Minnti á grímuskyldu og var myrtur

Kórónuveiran COVID-19 | 21. september 2021

Minnti á grímuskyldu og var myrtur

Þjóðverjar eru í áfalli eftir að tvítugur starfsmaður á bensínstöð var skotinn til bana af reiðum viðskiptavini sem neitaði að setja á sig grímu er hann var að kaupa sér bjór.

Minnti á grímuskyldu og var myrtur

Kórónuveiran COVID-19 | 21. september 2021

Mynd úr safni. Ekki eru allir sáttir við að þurfa …
Mynd úr safni. Ekki eru allir sáttir við að þurfa að nota grímur. AFP

Þjóðverjar eru í áfalli eftir að tvítugur starfsmaður á bensínstöð var skotinn til bana af reiðum viðskiptavini sem neitaði að setja á sig grímu er hann var að kaupa sér bjór.

Þjóðverjar eru í áfalli eftir að tvítugur starfsmaður á bensínstöð var skotinn til bana af reiðum viðskiptavini sem neitaði að setja á sig grímu er hann var að kaupa sér bjór.

Morðið var framið á laugardaginn í bænum Idar-Oberstein í vesturhluta Þýskalands og er talið það fyrsta sem er framið þar í landi í tengslum við reglur ríkisstjórnarinnar til að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar.

Deilan hófst þegar starfsmaðurinn, sem vann á bensínstöðinni með skóla, bað viðskiptavininn um að setja upp grímu eins og reglur kveða á um í öllum verslunum í Þýskalandi. Eftir stutt rifrildi gekk maðurinn í burtu.

Hann sneri síðan aftur um einni og hálfri klukkustund síðar og í þetta sinn með grímu á andlitinu. En þegar hann kom með bjórkippuna sína að afgreiðsluborðinu tók hann grímuna af sér og hófst þá rifrildið á nýjan leik.

„Sökudólgurinn dró þá upp skammbyssu og skaut hann beint í höfuðið,” sagði saksóknarinn Kai Fuhrmann við blaðamenn í morgun.

Árásarmaðurinn, sem er 49 ára þýskur karlmaður, gekk inn á lögreglustöð daginn eftir og gaf sig fram. Hann var handtekinn og hefur játað á sig morðið.

Sagðist eiga engra annarra kosta völ

Hann sagði lögreglunni að honum hafi liðið eins og takmarkanir vegna kórónuveirunnar hafi „þrengt að sér” og bætti við að hann hafi litið á þær sem „vaxandi skerðingu á réttindum sínum”. Sagðist hann ekki hafa séð „neina aðra leið út”, að sögn Fuhrmann.

Frank Fruehauf, borgarstjóri Idar-Oberstein, sagði morðið vera „óskiljanlegt og hræðilegt”. Íbúar borgarinnar hafa lagt niður blóm og kerti fyrir utan bensínstöðina til að minnast starfsmannsins.

Morðið var framið aðeins nokkrum dögum fyrir alþingiskosningar í Þýskalandi sem fara fram á sunnudaginn.

Katrin Goering-Eckhardt, leiðtogi Græningja á þingi, tísti á Twitter að hún væri „illa skelkuð” eftir morðið, sem hún sagði vera „grimmlega afleiðingu haturs”.

mbl.is