Tekur tíma fyrir ný afbrigði að breiðast út

Kórónuveiran Covid-19 | 15. september 2021

Tekur tíma fyrir ný afbrigði að breiðast út

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í samtali við mbl.is að staðan á heimsfaraldrinum sé mjög mismunandi á milli nágrannaríkja okkar. Þá segir hann tímann eiga eftir að leiða í ljós hvort önnur afbrigði muni ná fótfestu líkt og Delta-afbrigðið hefur gert.

Tekur tíma fyrir ný afbrigði að breiðast út

Kórónuveiran Covid-19 | 15. september 2021

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í samtali við mbl.is að staðan á heimsfaraldrinum sé mjög mismunandi á milli nágrannaríkja okkar. Þá segir hann tímann eiga eftir að leiða í ljós hvort önnur afbrigði muni ná fótfestu líkt og Delta-afbrigðið hefur gert.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í samtali við mbl.is að staðan á heimsfaraldrinum sé mjög mismunandi á milli nágrannaríkja okkar. Þá segir hann tímann eiga eftir að leiða í ljós hvort önnur afbrigði muni ná fótfestu líkt og Delta-afbrigðið hefur gert.

„Það gengur vel í Danmörku, þau eru á svipuðu róli og við eins og staðan er núna. Það er að segja Danir hafa ekki verið að sjá neina aukningu. Norðmenn hafa verið að glíma við töluvert mikla útbreiðslu en ekki svo mikið um spítalainnlagnir. Svíar hafa hins vegar verið að sjá aukningu í spítalainnlögnum. Þá hafa Skotar aflétt takmörkunum og séð mikla aukningu í kjölfarið eins og við sáum hér í sumar. Bandaríkjamenn eru einnig að sjá mikla aukningu í spítalainnlögnum,“ segir Þórólfur.

„Þannig að þetta er mjög mismunandi á milli landa hvernig staðan er.“

Afbrigði ekki að ná sérstakri fótfestu 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) fylgist nú grannt með þróun fimm afbrigða veirunnar, þar á meðal Mý sem hefur borist til Evrópu.

Mý-afbrigðið greindist fyrst í Kólumbíu í janúar og talið er að um 39% tilfella í Kólumbíu séu Mý en á heimsvísu er afbrigðið einungis um 0,1% tilfella. 

Í skýrslu sem WHO gaf út í byrjun september segir að Mý gæti átt auðveldara með að leika á mótefnasvarið sem bóluefni gegn Covid-19 veita en upphaflegt afbrigði veirunnar.

Þórólfur segir að hér á landi sé fylgst með þeim nýju afbrigðum sem alþjóðastofnanir, WHO og Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins, fylgjast með. 

„Við reiðum okkur á þeirra mat og þeirra niðurstöður. Þessi nýju afbrigði sem er verið að fylgjast með hafa ekki verið að ná neinni sérstakri fótfestu eins og staðan er núna.“

Hann segir að Delta-afbrigðið sé því áfram ráðandi í Evrópu og Bandaríkjunum. „Svo verðum við bara að sjá hvað gerist. Það tekur alltaf svolítinn tíma fyrir ný afbrigði að ná útbreiðslu.“

Ekki endilega þörf á bóluefni gegn Delta

Fjöldi bóluefnaframleiðenda vinna nú að nýjum bóluefnum gegn veirunni, meðal annars gegn Delta-afbrigðinu. Spurður hvort Íslendingar eigi að binda miklar vonir við það efni segir Þórólfur þess ekki endilega vera þörf.

„Þessi bóluefni sem við erum að nota virka alveg þokkalega vel gegn Delta. Sérstaklega virka þau mjög vel gegn alvarlegum veikindum af völdum Delta-afbrigðisins og sæmilega vel gegn smiti. Ég er því ekki viss um að menn telji svo mikla knýjandi þörf á að koma með nýtt bóluefni gegn Delta-afbrigðinu en auðvitað eru bóluefnaframleiðendur að skoða og rannsaka það.“

Þórólfur segist ekki endilega vera viss um að mikil notkun yrði á því bóluefni. „Það er ekki enn tímabært að segja til um. Við eigum einnig eftir að sjá betur hvernig ónæmið endist eftir bólusetninguna sem búið er að gefa með þessum bóluefnum sem við erum að nota núna.“

Þórólfur segir að tíminn muni leiða það í ljós hvort ónæmi gegn Delta-afbrigðinu muni dvína, hvernig fari með endursýkingar og hvort þurfi að bólusetja aftur. 

„Þetta eru allt spurningar sem er ekki hægt að svara á þessari stundu en menn fylgjast vel með hvort það þurfi að grípa þannig inn í.“

mbl.is