Sandra lætur drauminn rætast í Los Angeles

Íslendingar í útlöndum | 20. október 2021

Sandra lætur drauminn rætast í Los Angeles

Þjálfarinn Sandra Björg Helgadóttir flutti til Los Angeles-borgar í Bandaríkjunum í ágúst síðastliðnum. Sandra hafði lengi stefnt á það að flytja til borgarinnar og frestaði því þar að auki um eitt ár vegna heimsfaraldursins.

Sandra lætur drauminn rætast í Los Angeles

Íslendingar í útlöndum | 20. október 2021

Sandra Björg Helgadóttir er nú í draumanáminu sínu í Los …
Sandra Björg Helgadóttir er nú í draumanáminu sínu í Los Angeles í Bandaríkjunum.

Þjálfarinn Sandra Björg Helgadóttir flutti til Los Angeles-borgar í Bandaríkjunum í ágúst síðastliðnum. Sandra hafði lengi stefnt á það að flytja til borgarinnar og frestaði því þar að auki um eitt ár vegna heimsfaraldursins.

Þjálfarinn Sandra Björg Helgadóttir flutti til Los Angeles-borgar í Bandaríkjunum í ágúst síðastliðnum. Sandra hafði lengi stefnt á það að flytja til borgarinnar og frestaði því þar að auki um eitt ár vegna heimsfaraldursins.

Sandra flutti til borgarinnar til að fara í meistaranám í Loyola Marymount-háskóla en þar er hún í MBA-námi. Sandra hefur komið víða við og er áhugasvið hennar breitt. Hún er vinsæll þjálfari hjá World Class og stofnandi Absolute Training. Samhliða því stundaði hún nám við Háskóla Íslands og útskrifaðist úr iðnaðarverkfræði árið 2014. 

Dansinn hefur átt hug Söndru undanfarin ár en hún hefur dansað í Tinu Turner-sjóvinu frá árinu 2015 og einnig hefur hún kennt dans hjá Dansstúdíói World Class síðan 2008. Þá tók hún jógakennaranám í Ubud á Balí árið 2020, rétt áður en heimsfaraldur skall á. 

Af hverju ákvaðstu að flytja til Los Angeles og hversu lengi muntu búa þar?

„Síðan ég kom fyrst til Los Angeles á fullorðinsárum, 19 ára gömul, til þess að sækja danstíma hér í borginni, þá hefur það verið draumur hjá mér að flytja hingað. Ég hef reglulega heimsótt borgina og þá sérstaklega þegar Wowair var með beint flug. Ég man að árið 2017 fór ég þrisvar til LA, því það var orðið svo ódýrt og fljótlegt. Foreldrar mínir bjuggu í San Diego fyrstu árin mín og það eflaust skapar einhverja tengingu líka.
Stefnan er að búa hér í tvö til þrjú ár til að byrja með, sjáum svo til hvað gerist eftir þann tíma.“

Sandra flutti út í ágúst.
Sandra flutti út í ágúst.

Hvers vegna valdirðu þessa borg?

„Það sem hefur viðhaldið áhuga mínum á að flytja til Los Angeles er klárlega það að ég hef ennþá brennandi áhuga á dansi, sem er mín ástríða. Umfram það þá er LA algjört mekka heilsu, það eru jógastúdíó og líkamsræktarstöðvar á hverju horni, hollur og ferskur matur aðgengilegur úti um allt. Sem dæmi má nefna verslanir eins og Whole Foods og Trader Joe's þar sem hægt er að grípa sér máltíð fyrir svo lítið sem 600-1.200 kr. en ótrúlega ferska og bragðgóða. Það er mjög mikilvægt fyrir mig að vera í umhverfi þar sem er tiltölulega auðvelt að lifa heilbrigðum lífsstíl. Los Angeles er mjög framarlega í heilsu-trendum svo það er ótrúlega spennandi fyrir mig sem þjálfara að vera í þessari borg og fá nýjustu straumana beint í æð.“

Sandra og Hilmar við Hollywood merkið.
Sandra og Hilmar við Hollywood merkið.

Var ekkert mál að pakka öllu saman og ákveða að flytja til annars lands í „miðjum heimsfaraldri“?

„Ég var lengi búin að undirbúa það að flytja hingað og komst inn í MBA-nám í Loyola Marymount University haustið 2020, sem var þá einungis kennt á netinu vegna Covid. Ég ákvað frekar að fresta náminu um eitt ár til að geta tekið það í skólanum svo mér finnst ég í rauninni hafa farið eftir heimsfaraldurinn. Ég og maðurinn minn vorum bæði orðin bólusett þegar við fluttum og manni leið smá eins og Covid væri búið. Þetta aukaár gaf okkur vissulega mjög góðan tíma til þess að undirbúa flutningana, lifa mínimalískum lífsstíl og huga að því hvernig við gætum skilað hlutunum af okkur heima á Íslandi. Ég mæli líka sterklega með því að tala við sem flesta í svona undirbúningsferli sem hafa reynslu. Ísak Óli litli bróðir minn var sjálfur búinn að búa í LA og var í sama skóla og ég er í núna og hann gaf mér frábær ráð; að pakka sem minnstu og sagði okkur hvað hann hefði notað mest hérna úti. Það einfaldaði lífið til muna. Þannig að í rauninni var þetta ekkert mál þegar að því kom að pakka og flytja. Mér fannst við samt vera að fara út með heilan helling, við tókum tvær töskur á mann, 23 kg hver taska, vissulega er ég alltaf með yfirvigt en svo talaði ég við stelpu í skólanum sem kom með sex töskur og hún var að flytja frá öðru ríki hér í Bandaríkjunum. Þá varð ég nú bara nokkuð stolt af því að hafa komið öllu mínu dóti í tvær töskur. Svo er einn góður punktur sem pabbi segir alltaf; það er að það er allt til í Bandaríkjunum.“

Sandra nýtur sín í botn í borginni.
Sandra nýtur sín í botn í borginni.

Hver er þín fyrsta upplifun af borginni?

„Mín fyrsta upplifun eftir að við komum út núna var í rauninni bara æðisleg. Við flytjum út 25. ágúst, þá er hápunktur sumarsins, steikjandi hiti og allt að vakna til lífsins eftir Covid. Það er töluvert öðruvísi að koma til Los Angeles þegar það er mikið af ferðamönnum, núna eru Bandaríkin náttúrlega lokuð, svo einu ferðamennirnir sem eru í LA eru Bandaríkjamenn frá öðrum ríkjum og borgum. Það er klárlega rólegra en maður er vanur í þessari stórborg en ótrúlega huggulegt. Það er líka svo dýrmætt að vera Íslendingur, við erum búin að hitta reglulega íslenskt fólk sem við þekkjum hérna úti og það taka allir svo ótrúlega vel á móti manni og eru tilbúnir að aðstoða við hvað sem er.“

Hefur eitthvað komið þér á óvart?

„Það sem hefur komið mest á óvart er í rauninni hvað Covid hefur haft mikil áhrif á borgina. Svo virðist sem það sé ákveðinn þungi yfir fólki. Það vantar klárlega að byggja fólk upp aftur eftir faraldurinn og maður heyrir það mikið í umræðunni. Til dæmis þegar ég fer í danstíma, þá er ekki sama stemningin og fólk er meira til baka. Danskennararnir gera sitt besta við að minna fólk á að við þurfum að hvetja hvert annað áfram og byggja upp stemninguna eins og hún var fyrir Covid. Maður finnur fyrir þessu í þjónustunni og á fleiri stöðum. Ég held að það þurfi virkilega að vinna í að byggja upp samfélög eftir svona heimsfaraldur.“

Sandra segir borgina vera mjög áhugaverðan stað til að búa …
Sandra segir borgina vera mjög áhugaverðan stað til að búa á fyrir þjálfara, enda borgin mekka heilsunnar.

Hvernig hafa fyrstu vikurnar af lífinu í Los Angeles verið?

„Við skipulögðum brottförina okkar þannig að við myndum mæta út rétt áður en skólinn hjá mér byrjaði, svo það hófst nokkuð mikil rútína um leið og við mættum. Það tekur hins vegar smá tíma að móta rútínu sem manni líður vel með í nýju landi, til dæmis finna matvörubúðirnar sem maður ætlar að versla í og hvar maður ætlar að æfa og fleira. Ég er í skólanum þriðjudags- og fimmtudagskvöld og þess á milli er ég að læra, í danstímum og sinna absolute training. Við Hilmar reynum svo að nýta pásurnar í að kynnast borginni og gera eitthvað skemmtilegt saman.“

Hvaða staði mælir þú með að fólk heimsæki í borginni?

„Ég elska lítið útimoll sem heitir The Grove. Við búum í 10 mínútna göngufæri frá því og það er einn uppáhaldsstaðurinn minn í LA. Líka vegna þess að við mamma fórum svo oft þangað þegar hún kom með mér til LA 2009. Einnig finnst mér ótrúlega gaman að fara á Rodeo Drive sem er svona fín verslunargata, skoða fallega hluti, fá mér góðan kaffibolla og taka húsarúnt um villurnar rétt fyrir ofan. Við endann á Rodeo Drive er líka Beverly Hills-skiltið sem er gaman að eiga mynd af sér við.

Svo bíðum við spennt eftir því að fá gesti til okkar og fara með þeim í Six Flags, rússíbanagarð sem er um klukkustund frá LA. Svo er auðvitað ótrúlega gaman, sérstaklega fyrir fólk með börn, að fara í Universal Studios.

Ég mæli ótrúlega mikið með að stunda útiveru hérna úti, til dæmis fórum við í göngu upp að Hollywood-skiltinu fyrir stuttu. Það var stórkostlegt útsýni allan tímann og virkilega þægileg og skemmtileg ganga. Eins hjólaði ég í bröns niðri á Santa Monica um daginn og hjólaði strandlengjuna niður að Venice beach eftir á. Það er svo gaman að vera hluti af stemningunni þar. Næst á dagskrá er að fá sér hjólaskauta og fara á þeim niður strandlengjuna. Svo prófaði ég spinningtíma á ströndinni um daginn, það eru tímar þar alla daga oft á dag. Ég mæli með að skrá sig í tíma og prófa, það er hægt að vera í spinning og horfa á sólsetrið, algjörlega einstök upplifun.“

Sandra mælir með göngu upp að Hollywood merkinu.
Sandra mælir með göngu upp að Hollywood merkinu.

Mælir þú með einhverjum veitingastöðum?

„Við erum svolítið miklir túristar ennþá hvað það varðar og erum að kynnast lókal stöðunum hérna. Við erum alltaf hrifin af The Cheesecake Factory en varðandi lókal staði þá mæli ég með Great White á Venice, ég var að prófa hann fyrst í dag, fékk mér virkilega góða morgunverðarvefju en þeir bjóða upp á pítsur og salöt og alls konar góðgæti, mér fannst allir diskarnir í kringum mig girnilegir. Svo er The Rose Venice líka frábær fyrir bröns eða kvöldmat, gott kaffi eða kokteila. Everbowl er æðislegur acai-staður alveg við ströndina. Ég mæli með að fá sér skál og rölta niður á strönd. Við fengum meðmæli frá vinum að prófa að fara á svæði sem heitir Platform í Culver City, sem er rísandi hverfi hérna í LA. Þar er frábær pítsustaður, Roberta's, þakbar sem heitir Margot og fleiri ótrúlega huggulegir staðir. Við urðum fyrir miklum vonbrigðum þegar við komumst loksins á Five Guys, gæðin þar hafa þvílíkt farið niður á við svo við erum í markvissri leit að hinum fullkomna hamborgara og sjeik hérna úti. Shake Shack koma sterkir inn en leitin heldur áfram. Við erum ótrúlega spennt að prófa nýja staði hérna úti.“

En „ferðamanna“stöðum? 

Ef fólk er að fara til Los Angeles í fyrsta skipti, þá vill það oft fara á þessa helstu túristastaði eins og Santa Monica Pier, Hollywood/Highland þar sem stjörnurnar eru í gangstéttinni og Chinese Theatre, Griffith Observatory sem er frábært útsýnisstaður yfir borgina. Þetta eru allt ótrúlega skemmtilegir staðir að fara á að minnsta kosti einu sinni yfir ævina.

Ætlarðu að ferðast mikið út fyrir borgina á meðan þú býrð úti?

Já við erum með lista yfir staði sem okkur langar til að heimsækja meðan við erum hér. Efst á listanum eru staðir eins og Havaí, það er fimm tíma flug þangað héðan. Svo elskum við að kíkja niður til San Diego, þannig að við ætlum að taka einhverjar helgar þar. Eins langar okkur að fara með vinum okkar til Las Vegas. Ég þekki fólk sem býr í San Francisco svo það er líka á dagskrá að kíkja þangað. Svo eigum við Arnfríður litla systir mín miða á Coachella 2022 sem er haldið í Palm Springs, tveimur tímum frá LA í bíl. Svo er það bucketlist-dagurinn að fara á bretti í Big Bear fyrir hádegi og sörfa niðri á Venice eftir hádegi. Þetta eru svona helstu staðirnir en maður gæti haldið endalaust áfram. Sjáum til hvað við náum miklu á þessum tveimur til þremur árum sem við verðum hér.“

mbl.is