Starfsfólk í óvissu vegna uppstokkunar ráðuneyta

Alþingiskosningar 2021 | 2. desember 2021

Starfsfólk í óvissu vegna uppstokkunar ráðuneyta

Óvissa ríkir meðal starfsmanna Stjórnarráðsins vegna uppstokkunar á ráðuneytum sem kynnt var um helgina. Ljóst er að miklar breytingar eru í vændum en þó liggur endanleg útfærsla ráðuneytanna ekki fyrir með tilliti til húsnæðis- og starfsmannamála, með tilheyrandi óþægindum fyrir þá sem það varðar.

Starfsfólk í óvissu vegna uppstokkunar ráðuneyta

Alþingiskosningar 2021 | 2. desember 2021

Breytingarnar sem fylgja uppstokkun ráðuneyta eru nokkuð umfangsmiklar en mikil …
Breytingarnar sem fylgja uppstokkun ráðuneyta eru nokkuð umfangsmiklar en mikil óvissa ríkir um hvernig þeim verður háttað. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Óvissa ríkir meðal starfsmanna Stjórnarráðsins vegna uppstokkunar á ráðuneytum sem kynnt var um helgina. Ljóst er að miklar breytingar eru í vændum en þó liggur endanleg útfærsla ráðuneytanna ekki fyrir með tilliti til húsnæðis- og starfsmannamála, með tilheyrandi óþægindum fyrir þá sem það varðar.

Óvissa ríkir meðal starfsmanna Stjórnarráðsins vegna uppstokkunar á ráðuneytum sem kynnt var um helgina. Ljóst er að miklar breytingar eru í vændum en þó liggur endanleg útfærsla ráðuneytanna ekki fyrir með tilliti til húsnæðis- og starfsmannamála, með tilheyrandi óþægindum fyrir þá sem það varðar.

„Eins og staðan er núna vitum við eiginlega bara ekki neitt,“ segir Þórveig Þormóðsdóttir, formaður Félags starfsmanna Stjórnarráðsins, spurð út í þá stöðu er félagsmenn standa frammi fyrir.

Þórveig segir félagsmenn ekki hafa fengið neinar upplýsingar um uppstokkunina fyrir fram en tilkynning um breytt fyrirkomulag barst fyrst um hádegi á sunnudag, sem er um það leyti er stjórnarsáttmálinn var kynntur.

Engin svör við fyrirspurnum

„Við vitum ekkert hvernig þessu verður stillt upp eða hversu margir verða að vinna í hvaða ráðuneyti. [...] Fyrirspurnirnar sem við höfum sent koma til baka: „Við vitum það ekki.“ Það er bara svoleiðis. Við verðum bara að vera þolinmóð á meðan,“ segir Þórveig og bætir við að líklega berist svör ekki fyrr en eftir áramót.

En veit fólk hvert það er að fara?

„Auðvitað vita það sumir, þar sem heilu fagskrifstofurnar flytjast milli ráðuneyta eða fara í ný ráðuneyti. En síðan er hluti af okkar félagsmönnum sem eru í stoðþjónustuskrifstofum sem vita ekki hvernig þetta fer því það eru ekki komnar neinar upplýsingar um mönnun í nýjum ráðuneytum.“

Hún kveðst þó ekki eiga von á því að starfsgildum fækki, frekar að þeim fjölgi ef eitthvað er og óttast því ekki margir um starf sitt. Hins vegar eru enn margar spurningar ósvaraðar.

Óska eftir upplýsingum um framkvæmdina

Friðrik Jónsson, formaður Bandalag íslenskra háskólamanna (BHM), sem Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins (FHSS) heyrir undir, segir heldur engar upplýsingar hafa borist félagsmönnum um uppstokkun ráðuneyta fyrir fram.

Friðrik hefur nú sent tölvupóst á forsætisráðherra þar sem hann leggur áherslu á mikilvægi þess að breytingarnar fram undan verði gerðar í sem breiðastri sátt, samráði og samstarfi við starfsfólk ráðuneyta og stofnana til að tryggja samfellu í starfi og draga úr óöryggi og óvissu.

Enda séu breytingarnar sem boðaðar eru á skipulagi Stjórnarráðsins svo umfangsmiklar að þær eigi sér vart fordæmi.

Óskar hann einnig eftir því að BHM verði upplýst um með hvaða hætti stjórnvöld hafa hugsað sér framkvæmd þessara breytinga og hvaða samráð hefur verið undirbúið eða áætlað af þeirra hálfu við stéttarfélög starfsmanna.

mbl.is