Súrsæt niðurstaða COP26

Loftslagsráðstefnan COP26 | 18. nóvember 2021

Súrsæt niðurstaða COP26

COP26 er 26. aðildarríkjaþing loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna sem haldið var í Glasgow dagana 1. nóvember til 13. Nóvember og stendur skammstöfunin fyrir Confrence of parties. Þangað mættu rúmlega 20 þúsund fulltrúar frá 197 aðildarríkjum, þar með talið rúmlega 190 þjóðarleiðtogar, ásamt fulltrúum ríkisstjórna, sérfræðinga í loftslagsmálum, talsmanna fyrirtækja, félagasamtaka og svo lengi mætti telja.

Súrsæt niðurstaða COP26

Loftslagsráðstefnan COP26 | 18. nóvember 2021

Alok Sharma, forseti COP26-loftslagsráðstefnuna, hélt aftur af tárum þegar hann …
Alok Sharma, forseti COP26-loftslagsráðstefnuna, hélt aftur af tárum þegar hann upplýsti um að ríkin hefðu komist að sameiginlegri niðurstöðu með loftslagssamning. AFP

COP26 er 26. aðildarríkjaþing loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna sem haldið var í Glasgow dagana 1. nóvember til 13. Nóvember og stendur skammstöfunin fyrir Confrence of parties. Þangað mættu rúmlega 20 þúsund fulltrúar frá 197 aðildarríkjum, þar með talið rúmlega 190 þjóðarleiðtogar, ásamt fulltrúum ríkisstjórna, sérfræðinga í loftslagsmálum, talsmanna fyrirtækja, félagasamtaka og svo lengi mætti telja.

COP26 er 26. aðildarríkjaþing loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna sem haldið var í Glasgow dagana 1. nóvember til 13. Nóvember og stendur skammstöfunin fyrir Confrence of parties. Þangað mættu rúmlega 20 þúsund fulltrúar frá 197 aðildarríkjum, þar með talið rúmlega 190 þjóðarleiðtogar, ásamt fulltrúum ríkisstjórna, sérfræðinga í loftslagsmálum, talsmanna fyrirtækja, félagasamtaka og svo lengi mætti telja.

Formleg sendinefnd Íslands taldi tæplega 26 fulltrúa en í hópi þeirra mátti m.a. finna Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, Guðmund Inga Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, ásamt fulltrúum umhverfisstofnunar, veðurstofunnar, landgræðslunnar, loftslagsráðs og Orkustofnunar.

Ráðstefnan í Glasgow hefur verið kölluð uppgjörstími Parísarsáttmálans sem er lögbundinn alþjóðlegur sáttmáli um loftslagsbreytingar sem var samþykktur á COP21-loftslagsráðstefnunni í París 2015. Sáttmálinn kveður á um að þjóðir heims vinni saman að því að koma í veg fyrir að meðalhitastig jarðar hækki um 1,5 - 2 gráður miðað við meðalhitastigið sem var við upphaf iðnvæðingar. Var þá samþykkt að ríki heims myndu hittast á fimm ára fresti til að meta þann árangur sem hefði náðst í loftslagsmálum og endurskoða landsframlögin (e. Nationally determined contributions) og gera markmið þeirra metnaðarfyllri. Engin loftslagsráðstefna fór þó fram í fyrra og frestaðist uppfærsla markmiða um eitt ár.

Fyrir ráðstefnuna í Glasgow í ár voru aðildarríkin beðin um tvennt. Annars vegar að endurskoða og uppfæra framlög sín í Parísarsáttmálanum, og hins vegar að skila inn framtíðarsýn um hvernig skuli tryggja kolefnishlutleysi.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sótti ráðstefnuna.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sótti ráðstefnuna. AFP

Síðasta raunverulega tækifærið okkar

Mikilvægt er að ríkin hittist með reglulegu millibili til að uppfæra markmið sín um samdrátt í losun. Eftir því sem magn koldíoxíðs í andrúmsloftinu hækkar, þeim umfangsmeiri breytingar þarf til að snúa þróuninni við. Ef að koldíoxíð í andrúmsloftinu fer yfir 450 ppm eru taldar einungis 50% líkur á að við náum að halda hlýnun innan við tveggja gráðu markið.

Skömmu fyrir ráðstefnuna birtust skýrslur sem vörpuðu ljósi á afar neikvæða þróun í loftslagsmálum. Frá því að Parísarsáttmálinn var samþykktur virðast litlar sem engar framfarir hafa orðið þrátt fyrir loforð og yfirlýsingar þjóðarleiðtoga.

Í skýrslu frá Alþjóðaveðurfræðistofnuninni (WMO) kemur fram að magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu hafi náð nýjum hæðum á síðastliðnum árum en mælingar frá síðasta ári sýndu að magnið hafi farið yfir meðaltal síðustu tíu ára og lítur allt út fyrir að aukningin haldi áfram á þessu ári.

Í skýrslu Umhverfistofnunarinnar sem birtist nokkrum dögum síðar kom fram að skuldbindingar þjóða í landsmarkmiðum fyrir ráðstefnuna hafi ekki verið nálægt því að koma í veg fyrir að meðalhitastig jarðar hækki um 1,5 gráðu. Nauðsynlegt væri að minnka útblástur koldíoxíðs um 55% fyrir árið 2030 en skuldbindingarnar fyrir ráðstefnuna virtust einungis miða við að draga úr útblæstri um 7,5%. Með því áframhaldi má búast við að meðalhitastig hækki um 2,7 gráður á næstu árum, sem er langt frá því sem Parísarsáttmálinn gerði ráð fyrir.

Mikið var því undir á ráðstefnunni í ár og þurftu þjóðarleiðtogar og sendinefndir að herða tökin verulega á baráttunni. Telja margir að við munum aldrei aftur fá jafn gott tækifæri til að bregðast við loftslagsvánni.

Markmið ráðstefnunnar

Fyrir ráðstefnuna voru nokkur útgefin markmið.

Það fyrsta var að tryggja kolefnishlutleysi fyrir miðja öldina og halda markmiði Parísarsáttmálans um takmörkun hlýnunar við 1,5 gráðu á lífi.  Til að það gæti gerst var ljóst að hraða þyrfti ferlinu sem felur í sér stöðvun á notkun kola, draga úr eyðingu skóga, flýta umskiptum nýorkubíla og hvetja til fjárfestingar í endurnýjanlegum orkugjöfum.

Annað markmið var að vernda bæði samfélög og náttúru gegn loftslagsáhrifum, meðal annars með byggingu varna og traustra innviða sem geta staðið af sér áhrif loftslagsbreytinga.

Þriðja markmiðið felur í sér að tryggja fjármögnun í svokallaðan loftslagssjóð þar sem fjármálastofnanir úr einka- og opinberageiranum vinna saman að því að safna 100 milljörðum Bandaríkjdala á ári hverju fyrir þróunarlönd. Verður þessi peningur nýttur til að efla markmið eitt og tvö, það er aðstoða þróunarlönd við að aðlagast og verjast áhrifum loftslagsbreytinga, en jafnframt auðvelda þeim að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Fjórða og síðasta markmiðið felur í sér samvinnu aðildarríkjanna að sameiginlegu markmiði. Krefst meðal annars samvinnu við að leggja lokahönd á reglubók Parísarsáttmálans og hraða aðgerðum í baráttunni gegn loftslagsvánni.

Mikilvægar yfirlýsingar

Ráðstefnan hófst formlega þann 1. nóvember með ávörpum þjóðarleiðtoga þar sem þeir settu tóninn fyrir ráðstefnuna og sammælst var um mikilvægi þess að bregðast við þeim aðkallandi vanda er steðjar að jörðinni. Næst tók við samningaviðræður fulltrúa ríkjanna og að lokum komu ráðherrar til að leysa úr torleystum ágreiningsefnum.

Áður en ráðstefnunni lauk voru mikilvægar sjálfstæðar yfirlýsingar samþykktar af fjölda landa, sem kveða meðal annars á um skógareyðingu, losun metans og kolanotkun.

Yfir hundrað ríki, sem samanlagt eiga um 85% af skóglendi heims, hafa ritað undir yfirlýsingu þar sem þau heita því að stöðva og snúa við tapi á skógum og landeyðingu fyrir árið 2030. Töluverðu fjármagni hefur verið heitið í þetta verkefni en enn þykir nokkuð óljóst hvernig þessu verður fylgt eftir. 

Yfir hundrað ríki hafa skrifað undir yfirlýsingu sem kveður á um 30% samdrátt á losun metans til 2030 miðað við losun 2020. Markmiðið er sameiginlegt og er því ekki um að ræða markmið fyrir einstök ríki. Þykir þó áhyggjuefni að stórþjóðir á borð við Kína, Rússland og Indland hafa ekki skrifað undir, en þær bera ábyrgð á stórum hluta útblásturs lofttegundarinnar.

Yfir 40 ríki hafa ritað undir yfirlýsingu um að víkja frá kolanotkun en það er talið vera einn stærsti orsakavaldur loftslagsbreytinga. Hétu ríkin því ýmist að hætta notkuninni fyrir árið 2040 eða 2050. Þótti jákvætt að sjá að ríki á borð við Suður Kóreu, Indónesíu, Víetnam, Pólland og Úkraínu sem eru á lista yfir 20 lönd sem nota hvað mest kol í heiminum. Hins vegar þótti ekki jákvætt að ríki á borð við Ástralíu, Kína, Japan og Indland hefðu ákveðið að taka ekki þátt.

Þá voru þó nokkur ríki á borð við Bandaríkin, Kanada og Bretland, sem sáu sér ekki fært um að skrifa undir yfirlýsinguna um að stöðva kolanotkun, sem skrifuðu hins vegar undir aðra yfirlýsingu þar sem þau hétu því að hætta að fjármagna framleiðslu jarðefnaeldsneytis utan heimalands síns fyrir árslok 2022. Verður fjármunum frekar varið í að fjárfesta í hreinni orku. 

Ísland skrifar undir fimm yfirlýsingar

Alls skrifuðu fulltrúar Íslands undir fimm yfirlýsingar sem voru utan ramma loftslagssamningsins.

Meðal þeirra voru yfirlýsingarnar sem minnst var á hér að ofan er varða samdrátt í losun metans og stöðvun á skógareyðingu. Til viðbótar við þær var einnig skrifað undir yfirlýsingu um herta sókn í innleiðingu rafbíla og annarra hreinorkubíla, í von um að þeir verði 100% af bílasölu fyrir árið 2035. Þá rituðu fulltrúar Íslands undir yfirlýsingu sem styður við hrein orkuskipti á heimsvísu og að lokum var ritað undir yfirlýsingu sem kveður á um að draga úr losun frá siglingum og stöðva hana með öllu fyrir árið 2050.

Sameiginleg yfirlýsing Kínverja og Bandaríkjamanna

Örfáum dögum fyrir lok ráðstefnunnar bárust einnig þau tíðindi að Kína og Bandaríkin hefðu tekið höndum saman og gefið út sameiginlega yfirlýsingu þar sem kveðið var á um að þjóðirnar ætli að vinna saman að metnaðarfyllri markmiðum til þess að takmarka hlýnun við 1,5 gráðu. Þótti þá fyrst og fremst áhugavert að horfa til þess hvað Kínverjar ætluðu að gera en fram til þessa höfðu þeir legið undir mikilli gagnrýni fyrir að sýna ekki mikinn lit í baráttunni gegn loftslagsvánni þrátt fyrir að menga mest allra ríkja.

Yfirlýsingin er talið mikilvægt framfara skref en á sama tíma er hún ansi gloppótt. Hafa gagnrýnendur meðal annars bent á að skortur sé á aðgerðaráætlun um hvernig ríkin hyggist ætla að standa við samdrátt í losun auk þess sem lítið hefði verið minnst á fjármagn til að fylgja þessu eftir.

John Kerry fulltrúi Bandaríkjanna þegar hann kynnti sameiginlega yfirlýsingu þeirra …
John Kerry fulltrúi Bandaríkjanna þegar hann kynnti sameiginlega yfirlýsingu þeirra og Kína. AFP

Helstu niðurstöður

Meðal helstu niðurstaðna samningsins eru að aðildarríki loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna staðfestu allar mikilvægi þess að halda hækkun hitastigs jarðar undir 1,5 gráðum. Þá eru ríki beðin um að skila inn metnaðarfyllri markmiðum í samræmi við markmið Parísarsáttmálans fyrir árslok 2022, í stað 2025 eins og upprunalega var kveðið á um. Frágang Reglubók Parísarsáttmálans lauk formlega og útfærslur á reglugerðum og fyrirkomulagi ýmissa ákvæða sem höfðu staðið út af eftir loftslagsráðstefnuna í Póllandi árið 2018, meðal annars ákvæðið um kolefnismarkaðinn.

Kveðið var á um að dregið yrði úr notkun kola og niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti. Hvað varðar fjármagn, þá var farið fram á að þróuð ríki myndu tvöfalda framlög sín til þróunarríkja til aðlögunar að áhrifum loftslagsbreytinga.

Þá kveður lokaákvörðun loftslagsráðstefnunnar einnig á um að lögð sé áhersla á málefni hafsins, jökla, líffræðilegrar fjölbreytni, og vernd og endurheimt náttúru og vistkerfa. Auk þess sem áhersla var lögð á að gætt verði að réttlæti, jafnréttis og mannréttindum í þeim breytingum sem við stöndum frammi fyrir. Þá á einnig að auka aðkomu ungs fólks að undirbúningi verkefna og ákvarðanatöku.

Lokaútkoman þótti nokkuð umdeild en fyrstu drög samkomulagsins höfðu kveðið á um metnaðarfyllri aðgerðir. Mótmæli stórþjóða höfðu þó dregið úr ýmsum ákvæðum á lokasprettinum sem varð til þess að þau urðu óskýr og jafnvel útvötnuð og bitlaus.

Dregið úr notkun kola

Sú breyting sem olli hvað mestum vonbrigðum var án efa ákvæðið um kolanotkun. Í fyrstu drögum voru aðildarríkin hvött til að hætta notkun kola og niðurgreiðslu jarðefnaeldsneytis. Þetta ákvæði þótti afar framúrstefnulegt í ljósi þess að í Parísarsáttmálanum var hvergi minnst á kol, olíu, náttúrugas eða jarðefnaeldsneyti.

Þegar á hólminn var komið reyndist þó ákvæðið of þungbært fyrir stórþjóðir á borð við Kína, Indland, Sádi-Arabíu og Suður Afríku sem reiða sig að miklu leyti á kol sem orkugjafa. Eftir miklar samningaviðræður fékkst smávægileg breyting á orðalaginu samþykkt sem mun þó hafa miklar afleiðingar í för með sér.

Er nú einungis kveðið á um að dregið verði úr kolanotkun (e. phase-down) í stað þess að hún verði stöðvuð (e. phase-out). Hefur þessi lokabreyting verið gagnrýnd harðlega og þykir nú ákvæðið frekar óljóst og bitlaust. Er þetta talinn hafa verið mikill ósigur fyrir umhverfið og plánetuna.

Skaðabætur

Þá þótti einnig mikil vonbgriði að ákvæði um bótaábyrgð þróaðra ríkja gagnvart þróunarlöndum hefði ekki hlotið meiri hljómgrunn.

Þykir nokkuð óumdeilt að þróuð ríki beri mun meiri ábyrgð á þeirri loftslagsvá sem við stöndum frammi fyrir. Hins vegar hafa þróunarríki verið mun berskjaldaðri gagnvart áhrifum loftslagsbreytinganna. Hefur því ákvæði um bótaábyrgð þróaðra ríkja lengi verið í umræðunni en hingað til ekki hlotið brautargengi.  

Beiðnir þróunarríkja féllu í grýttan farveg en ríki á borð við Bandaríkin sáu sér ekki hag í því að hleypa þessu kerfi á koppinn enda gæti það leitt til þess að hægt væri að heimta milljarða í skaðabætur frá stórþjóðum sem bera hvað mesta ábyrgð.

Í stað þess var komist að þeirri niðurstöðu að árlegar viðræður myndu eiga sér stað til ársins 2024 til að ræða fyrirkomulag fjármögnunar um ákveðnar aðgerðir. Þykja þessi loforð óskýr og ónákvæm.

Þá tókst heldur ekki að efna loforð um loftslagssjóðinn sem hefur verið í deiglunni undanfarin ár. Í hann áttu ríkari þjóðir heims og fjármálastofnanir að safna 100 milljörðum bandaríkjadala á hverju ári til þróunarríkja og átti sjóðurinn að komast á fót árið 2020, sem gerðist þó ekki.

Mörgum þótti niðurstaða ráðstefnunnar misheppnuð og voru ósáttir við markmiðin …
Mörgum þótti niðurstaða ráðstefnunnar misheppnuð og voru ósáttir við markmiðin sem komu þar fram. AFP

Lokaniðurstaða

Lokaniðurstaða og markmið samkomulagsins sem aðildarríkin skrifuðu undir duga því ekki til að takmarka hlýnun við 1,5 gráðu. Samkvæmt útreikningum Umhverfisstofnunnar Sameinuðu þjóðanna stefnir nú í að meðalhitastig hækki um 2,4 gráðu miðað við þær yfirlýsingar ríkja sem komu fram á fundinum.

Það sem helst stendur upp úr er gagnrýni á ríkari þjóðir heims sem ekki eru talin hafa staðið skil á sínu gagnvart þróunarlöndum, sem eru hvað berskjölduðust fyrir áhrifum loftslagsbreytinga. Þrátt fyrir það hafa margir sammælst um að ráðstefnan hafi ekki verið misheppnuð, öllu heldur hafi mikilvægt skref verið tekin og að margir jákvæðir þættir hafi falist í henni.

mbl.is