Enn ein „hvernig á ekki að láta nauðga sér“ aðferðin

Kynferðisbrot | 23. nóvember 2021

Enn ein „hvernig á ekki að láta nauðga sér“ aðferðin

Aðgerðahópurinn Öfgar svarar Jóni Steinari Gunnlaugssyni lögmanni fullum hálsi í opnu svari við grein sem birtist eftir hann í Morgunblaðinu þann 18. nóvember.

Enn ein „hvernig á ekki að láta nauðga sér“ aðferðin

Kynferðisbrot | 23. nóvember 2021

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, skrifaði grein í …
Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, skrifaði grein í Morgunblaðið þann 18. nóvember sem aðgerðahópurinn taldi skaðlega.

Aðgerðahópurinn Öfgar svarar Jóni Steinari Gunnlaugssyni lögmanni fullum hálsi í opnu svari við grein sem birtist eftir hann í Morgunblaðinu þann 18. nóvember.

Aðgerðahópurinn Öfgar svarar Jóni Steinari Gunnlaugssyni lögmanni fullum hálsi í opnu svari við grein sem birtist eftir hann í Morgunblaðinu þann 18. nóvember.

Konurnar að baki svarinu eru þær Helga Ben, Hulda Hrund, Ólöf Tara, Ninna Karla, Tanja M. Ísfjörð og Þórhildur Gyða.

Þær saka Jón Steinar um aldagamalt viðhorf sem hafi lengi virkað vel til að þagga niður í þolendum. Þá kalla þær grein hans enn eina „hvernig á ekki að láta nauðga sér“ aðferðina.

Þær minna á að ofbeldi sé aldrei á ábyrgð þolenda, heldur ávallt á ábyrgð gerenda. „Þolendur hafa skilað skömminni. Jón Steinar, vinsamlegast ekki reyna að þröngva henni upp á okkur aftur.“

Konurnar að baki svarinu eru þær Helga Ben, Hulda Hrund, …
Konurnar að baki svarinu eru þær Helga Ben, Hulda Hrund, Ólöf Tara, Ninna Karla, Tanja M. Ísfjörð og Þórhildur Gyða. Ljósmynd/ Aðsend

Ráðið sé að draga úr notkun áfengis og vímuefna

Greinin sem um ræðir ber fyrirsögnina Víman og þar segist Jón Steinar trúa því að áfengis- og vímuefnanotkun sé ráðandi áhrifaþáttur í langflestum kynferðisbrotum en hún endar á eftirfarandi orðum: 

Ráðið er sem sagt að hætta eða draga verulega úr notkun áfengis og vímuefna hvort sem er á skemmtistöðum eða bara heima fyrir. Slíkt er til þess fallið að draga úr hættu á þessum brotum, þó að þau yrðu seint alveg úr sögunni. Þeir sem ekki geta nýtt sér þetta ráð eru líklega háðir vímugjöfunum með þeim hætti að þeir ættu að leita sér hjálpar.

Slaufunarmenningin komi verr við þolendur en gerendur

Öfgar segja það þekkt að þolendur hafi þurft að bera skömm af ofbeldi. Á árum áður hafi þolendum verið drekkt, þeir lokaðir inni á geðsjúkrahúsum eða gerðir ábyrgir fyrir mannorði gerenda.

„Þegar þolendur öðlast meiri styrk og sterkari rödd þá er reynt að finna aðrar leiðir til þess að reka þá aftur inn í þögnina svo ofbeldið sem þrífst í þögninni fái ekki að líta dagsins ljós.“

Í grein sinni kemur Jón Steinar einnig inn á það að menn séu nafngreindir á opinberum vettvangi, án þess að sakir séu sannaðar. Það valdi þeim stundum velferðarmissi, brottrekstri úr vinnu eða útskúfun frá þátttöku í íþróttum.

Öfgar segja að sú slaufunarmenning (e. cancel culture), sem Jón Steinar vísar til, virðist síður eiga við um gerendur en um þolendur. 

„Gjörðir gerenda og opinberun gjörða þeirra virðast hafa litlar afleiðingar hvað varðar þátttöku í íþróttum eða brottrekstur úr vinnu. Það hefur einnig litlar afleiðingar hvort sem þeir fara í gegnum réttarkerfið og hljóti þar dóm, málið sé fellt niður eða þeir séu nafngreindir á samfélagsmiðlum. Á sama tíma gerist það gjarnan að þolendur hrekjast burt, hljóta örorku, glíma við vímuefnavanda og þola opinbera smánun svo nokkur atriði séu upp talin.“

Öfgar segja að þolendur þurfi ekki fleiri ábendingar. Það sem þurfi sé fræðsla, forvarnir og vitundarvakning á öllum skólastigum. Með því að beina spjótum að upprætingu vandans verði hægt að draga úr tíðni ofbeldis og gera gerendum kleift að axla ábyrgð og sýna fram á betrun. 

Aðgerðahópurinn Öfgar.
Aðgerðahópurinn Öfgar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skaðleg orðræða

Varðandi vímuefnanotkun þolenda minna Öfgar á þá aðferð að byrja þolendum ólyfjan, hvort sem áfengi sé við hönd eða ekki. 

Þá sé ofbeldi í nánum samböndum algengara en ofbeldi  af hendi ókunnugra einstaklinga, en í nánum samböndum aukist ofbeldi oft þegar leghafi er barnshafandi. 

Öfgar benda einnig á að þeir sem verði fyrir ofbeldi séu í meiri hættu að leiðast út í vímuefnaneyslu, og vísa því til stuðnings til skýrslu Ingólfs V. Gíslasonar, Ofbeldi í nánum samböndum. 

Skrif Jóns Steinars eru skaðleg að mati Öfga, í ljósi þess að þolendur ofbeldis séu líklegri til að reyna að taka eigið líf. Vísa þær til rannsóknar sem háskólinn í Warwick gerði á yfir 3.500 konum árið 2018. 

Einnig benda þær á rannsóknina „The Cost of Domestic Violence,“ þar sem niðurstöður sýndu fram á að ein af hverjum átta konum, sem hafa látist af völdum sjálfsvígs, voru þolendur heimilisofbeldis. 

40 prósent íslenskra kvenna þolendur ofbeldis

Í rannsókn sem laut að ofbeldi hér á landi, Áfallasaga kvenna, kom fram að 40 prósent kvenna hafi orðið fyrir ofbeldi á lífsleiðinni.

Öfgar spyrja Jón Steinar hvort, með grein sinni, hann vilji meina að allar þær 69 þúsund konur, sem hafa orðið fyrir á ofbeldi, þurfi að passa sig að drekka minna.

„Þú dregur ekki úr tíðni ofbeldis með þolendaskömmun, þú dregur úr tíðni ofbeldis með því að setja ábyrgðina þar sem hún á heima, hjá gerendum.“

mbl.is