„Höfum alltaf tekið því með varúð“

Kórónuveiran COVID-19 | 28. júlí 2021

„Höfum alltaf tekið því með varúð“

Ísland er búið að gera samninga um örvunarskammta en stefnt er að því að nota Pfizer í seinni skammt fyrir Janssen-þega. Einn skammtur af Janssen-bóluefninu virðist ekki hafa meiri virkni en einn skammtur af öðrum bóluefnum að sögn Kamillu S. Jósefsdóttur, staðgengils sóttvarnalæknis.

„Höfum alltaf tekið því með varúð“

Kórónuveiran COVID-19 | 28. júlí 2021

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir smitsjúkdómalæknir og staðgengill sóttvarnarlæknis.
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir smitsjúkdómalæknir og staðgengill sóttvarnarlæknis. Ljósmynd/Lögreglan

Ísland er búið að gera samninga um örvunarskammta en stefnt er að því að nota Pfizer í seinni skammt fyrir Janssen-þega. Einn skammtur af Janssen-bóluefninu virðist ekki hafa meiri virkni en einn skammtur af öðrum bóluefnum að sögn Kamillu S. Jósefsdóttur, staðgengils sóttvarnalæknis.

Ísland er búið að gera samninga um örvunarskammta en stefnt er að því að nota Pfizer í seinni skammt fyrir Janssen-þega. Einn skammtur af Janssen-bóluefninu virðist ekki hafa meiri virkni en einn skammtur af öðrum bóluefnum að sögn Kamillu S. Jósefsdóttur, staðgengils sóttvarnalæknis.

Ísland er enn með gilda samninga við dreifingaraðila allra fjögurra bóluefnanna: Janssen, Pfizer, Moderna og Astra Zeneca.

Það var, að sögn Kamillu, fyrirséð að þjóðin hefði ekki not fyrir öll bóluefnin og því eru afgangsskammtar látnir renna inn í COVAX-samstarfið. Þannig er umframbóluefnum dreift til landa sem eru í síður góðri aðstöðu til að gera eigin samninga til þess að tryggja sér bóluefni.

Stór hluti rennur í COVAX-samstarfið en Ísland mun halda áfram að fá til sín Pfizer- og Janssen-bóluefni fyrir ákveðna hópa.

Kamilla segist ekki hafa áhyggjur af því að of stórum hluta hafi verið ráðstafað í alþjóðasamstarf. Ráðuneytið hafi þegar gert samning um örvunarskammta og Ísland hafi ennþá tryggt aðgengi að bóluefnum samanborið við aðrar þjóðir.

Kamilla greindi frá því á upplýsingafundi almannavarna í gær að einn skammtur af Janssen hefði í raun sambærilega virkni á við einn skammt af öðrum bóluefnum. Það var rannsakað og markaðssett sem eins skammts bóluefni en nú liggur fyrir að Janssen-þegum verður boðinn örvunarskammtur í ágúst.

Gott tæki í takmarkaðri notkun

Aðspurð hvort yfirvöld upplifi sig blekkt af markaðssetningu Janssen segir Kamilla að svo sé ekki. „Við höfum alltaf tekið því með varúð og litið á það sem mjög gott tæki en í takmarkaðri notkun,“ segir hún. Janssen hefur ekki verið notað fyrir ónæmisbælda einstaklinga. „Við vildum öflugustu vörnina sem völ er á fyrir þann hóp.“

Janssen er gott eins skammts bóluefni að mati Kamillu þótt það virðist ekki duga jafn vel gegn Delta-afbrigði veirunnar. „Við erum að horfa á heimsfaraldur þar sem smitútbreiðslan er hrikaleg og það koma ný afbrigði á nokkurra mánaða fresti sem virðast ganga eins yfir bólusetta og aðra.“

Pfizer-örvunarskammtar

Kamilla segir að stefnt sé að notkun Pfizer-bóluefnisins fyrir seinni skammt Janssen-þega. „Við myndum íhuga að örva með öðrum skammt af Janssen en það eru ekki til neinar stórar rannsóknir á virkni tveggja Janssen-skammta.“

Kamilla bendir einnig á að önnur bóluefni sem noti svipaða tækni og Janssen, líkt og bóluefni Janssen við ebólu og Spútnik-bóluefnið, noti aðrar ferjur fyrir seinni skammtinn og því sé öruggast að nota Pfizer að svo stöddu.

mbl.is