. „Það er slæmt því það myndi þýða að veiran sé búin að dreifa sér víða, en gott að því leytinu til að þó hún sé dreifð víða þá eru menn ekki mikið að veikjast.“

Hann bendir þó á að gögn þess efnis liggi ekki fyrir fyrr en eftir nokkra daga, þ.e. hve margir veikjast. „Við getum ekki rakið neitt nema það sem er staðfest. Við rekjum ekki drauma, bull og vitleysu.“

Gögnin þurfa að ráða för

Kári segir að mikilvægt sé að gögnin ráði för er varðar þær aðgerðir sem gripið verði til í framhaldinu. „Í byrjun næstu viku tel ég að við ættum að grafa ofan í þessi gögn, gera þetta upp og ákvarða svo hvernig við höldum síðan áfram. Hanna þær aðgerðir sem við ætlum að grípa til á grundvelli þessara gagna.“

Hann segir kvartanir stjórnarandstöðunnar og almennings þess efnis að gagnrýna ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hafa opnað fyrir mánuði síðan vera byggða á misskilningi. „Ef að ríkisstjórnin hefði fyrir tveimur mánuðum síðan sett sér stefnu, ákveðið hvað ætti að gera og fylgt því bara eftir, þá hefði það verið stórhættulegt og heimskulegt. Vegna þess að í svona ástandi þarf bara að bregðast við þeim gögnum sem verða til.“

Kári segir bólusetninguna vissulega breyta stöðunni. „Við erum orðin nokkuð vel bólusett þjóð og ættum þar af leiðandi að geta tekið svona bylgju eins og er að ganga yfir okkur núna. Það er samt ekki alveg víst, en kemur í ljós á næstu dögum.“ Hann bendir þó á að verði raunin sú að fólk fari að veikjast mikið í stórum stíl, þá „sé eins gott fyrir okkur að grípa til sams konar aðgerða og við gerðum á síðasta ári.“

Hvað næst?

Spurður hvað sé næst segir Kári: „Við þurfum að bólusetja alla þjóðina, eða eins marga og hægt er. Nú fer að bera á því að við getum bólusett börn líka.“ Þá segist hann hafa áhyggjur af því þegar að skólarnir fari að koma saman nú á næstu vikum. Við gætum lent í „veseni“.

Hann bendir þó á að börn hafi litla tilhneigingu til þess að veikjast alvarlega og að því leytinu til séu þau lík bólusettum fullorðnum einstaklingum. Geti dreift smiti, en ólíklegri til þess að veikjast alvarlega.

Spurður út í gagnsemi handahófsskimunar segir hann: „Ég er á því að handahófsskimunin hafi gefið okkur geysilega miklar upplýsingar sem við hefðum aldrei fengið öðruvísi.“ Hann segir skimun hafa verið framkvæmda á öllum starfsmönnum Íslenskrar erfðagreiningar nú á dögunum og hann hafi verið „hissa og kátur“ vegna þess að enginn hafi greinst jákvæður.

En er þá rökrétt að þínu mati að grípa til handahófsskimunar núna?

„Það er bara ekki það sem við þurfum að vita. Við þurfum að vita hvort þeir sem smitast verði lasnir. Hitt er áhugavert, en ég held að við sættum okkur við það sem við erum að gera núna. Við erum bara að bíða eftir gögnum. Við erum að haga okkur eins og veiran sé skaðvænleg en að vonast til að hún sé það ekki.“

mbl.is