Var að hrynja en skildi ekki af hverju

Lífsstílsbreyting | 3. október 2021

Var að hrynja en skildi ekki af hverju

Fyrir tíu árum fór Þórunn Ólafsdóttir að finna fyrir mikilli vanlíðan auk þess sem hún þyngdist um 20 kíló á stuttum tíma. Í kjölfarið var Þórunn greind með vanvirkan skjaldkirtil og þekkir það betur en margir hvernig það er að snúa við blaðinu og skipta um lífsstíl. Í dag er hún lærður ÍAK einkaþjálfari og kennir hóptíma í World Class á Selfossi. 

Var að hrynja en skildi ekki af hverju

Lífsstílsbreyting | 3. október 2021

Þórunn Ólafsdóttir einkaþjálfari tók lífstílinn í gegn. Ljósmynd/Aðsend
Þórunn Ólafsdóttir einkaþjálfari tók lífstílinn í gegn. Ljósmynd/Aðsend

Fyrir tíu árum fór Þórunn Ólafsdóttir að finna fyrir mikilli vanlíðan auk þess sem hún þyngdist um 20 kíló á stuttum tíma. Í kjölfarið var Þórunn greind með vanvirkan skjaldkirtil og þekkir það betur en margir hvernig það er að snúa við blaðinu og skipta um lífsstíl. Í dag er hún lærður ÍAK einkaþjálfari og kennir hóptíma í World Class á Selfossi. 

Fyrir tíu árum fór Þórunn Ólafsdóttir að finna fyrir mikilli vanlíðan auk þess sem hún þyngdist um 20 kíló á stuttum tíma. Í kjölfarið var Þórunn greind með vanvirkan skjaldkirtil og þekkir það betur en margir hvernig það er að snúa við blaðinu og skipta um lífsstíl. Í dag er hún lærður ÍAK einkaþjálfari og kennir hóptíma í World Class á Selfossi. 

„Mig langar að geta sýnt öðrum að þrátt fyrir mína kvilla er hægt að lifa heilbrigðu lífi og ná árangri bæði líkamlega og andlega,“ segir Þórunn um líf sitt í dag en auk vanvirks skjaldkirtils er hún greind með vefjagigt. Leiðin að heilbrigðu lífi gekk þó ekki þrautalaust fyrir sig. 

„Árið 2011 fór ég að finna fyrir mikilli andlegri vanlíðan og var yfirleitt kalt. Ég fann fyrir síþreytu og þróttleysi, þyngdist á stuttum tíma um 20 kíló. Það var einhvern veginn allt ómögulegt og mér leið eins og líkamlega og andlega væri ég bara að hrynja en skildi ekki af hverju,“ segir Þórunn þegar hún er spurð að því hvernig lífið breyttist fyrir tíu árum. 

Þórunn á mynd sem var tekin fyrir um tíu árum.
Þórunn á mynd sem var tekin fyrir um tíu árum.

Þórunn segir að hún hafi verið ólík sjálfri sér. Áður var hún með mikla orku og hress týpa. „Ég mundi eftir því að hafa heyrt einhvern tímann um einkenni vanvirks skjaldkirtils og ákvað að kynna mér málið. Ég leitaði til læknis sem sendi mig í blóðprufu og kom í ljós að ég var heldur betur með mjög vanvirkan skjaldkirtil eða latan skjaldkirtil eins og það er oft kallað. Einkennin pössuðu öll við mig,“ segir Þórunn. 

„Ég hélt fyrst að ég væri bara svona ógeðslega löt og að duglega ég hefði breyst í einhvern letingja og fýlupúka á stuttum tíma. Auðvitað hugsaði ég út í það að breyta mataræðinu og hreyfa mig en þegar orkuleysið er svona mikið og finnur fyrir svona mikilli vanlíðan kemur maður engu í verk.

Þegar ég fékk niðurstöðurnar frá lækninum leið mér eins og þungu fargi væri létt. Það var ástæða fyrir þessu öllu og ég man enn hvað mér leið vel um leið og ég heyrði að þetta væri ekki bara allt í hausnum á mér. Á sama tíma fann maður fyrir smá sorg því þarna var mér einnig tilkynnt að þetta væri eitthvað sem ég þyrfti að læra að lifa með og taka lyf og fara reglulega í blóðprufur. Að þetta myndi hafa þannig áhrif að fyrir mig gæti verið erfiðara að grennast en aðra.“

Fyrir og eftir að Þórunn fékk greiningu á vanvirkum skjaldkirtli …
Fyrir og eftir að Þórunn fékk greiningu á vanvirkum skjaldkirtli og tók lífstílinn í gegn.

Lyfin gerðu mikið fyrir Þórunni en hún þurfti samt sem áður að vinna mikið í sjálfri sér. „Lyfin voru ekki að fara að grenna mig eða láta mér líða vel í eigin skinni. Ég þurfti virkilega að breyta mínum lífsvenjum og þegar ég hugsa til baka þá voru þær ekki neitt rosalega góðar áður en ég fór að finna fyrir þessum einkennum. Ég fór að stunda líkamsrækt og þá aðallega að lyfta og einstaka sinnum skellti ég mér í spinning. Ég tók virkilega mikið til í mataræðinu og hugaði vel af því að fá næringarríkan mat.“

Þórunn varð svo ólétt árið 2016. „Ég ákvað ég að halda áfram að hreyfa mig og mæta í ræktina á meðgöngunni. Það reyndist erfitt þar sem grindin vildi ekki leyfa neitt meira en göngutúra og þá alls ekki langa. Undir það síðasta gat ég lítið orðið hreyft mig vegna verkja í grindinni og bakinu. Eftir að stelpan mín fæddist tók við erfiður tími þar sem ég átti mjög erfitt andlega og átti erfitt með að koma mér af stað. Ég setti það mjög mikið fyrir mig að finna tíma til að komast í ræktina þar sem ég var mjög mikið ein með hana. Ekki hjálpaði til þegar vefjagigtin sem ég greindist síðar með fór að gera virkilega vart við sig. En með hjálp yndislegu foreldra minna fór ég að finna tíma til að hreyfa mig. Þegar stelpan mín var orðin um eins árs var ég farin að koma hreyfingu inn í mína daglegu rútínu. Með því fór ég að vinna betur í mataræðinu.“

Þórunn Ólafsdóttir mætir í ræktina allt að sex sinnum í …
Þórunn Ólafsdóttir mætir í ræktina allt að sex sinnum í viku.

Oft er talað um að þolinmæði sé lykilatriði og saga Þórunnar er sönnun þess. Hún gerði til að mynda margar tilraunir til þess að finna sína hillu. „Það tók margar tilraunir að skipta um takt. Ég fór frá þjálfara til þjálfara og fannst þeir aldrei vera nógu góðir. En svo áttaði ég mig loksins á því að það þýðir ekki að fara í fjarþjálfun og halda að þá bara gerast hlutirnir. Maður verður að leggja á sig vinnuna því þjálfarinn getur einungis rétt þér verkfærin, hann vinnur ekki vinnuna fyrir þig.“

Hvaða skiptir máli þegar maður ætlar að breyta einhverju í fari sínu?

„Taka einn dag í einu og það er bannað að gefast upp. Ef þú gefst upp er erfiðara að ná markmiðum. Ég hef misstigið mig ansi oft á þessu ferðalagi en þá bara sest maður aðeins niður og íhugar hvað maður getur gert betur og leggur svo aftur af stað. Þótt að einn dagur sé ekki upp á tíu þýðir ekki að allt sé ónýtt, bara alls ekki! Ég sjálf er með mikla straxveiki eins og ég kalla það og hef oft staðið mig að því að vilja að árangurinn sjáist helst um leið og ég stíg út úr ræktinni. En það er bara því miður ekki þannig, sama hvað. Lífstílsbreyting er langhlaup og við eigum að njóta þess, þetta á ekki að vera kvöl og pína.“

Í dag hreyfir Þórunn sig helst á hverjum einasta degi og mætir í ræktina allt að sex sinnum æi viku. Hún passar að taka einn hvíldardag í viku en reynir þá að fara í stutta göngutúra ef hún hefur tíma. Hún hugsar vel um að fá góða næringu og telur „macros“ eins og það er kallaði. Hún skipuleggur sig vel og býr til að mynda til nesti á kvöldin fyrir næsta dag. 

Þórunn Ólafsdóttir lét drauminn rætast og lærði einkaþjálfun.
Þórunn Ólafsdóttir lét drauminn rætast og lærði einkaþjálfun.

„Það að hreyfa mig og vera skipulögð og borða næringarríka fæðu hefur skipt miklu máli fyrir mig andlega. Ég reyni mitt allra besta að halda inni hreyfingunni þrátt fyrir að suma daga sé maður kannski á haus, því fyrir mér er það besta lyfið fyrir góða andlega og líkamlega líðan. Svefninn er ekki síður mikilvægur en mataræðið og hreyfingin og passa ég að fara snemma að sofa til að ná um 8 klst svefni,“ segir Þórunn. 

Þórunn segist hafa mikinn áhuga á líkamanum, þá sérstaklega hreyfingu og mataræði. Hún útskrifaðist sem ÍAK einkaþjálfari í fyrra en það hafði verið draumur hjá henni í mörg ár að fara í námið. „Í janúar 2022 ætla ég svo að bæta við mig og skella mér í ÍAK styrktarþjálfarann líka hjá Keili. Ég hef mikla ánægju af því að hjálpa öðrum og miðla minni þekkingu og reynslu. Ég starfa hjá World Class Selfossi og kenni hóptíma þar en er einnig með mína eigin fjarþjálfun og hef verið að hjálpa fólki þar í gegnum netið með mjög góðum árangri. Þjálfunin kallast Ólafs þjálfun og er hægt að fylgjast með mér á instagramminu Olafs.thjalfun.“ 

mbl.is