Lítið megi út af bregða í litlu samfélagi

Kórónuveiran Covid-19 | 7. desember 2021

Lítið megi út af bregða í litlu samfélagi

Íbúar á Patreksfirði hafa verið hvattir til þess að taka því rólega út vikuna á meðan reynt er að ná tökum á hópsmiti sem kom upp í sveitarfélaginu fyrir viku. Þetta segir Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, í samtali við mbl.is.

Lítið megi út af bregða í litlu samfélagi

Kórónuveiran Covid-19 | 7. desember 2021

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Ljósmynd/Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Íbúar á Patreksfirði hafa verið hvattir til þess að taka því rólega út vikuna á meðan reynt er að ná tökum á hópsmiti sem kom upp í sveitarfélaginu fyrir viku. Þetta segir Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, í samtali við mbl.is.

Íbúar á Patreksfirði hafa verið hvattir til þess að taka því rólega út vikuna á meðan reynt er að ná tökum á hópsmiti sem kom upp í sveitarfélaginu fyrir viku. Þetta segir Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, í samtali við mbl.is.

„Þótt staðan sé þokkaleg þá má ekki mikið út af bregða.“

Heilbrigðisþjónusta skert verulega á meðan

Þegar mest lét hafi 26 íbúar verið í einangrun vegna veirunnar en nú séu þeir 17 talsins, þar af einn starfsmaður Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, að sögn Rebekku.

Þegar upp komst um smit starfsmannsins hafi allir aðrir starfsmenn stofnunarinnar og skjólstæðingar á legudeildum hennar verið skimaðir og þrettán starfsmenn sendir í sóttkví.

„Stofnunin var því sett á óvissustig út miðvikudaginn næsta og þjónusta hennar skert verulega þangað til,“ segir Rebekka.

Á vef HVEST segir að vakthafandi læknir muni meta hvaða skjólstæðinga þarf að hitta en viðtöl sem ekki eru brýn kunni að verða felld niður. Þá falli ungbarnavernd, mæðravernd, blóðprufur og sjúkraþjálfun niður nema í bráðatilvikum. Þá er búið að manna legudeildina næstu daga með fólki sem ekki var útsett fyrir smiti og banna heimsóknir á legudeildina þar til annað hefur verið ákveðið.

Að sögn Gylfa Ólafssonar, forstjóra HVEST, hafa engin fleiri smit greinst inni á stofnuninni og fjöldi í sóttkví þar af leiðandi óbreyttur síðan í gær.

„Svo lýkur fimm daga sóttkví þessara þrettán starfsmanna með sýnatöku á morgun og þá sjáum við betur hvernig staðan er,“ segir hann.

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar.
Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar. mbl.is/Sigurður Bogi

Bjartsýn á að íbúar geti notið jólanna saman

Aðspurð segir Rebekka bæði börn og fullorðna hafa greinst smituð á Patreksfirði undanfarna daga og það hafi óneitanlega mikil áhrif á lítið samfélag.

„Þótt við höfum náð að halda t.d. skólunum opnum síðustu daga þá erum við enn á varðbergi gagnvart veirunni.“

Hún segist þó bjartsýn á að tök náist á hópsmitinu fyrir jólin sem nálgast nú óðfluga, innt eftir því.

„Það er alveg ofboðslega öflugt og flott fólk í samfélaginu okkar, sem hefur staðið sig mjög vel í gegnum allan faraldurinn. Þannig að ég hef ekki trú á öðru en við komumst í gegnum þetta eftir þessa viku og getum notið jólanna saman.“

mbl.is