Fór í draumanámið í draumalandinu

Ítalía | 17. september 2021

Fór í draumanámið í draumalandinu

Þuríður Kristín Kristleifsdóttir, grafískur hönnuður, tónlistarkona og plötusnúður, hélt nýverið á vit ævintýranna ásamt fjölskyldu sinni og flutti til Ítalíu. Þura Stína, eins og hún er gjarnan kölluð, segir ástæðuna fyrir flutningunum vera tilkomna vegna framhaldsnáms sem hún hyggst nú hefja.

Fór í draumanámið í draumalandinu

Ítalía | 17. september 2021

Mæðgurnar Þura Stína og Emilía Karin á Ítalíu.
Mæðgurnar Þura Stína og Emilía Karin á Ítalíu. Ljósmynd/Aðsend

Þuríður Kristín Kristleifsdóttir, grafískur hönnuður, tónlistarkona og plötusnúður, hélt nýverið á vit ævintýranna ásamt fjölskyldu sinni og flutti til Ítalíu. Þura Stína, eins og hún er gjarnan kölluð, segir ástæðuna fyrir flutningunum vera tilkomna vegna framhaldsnáms sem hún hyggst nú hefja.

Þuríður Kristín Kristleifsdóttir, grafískur hönnuður, tónlistarkona og plötusnúður, hélt nýverið á vit ævintýranna ásamt fjölskyldu sinni og flutti til Ítalíu. Þura Stína, eins og hún er gjarnan kölluð, segir ástæðuna fyrir flutningunum vera tilkomna vegna framhaldsnáms sem hún hyggst nú hefja.

„Við erum nýflutt til Mílanó en ég er að fara í mastersnám í skóla sem heitir NABA (Nuova Accademia di Belle Arti),“ segir Þura. „Ég hef unnið á auglýsingastofum sem hönnuður frá því að ég útskrifaðist sem grafískur hönnuður árið 2016 en einnig verið að vinna með kvikmyndað auglýsingaefni og framleiðslu sem hefur heillað mig mikið. Samhliða því hef ég unnið mikið í framleiðslu, listrænni stjórnun og allt sem tengist hugmyndavinnu og markaðsfræði finnst mér mjög áhugavert. Þess vegna langaði mig í frekar sérhæft nám sem myndi þjálfa mig áfram í listrænni stjórnun en kenna mér um leið markaðshliðina þar sem ég hef í rauninni engan námslegan bakgrunn í henni. Brautin sem ég er að fara á heitir M.A in Visual Design and Integrated Marketing Communication og fer einmitt á dýptina í þetta,“ útskýrir hún.

Skakki turninn í Písa borg stendur alltaf fyrir sínu. Þangað …
Skakki turninn í Písa borg stendur alltaf fyrir sínu. Þangað fara allir túristar. Ljósmynd/Aðsend

Algjör draumur  

Þura Stína segir þetta vera sína drauma námsleið og ekki hafi skemmt fyrir að það hafi verið í boði í landi drauma hennar. Aðspurð hvers vegna Ítalía hafi orðið fyrir valinu segir Þura Stína það vera vegna ákveðnar æskuþrár sem lengi hefur blundað í henni. Finnland hafi þó einnig komið til greina en auðveldar hafi reynst henni að sannfæra sambýlismanninn, Arnar Jónmundsson, framleiðanda og klippara, um að flytja með sér til Mílanó frekar en Helsinki.  

„Ég var mikið á Ítalíu með mömmu og fjölskyldunni minni á mínum yngri árum og ég hef verið Ítalíu sjúk síðan þá. Ég tók meðal annars stúdentspróf í ítölsku í Menntaskólanum við Hamrahlíð samhliða því að vera í fullu námi á listnámsbraut í Iðnskólanum í Reykjavík, sem nú heitir víst Tækniskólinn. Ég hef alltaf stefnt að því að ómeðvitað að koma hingað aftur og er rosalega hamingjusöm að hafa loksins látið verða að því. Ég sótti líka um skóla í Finnlandi en Arnar var ekki alveg á þeim buxunum.“ 

Ekkert mál að ferðast

Fjölskyldan hefur eytt bróðurparti sumarsins víðs vegar um Ítalíu, þar sem þau könnuðu aðallega slóðir á norðanverðu landinu. Þura segir heimsfaraldurinn lítil sem engin áhrif hafa haft á ferðalag þeirra hingað til. Þá sé dóttir þeirra, Emilía Karin, sem fagnaði eins árs afmæli í byrjun sumars, að njóta sín í botn í nýju landi. Segir Þura það ómentanlegt fyrir foreldrana að fá tækifæri til þess að upplifa þetta ævintýri með litlu Emilíu Karin.

Hér má sjá ferðalag fjölskyldunnar í heild sinni.
Hér má sjá ferðalag fjölskyldunnar í heild sinni. Ljósmynd/Aðsend

 „Hér finnur maður alls ekki eins mikið fyrir faraldrinum og heima á Íslandi. Við höfum verið á ferðalagi um Norður-Ítalíu í fjórar vikur og allt gengið vel. Það eru allir með grímur inni í lestum, á söfnum og í búðum og svoleiðis en fréttaflutningur af faraldrinum er ekki jafn áberandi hér eins og heima. Emilía Karin hefur verið algjör draumur. Hún heillar alla upp úr skónum sem á vegi hennar verða. Hún vinkar bara og brosir með sætu ljósu krullurnar sínar og segir CIAO! við alla.“

Þura Stína segir það ekki hafa verið vandamál að ferðast með rúmlega eins árs gamalt barn. Ítalir séu einstaklega hjálpsamir og barngóðir og alltaf til í að aðstoða ef svo ber undir. Þá sé það örlítið öðruvísi að vera á ferðalagi með barn. Sérstaklega kerrubarn sem langar að fá að þreifa fyrir sér.

„Við höfum ferðast mikið um í lestum og hefur það ekki verið neitt vesen. Það eru allir mjög vingjarnlegir og til í að hjálpa. Litla sjálfstæða konan okkar hefur tekið upp á því nýlega að vilja labba út um allt þannig við þurftum að hægja svolítið á ferðinni. Það er öðruvísi að ferðast um með barn. Maður er ekkert úti á kvöldin eða neitt svoleiðis, hún þarf sína rútínu. Við vitum til dæmis um alla bestu ísstaðina hérna en vitum ekki um neina bari,“ segir Þura og skellir upp úr. 

Þura Stína segir það öðruvísi upplifun að fara í ferðalag …
Þura Stína segir það öðruvísi upplifun að fara í ferðalag með kerrubarn. Ljósmynd/Aðsend

Ísland alltaf heima

Þegar Þura Stína er spurð út í framtíðaráformin á Ítalíu segist hún ekki sjá fyrir sér að setjast þar að fyrir fullt, þrátt fyrir að Ítölsk matargerð sé Þuru að skapi. Ísland sé og verði alltaf heima. 

„Pizza, pasta og gelato. Algjört draumaland ef þú spyrð mig. Nei, ég er alveg sannfærð um að hjörtu okkar liggi á Íslandi, hjá fjölskyldu og vinum. Auðvitað verður lífið bara að koma í ljós. Ég er spennt fyrir að bæta við mig þekkingu og krefjandi verkefnum hér úti og taka með okkur þá reynslu með okkur heim sem munu nýtast okkur í verkefnum framtíðarinnar,“ segir hún.

Þau Þura og Arnar sitja ekki auðum höndum á Ítalíu. Hann starfar sem klippari og framleiðandi og getur sinnt þeim verkefnum hvar sem er í heiminum. Þura hefur verið þátttakandi í Milan Design Week síðustu daga og mun svo koma fram á langþráðum tónleikum ásamt hljómsveit sinni, Reykjavíkurdætrum, á tónlistarhátíðinni Reeperbahn í Hamburg í Þýskalandi sem fram fer í næstu viku.

„Ég er að tapa mér úr spennu. Ég er svo ótrúlega innblásin og spennt. Þetta eru fyrstu tónleikarnir okkar í 18 mánuði. Það er allt að gerast!“

Fjölskyldan saman í einni af mörgum lestarferðunum.
Fjölskyldan saman í einni af mörgum lestarferðunum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is