Katrín vill ekki hverfa til ársins 2007

Alþingiskosningar 2021 | 1. desember 2021

Katrín vill ekki hverfa til ársins 2007

„Ekki myndi ég vilja skipta á Íslandi dagsins í dag og Íslandi ársins 2007 þegar ég horfi á stjórnkerfi, atvinnulíf og samfélag,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld, þegar hún fjallaði um þær breytingar sem hefðu átt sér stað á íslensku samfélagi sl. 15 ár.

Katrín vill ekki hverfa til ársins 2007

Alþingiskosningar 2021 | 1. desember 2021

Katrín hóf ræðuna á því að segja að ríkisstjórnin hafi …
Katrín hóf ræðuna á því að segja að ríkisstjórnin hafi verið mynduð á breiðum grunni. mbl.is/Árni Sæberg

„Ekki myndi ég vilja skipta á Íslandi dagsins í dag og Íslandi ársins 2007 þegar ég horfi á stjórnkerfi, atvinnulíf og samfélag,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld, þegar hún fjallaði um þær breytingar sem hefðu átt sér stað á íslensku samfélagi sl. 15 ár.

„Ekki myndi ég vilja skipta á Íslandi dagsins í dag og Íslandi ársins 2007 þegar ég horfi á stjórnkerfi, atvinnulíf og samfélag,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld, þegar hún fjallaði um þær breytingar sem hefðu átt sér stað á íslensku samfélagi sl. 15 ár.

Í ræðu sinni vék Katrín að því að það væru forréttindi að starfa í stjórnmálum, en hún hefur nú setið á þingi í tæp 15 ár.

Ánægjulegt að sjá andstæða hópa sameinast um að feta ekki aftur sömu braut

„Á þeim tíma hefur Ísland gengið í gegnum hrun og endurreisn, ólíkar ríkisstjórnir, sveiflur í stjórnmálum fyrir utan ýmis utanaðkomandi áföll, og er þar heimsfaraldurinn nærtækt dæmi. Íslenskt samfélag hefur breyst og þróast á þessum tíma og þó að manni finnist stundum miða hægt er það nú svo að okkur hefur miðað áfram á flestum sviðum eins og nýlegar rannsóknir stjórnmálafræðinga hafa m.a. dregið fram. Ekki myndi ég vilja skipta á Íslandi dagsins í dag og Íslandi ársins 2007, en þá var ég kjörin á þing, þegar ég horfi á stjórnkerfi, atvinnulíf og samfélag. Við gengum í gegnum erfiða tíma eftir hrun, drógum af þeim lærdóm og það urðu raunverulegar breytingar á ýmsum sviðum eins og fram kom í skýrslu þeirri sem ég lagði fyrir Alþingi í fyrra. Mér hefur fundist sérlega ánægjulegt hve ólíkir og jafnvel andstæðir hópar hafa samt náð að sameinast um að feta ekki sömu braut aftur,“ sagði Katrín.

Hún hóf ræðuna á því að segja að ríkisstjórnin hafi verið mynduð á breiðum grunni og hún kveðst sannfærð um, þegar horft er til þeirra verkefna sem bíði hennar, þá sé breidd hennar kostur og geti jafnvel ráðið úrslitum þegar komi að því að skapa samhljóm með þjóðinni þegar leysa þurfi úr stórum og erfiðum verkefnum.

Bjartari framtíðarhorfur en áður

Hún benti á að atvinnuástandið hafi batnað hratt og horfur til framtíðar séu bjartari en áður. „Þótt óvissan um framvindu faraldursins sé áfram talsverð höfum við lært æ betur að umgangast þetta ástand, þökk sé samstöðu þjóðarinnar og skilningi á því markmiði stjórnvalda að takmarka skaðann.“

Katrín segir að ríkisstjórnin muni standa vörð um almannaþjónustuna og leggja áherslu á að skattkerfið fjármagni samneysluna, jafni tekjur í samfélaginu og styðji við markmið stjórnvalda í loftslagsmálum.

Þurfa að vinna gegn því að samninga séu lausir mánuðum saman

Hún segir einnig að ríkisstjórnin leggi áherslu á samráð við aðila vinnumarkaðarins, m.a. á vettvangi þjóðhagsráðs, og muni vinna að því að samspil peningastefnu, ríkisfjármála og ákvarðana á vinnumarkaði stuðli áfram að því að bæta lífskjör. „Við þurfum að vinna gegn því að samningar séu iðulega lausir mánuðum saman og ekki sé sest að samningaborðinu fyrr en samningar losna og bæta þannig vinnubrögð á vinnumarkaði,“ sagði forsætisráðherra.

Katrín fór um víðan völl, en fjallaði einnig um mikilvægi öflugrar heilbrigðisþjónustu sem væri ríkisstjórninni ofarlega í huga eftir undanfarin misseri.

Fagmennska og fumleysi einkennt skipulag bólusetninga

„Marga lærdóma verður hægt að draga af faraldrinum – fagmennska og fumleysi hefur einkennt skipulag bólusetninga hjá heilsugæslu og heilbrigðisstofnunum, upplýsingagjöf landlæknis, sóttvarnalæknis og almannavarna hefur tryggt ábyrga umfjöllun byggða á þekkingu. Raðgreiningar Íslenskrar erfðagreiningar eru mikilvægt framlag til þekkingar heimsbyggðarinnar á útbreiðslu veirunnar. Ég vil, herra forseti, nota þetta tækifæri til að ítreka þakkir mínar til allra þeirra sem hafa staðið í framlínu baráttunnar við veiruna nú í hátt á annað ár.“

Hún tók fram, að jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hefði verið grundvallaratriði í árangri ríkisstjórnarinnar í heimsfaraldri. Ríkisstjórnin muni áfram leggja áherslu á að draga úr kostnaði sjúklinga og styrkja stöðu og hlutverk Landspítalans.

Ríkisstjórnin mun ekki gefa út leyfi til olíuleitar

Katrín vék einnig orðum að loftslagsvánni, sem hún segir að sé stærsta áskorun samtímans. „Ísland á að vera fremst meðal jafningja í loftslagsmálum, standa fast við skuldbindingar okkar gagnvart Parísarsamningnum og gott betur en það. Við eigum að byggja aðgerðir okkar og stefnumótun á vísindalegri þekkingu og félagslegu réttlæti þar sem enginn er skilinn eftir.“

Hún segir að allar aðgerðir stjórnvalda og áætlanir miði að því marki að Ísland verði lágkolefnishagkerfi sem nái kolefnishlutleysi ekki síðar en árið 2040. Ný ríkisstjórn hafi tekið þá ákvörðun að setja sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt í losun á beinni ábyrgð Íslands og skýr, áfangaskipt markmið um samdrátt í losun í einstaka geirum í samstarfi við atvinnulífið, sveitarfélögin og stofnanir samfélagsins. Það eigi ekki að koma neinum á óvart að ríkisstjórnin muni ekki gefa út leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands, enda væri slík vinnsla í hrópandi ósamræmi við stefnu hennar sem hvílir á hreinum og endurnýjanlegum orkugjöfum. Þá verði stofnaður þjóðgarður á friðlýstum svæðum og jöklum á hálendinu í samvinnu við heimamenn og lokið verði við þriðja áfanga rammaáætlunar.

Katrín nefndi einnig að hún hefði skipað aðgerðahóp um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði. Breytingar á vinnutíma vaktavinnufólks hafi verið mikilvægt skref í þá átt að koma til móts við stórar kvennastéttir.

Þá verði baráttan gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni áfram forgangsmál, forvarnaáætlun verði fylgt eftir af krafti og frumvarp til að bæta réttarstöðu brotaþola verði lagt fram aftur. Þá verði unnið að sérstakri aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks.

Taki tíma að breyta stjórnarskránni

Katín vék einnig orðum að breytingum á stjórnarskrá, en hún lagði til fyrir fjórum árum áætlun hvernig vinna mætti að breytingum á stjórnarskránni á tveimur kjörtímabilum.

„Ég mun halda áfram undirbúningsvinnu við breytingar samkvæmt þeirri áætlun sem þá lögð var fram og síðar á kjörtímabilinu mun ég ræða við formenn flokka um það hvort  vilji er til þess að eiga áframhaldandi samráð um tillögur til breytinga. Mín afstaða er hér eftir sem hingað sú að afar mikilvægt sé að Alþingi geri breytingu á stjórnarskránni þannig að ný ákvæði, ekki síst um auðlindir í þjóðareign og umhverfis- og náttúruvernd öðlist gildi.“

Katrín segir að það sé eðlilegt að það taki tíma að breyta stjórnarskránni og þó að hún hefði svo sannarlega viljað að Alþingi hefði komist lengra á síðasta kjörtímabili, þá skiptir mestu máli að við vöndum okkur og náum niðurstöðu sem sátt ríki um.

Forsætisráðherra lauk ræðu sinni á því að segja að það sé skylda allra þingmanna að vinna allt sem þeir geti til að efla og bæta hag almennings.

„Við viljum tryggja jöfnuð og réttindi allra, við sitjum hér á þingi fyrir hönd allra landsmanna. Látum það endurspeglast í störfum okkar á nýju þingi og nýju kjörtímabili.“

mbl.is