Forstjóri Landspítala segir rými til tilslakana

Kórónuveiran Covid-19 | 15. október 2021

Forstjóri Landspítala segir rými til tilslakana

Settur forstjóri Landspítala, Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, segir rými til tilslakana á sóttvarnatakmörkunum innanlands. 

Forstjóri Landspítala segir rými til tilslakana

Kórónuveiran Covid-19 | 15. október 2021

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, settur forstjóri Landspítala.
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, settur forstjóri Landspítala. mbl.is/Kristinn Magnússon

Settur forstjóri Landspítala, Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, segir rými til tilslakana á sóttvarnatakmörkunum innanlands. 

Settur forstjóri Landspítala, Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, segir rými til tilslakana á sóttvarnatakmörkunum innanlands. 

Hún ræddi við Þórólf Guðnason sóttvarnalækni í morgun um leiðir sem eru færar í þeim efnum.

„Einhvers konar, já,“ segir Guðlaug í samtali við mbl.is, spurð að því hvort Landspítali telji rými til tilslakana. 

Þó segir hún að til þeirra verði að ráðast með raunsæi og varkárni.

„Mér finnst það skipta mjög miklu máli, já. Eins og ég hef sagt áður er spítalaumhverfið mjög kvikt, dagurinn í dag er ekkert eins og dagurinn á morgun. Við þurfum alltaf að taka tillit til þess og segjum sem svo að þolmörkum spítalans verði náð þá þarf sömuleiðis að skoða hvernig megi hægja á útbreiðslu smita. Þetta er bara hringrás og við þurfum öll að dansa í takt,“ segir Guðlaug. 

Bráðamóttakan ráði ekki við meira

Hún segir einnig að ákveða þurfi hvernig nýjum takmörkunum skal háttað með hliðsjón af getu spítalans, stöðu á bráðamóttöku og legudeildum. Þar að auki verði að gæta þess að spítalinn ráði við mögulega aukningu í sýnatöku, sem gera má ráð fyrir að eigi sér stað í kjölfar tilslakana. 

Í sömu svipan og Guðlaug tók við af forvera sínum í starfi, Páli Matthíassyni, heyrðist neyðarkall hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku, sem sögðu að hættuástand ríki á deildinni. Strax í kjölfarið var Guðlaug spurð að því hver afstaða hennar væri til þess og sagðist hún taka heils hugar undir áhyggjur hjúkrunarfræðinganna.

Finnst þér starfsfólk spítalans vera að róa í sömu átt hvað þetta varðar? Hjúkrunarfræðingar á bráðamóttöku kvarta undan miklu álagi, er fólk samstíga í því að spítalinn ráði við meira og ráði við einhvers konar tilslakanir?

„Ég myndi ekki orða það þannig að spítalinn ráði við meira. Ef þú horfir á bráðamóttökuna, þá er hún alveg þanin eins og hægt er. Það er ekki hægt að leggja meira á bráðamóttökuna. en það er bara þannig að Covid-sjúklingarnir koma ekkert endilega í gegnum bráðamóttökuna,“ segir Guðlaug og bætir við:

„Tilslakanir geta þýtt fleiri smit og sem þýðir fleiri útsetningar og það kæmu þá margir á bráðamóttökuna með grun um smit og svo framvegis. Og það er þetta sem við erum að reyna að meta. Við áttum, eins og ég segi, bata mjög góðan fund þar sem við vorum að ræða þessa möguleika sem fyrir eru.“

mbl.is