Ísland ekki eina Norðurlandið með takmarkanir

Kórónuveiran Covid-19 | 14. október 2021

Ísland ekki eina Norðurlandið með takmarkanir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir varhugavert að bera stöðu Íslands saman við hin Norðurlöndin og telur hann sig ekki geta lagt mat á það hvort aðgerðirnar, sem gripið var til í þeim tilgangi að styrkja heilbrigðiskerfið, séu fullnægjandi til að takast á við fjölgun innlagna. Þórólfur fer á fund á morgun með forsvarsmönnum Landspítalans þar sem staða stofnunarinnar verður rædd.

Ísland ekki eina Norðurlandið með takmarkanir

Kórónuveiran Covid-19 | 14. október 2021

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir varhugavert að bera stöðu Íslands saman …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir varhugavert að bera stöðu Íslands saman við hin Norðurlöndin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir varhugavert að bera stöðu Íslands saman við hin Norðurlöndin og telur hann sig ekki geta lagt mat á það hvort aðgerðirnar, sem gripið var til í þeim tilgangi að styrkja heilbrigðiskerfið, séu fullnægjandi til að takast á við fjölgun innlagna. Þórólfur fer á fund á morgun með forsvarsmönnum Landspítalans þar sem staða stofnunarinnar verður rædd.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir varhugavert að bera stöðu Íslands saman við hin Norðurlöndin og telur hann sig ekki geta lagt mat á það hvort aðgerðirnar, sem gripið var til í þeim tilgangi að styrkja heilbrigðiskerfið, séu fullnægjandi til að takast á við fjölgun innlagna. Þórólfur fer á fund á morgun með forsvarsmönnum Landspítalans þar sem staða stofnunarinnar verður rædd.

Í minnisblaði forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra, sem stílað er á ríkisstjórn Íslands þann 12. október, er gefið til kynna að grundvöllur sé til staðar í íslensku samfélagi fyrir frekari tilslökunum. Er það meðal annars rökstutt með hliðsjón af aðgerðum á hinum Norðurlöndunum, árangri bólusetninga, og auknum viðnámsþrótti heilbrigðiskerfisins. 

„Sú vörn sem felst í bólusetningunni hefur hins vegar dregið stórlega úr alvarlegum afleiðingum fyrir þá einstaklinga sem smitast, og eru einkenni lítil sem engin hjá stórum hluta þeirra.

Þá hefur opnun skólastarfs í haust og sú staðreynd að samneyti milli fólks hefur stóraukist ekki leitt til þess að faraldurinn hafi farið í veldisvöxt. Reynsla af síðustu vikum og mánuðum, þar sem litlar raunverulegar sóttvarnir hafa verið viðhafðar innanlands, gefur tilefni til að ætla að hættan á óviðráðanlegum faraldri COVID-19 hafi minnkað,“ segir í minnisblaðinu.

Varhugavert að fylgja Norðurlöndunum

Í minnisblaðinu er meðal annars kveðið á um að íslensk stjórnvöld horfi nú til annarra Norðurlanda sem hafa aflétt öllum innanlandstakmörkunum. Hafa stjórnvöld þar í landi m.a. rökstutt ákvörðun sína út frá þeirri forsendu að kórónuveirufaraldurinn sé ekki raunveruleg ógn við bólusett samfélag í heild.

„Þá hafa öll hin Norðurlöndin mun vægari aðgerðir á landamærum gagnvart bólusettum farþegum. Í Færeyjum eru þó til staðar tilmæli um að farþegar fari af eigin frumkvæði í skimun innan tveggja daga frá komu til landsins,“ segir í minnisblaðinu.

Þórólfur telur það varhugaverða nálgun að fylgja hinum Norðurlöndunum og segir hann það auk þess rangt að hvergi ríki takmarkanir innanlands. 

„Það er ekki rétt að það séu engar takmarkanir á Norðurlöndunum nema hér. Það eru takmarkanir í Finnlandi. Menn eru nýbúnir að aflétta takmörkunum í hinum löndunum. Það er lengst síðan Danir afléttu öllu og það er fróðlegt að sjá hvað gerist þar. Það eru vísbendingar um að faraldurinn sé á uppleið þar í fjölda greindra tilfella, það er aukning í innlögnum.“

Segir hann vísara að taka mið af reynslu okkar Íslendinga í stað þess að sækja hana út fyrir landsteinana. „Við fengum sko sannarlega reynslu í sumar. Við vorum fyrst í Evrópu og af Norðurlöndunum til að aflétta öllu en þurftum svo að loka þegar við fengum þetta í bakið aftur. Þó það sé gott að sjá hvað hin Norðurlöndin eru að gera þá held á að við þurfum fyrst og fremst að skoða okkar gögn og okkar reynslu og hvernig staðan er hér.“

Geta heilbrigðiskerfisins ekki eina fyrirstaðan

Í minnisblaðinu er einnig kveðið á um að innviðir heilbrigðiskerfisins séu betur í stakk búnir að takast á við fjölgun smita nú en áður þar sem gripið hafi verið til aðgerða til að efla viðnámsþrótt.

Sem dæmi eru nefnd styrking heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu, tímabundin fjölgun legurýma og styrking sjúkraflutninga til að meðhöndla sjúklinga. Sé þá einnig verið að efla umönnun með Covid-smituðum á hjúkrunarheimilinu Eir til að létta undir Landspítala.

Aðspurður kveðst Þórólfur ekki geta lagt mat á það hvort þessar breytingar nægi til að auka getu spítalans með fullnægjandi hætti til að takast á við fjölgun covid sjúklinga. Segir hann eingöngu spítalann geta svarað þeirri spurningu. 

Er heilbrigðiskerfið fyrirstaðan fyrir tilslökunum?

„Það er náttúrulega stóra málið. Svo er náttúrulega hitt að fólk er að veikjast alvarlega og fá langvarandi afleiðingar eftir sjúkdóminn. Við þurfum líka að hugsa til þess. Þetta er spurning um jafnvægi hvað viljum við og hvað teljum við að sé ásættanlegt.“

Finnur ekki aukinn þrýsting frá stjórnvöldum

Þórólfur segir mikilvægt að horft sé raunsætt á stöðuna í samfélaginu til að koma í veg fyrir bakslag. Kveðst hann þá ekki finna fyrir auknum þrýstingi frá stjórnvöldum að mæla með tilslökunum. 

„Menn eru bara að viðra ýmsar skoðanir í þessu og það eru sumir sem vilja slaka á meira og aðrir fara varlegar í sakirnar. Þannig hefur það verið allan tímann. Ég finn ekki fyrir neinum sérstökum þrýstingi frá stjórnvöldum.“

Segir hann það sitt lögboðna hlutverk sem sóttvarnalæknir að horfa til heilsufars þjóðarinnar í faraldrinum. Hins vegar sé það hlutverk stjórnvalda að taka tillit til annarra hagsmuna og taka endanlega ákvörðun um þessi málefni.

„Við getum náttúrulega aflétt öllu og tekið sénsinn á því hvað gerist. Að mínu mati þurfum við að fara varlega en svo er það stjórnvalda að ákveða hvernig þetta verður útfært.“

mbl.is