Heillaðist af Leipzig og sér ekki eftir valinu

Borgin mín | 18. desember 2021

Heillaðist af Leipzig og sér ekki eftir valinu

Harpa Ósk Bjarnadóttir sópransöngkona nemur söng við við tónlistarháskólann í Leipzig. Borgin, sem var hluti af gamla Austur-Þýskalandi, á sér langa menningarsögu en tónskáldið Johann Sebastian Bach bjó þar og ásamt öðrum stórum nöfnum í tónlistarsögunni. Í dag er borgin vinsæl námsmannaborg og segir Harpa yndislegt að vera í Leipzig og nágrenni á aðventunni. 

Heillaðist af Leipzig og sér ekki eftir valinu

Borgin mín | 18. desember 2021

Harpa Ósk Bjarnadóttir stundar söngnám í Leipzig.
Harpa Ósk Bjarnadóttir stundar söngnám í Leipzig.

Harpa Ósk Bjarnadóttir sópransöngkona nemur söng við við tónlistarháskólann í Leipzig. Borgin, sem var hluti af gamla Austur-Þýskalandi, á sér langa menningarsögu en tónskáldið Johann Sebastian Bach bjó þar og ásamt öðrum stórum nöfnum í tónlistarsögunni. Í dag er borgin vinsæl námsmannaborg og segir Harpa yndislegt að vera í Leipzig og nágrenni á aðventunni. 

Harpa Ósk Bjarnadóttir sópransöngkona nemur söng við við tónlistarháskólann í Leipzig. Borgin, sem var hluti af gamla Austur-Þýskalandi, á sér langa menningarsögu en tónskáldið Johann Sebastian Bach bjó þar og ásamt öðrum stórum nöfnum í tónlistarsögunni. Í dag er borgin vinsæl námsmannaborg og segir Harpa yndislegt að vera í Leipzig og nágrenni á aðventunni. 

Þegar kom að því að velja skóla heimsótti Harpa nokkra skóla í Austurríki, Bretlandi og Þýskalandi. „Í heimsókninni í Leipzig heillaðist ég af borginni og kennaranum mínum og sé alls ekki eftir valinu í dag,“ segir Harpa og segir að mjög góður hópur af öðrum Íslendingum hafi tekið á móti henni þegar hún flutti til Leipzig árið 2019. 

Margir klassískir söngvarar halda til Þýskalands en Harpa segir að hlutfallslega séu mjög mörg tækifæri í boði fyrir þá í Þýskalandi í samanburði við önnur lönd. „Þýskaland er smá suðupottur fyrir klassíska söngvara frá öllum löndum heimsins því atvinnutækifærin eru mun fleiri en gengur og gerist annars staðar og því mjög sniðugt að koma hingað að læra og ná tökum á tungumálinu í leiðinni. Ég var ekki nógu sniðug og lærði frönsku í menntaskóla og því var fyrsta árið mitt hérna afskaplega erfitt þar sem þess er krafist af nemendum að vera altalandi á þýsku og mjög sjaldan í boði að tala ensku við kennara og starfsfólk, en í staðinn var ég mun fljótari að ná tökum á tungumálinu,“ segir Harpa. 

Harpa er sópransöngkona.
Harpa er sópransöngkona.

„Leipzig er algjör lista- og sögustaður og fræg fyrir ýmislegt en þar má meðal annars nefna að Bach bjó og starfaði þar stóran hluta ævi sinnar, ásamt mörgum öðrum kanónum tónlistar- og bókmenntasögunnar. Borgin var stærsta borgin á eftir austurhluta Berlínar í Austur-Þýskalandi og í dag er hún mjög aðlaðandi fyrir ungt námsfólk og listafólk því það er tiltölulega ódýrt að búa hér í samanburði við aðrar þýskar borgir og því oft mikið um að vera. Hún er falleg og afslöppuð borg í miklum vexti og þróun eftir fall múrsins, en þó vissulega með sterk austurþýsk einkenni. Borgin er mjög græn og hér eru svakalega margir almenningsgarðar og ekki þétt byggð eins og á oft við í öðrum borgum hér í Þýskalandi.“

Harpa ber Þjóðverjum söguna vel en segist enn vera að venjast ýmsum þýskum siðum á borð við það að þéra kennara og eldra fólk. „Ég á stundum svolítið erfitt með að finna hvar ég dreg línuna á milli „du“ og „sie“. Svo hef ég heyrt að Þjóðverjar í austurhluta landsins séu að einhverju leyti ólíkir öðrum Þjóðverjum, til dæmis þegar kemur að notkun greiðslukorta og samfélagsmiðla. Ég þurfti að læra að nota reiðufé upp á nýtt þegar ég flutti hingað en þetta hefur breyst mjög hratt í kórónuveirufaraldrinum. Hér er líka stundvísi í hávegum höfð og var það mikið lærdómsferli hjá mér að læra loksins að mæta á réttum tíma, það var ekki alveg sami sveigjanleiki í boði og ég hafði komist upp með á Íslandi.“

Á fallegum vetrar degi í janúar. Þarna má sjá Fockeberg …
Á fallegum vetrar degi í janúar. Þarna má sjá Fockeberg hæð sem er önnur af tveimur hæðum í Leipzig sem annars er marflöt. Báðar hæðirnar eru manngerðar. Fockeberg er gerð að mestu úr húsarústum og rusli frá seinni heimstyrjöld en hin hæðin er gamall ruslahaugur.

Hvernig er aðventan í Leipzig og nágrenni? 

„Aðventan er alveg dásamleg í Leipzig og þegar ég var nýflutt í borgina kom það mér rosalega á óvart hversu mikið var lagt í jólaskreytingar og jólamarkaðina í borginni. Þar er mikilvægast að fá sér Glühwein á jólamörkuðunum, hlusta á tónlistarhópa spila fallega jólatónlist og skella sér svo á Jólaóratóríuna í Tómasarkirkjunni. Ekkert af þessu hefur verið í boði í Leipzig síðustu tvenn jól vegna Covid en þegar foreldrar mínir komu í heimsókn um síðustu helgi fór ég bara með þau í messu í Tómasarkirkju og svo til Halle, sem er í 15 mínútna fjarlægð frá Leipzig, á jólamarkað, en Halle er ekki í sama sambandsríki og Leipzig og því gilda ekki sömu samkomutakmarkanir þar.“

Jólamarkaðir í Þýskalandi eru skemmtilegir.
Jólamarkaðir í Þýskalandi eru skemmtilegir.

Áttu þér upp­á­haldsveit­ingastað?

„Ég verð að viðurkenna að ég er ennþá að leita að mínum uppáhaldsstað en þó nokkrir koma vel til greina og þeir væru örugglega fleiri ef það hefði ekki verið heimsfaraldur viðvarandi mestan hluta tímans sem ég hef búið hér. Skemmtilegustu staðirnir sem ég borða á hér eru svona „delí/bodega“-veitingastaðir sem er gaman að hittast á á sumrin í vínglas og með því, og oft skipta vínin meira máli en maturinn. Einn af þessum stöðum er til dæmis Roseling á Karl-Liebknecht-Straße. Mér finnst alltaf fyndið að fara með gesti á Auerbachs Keller í Mädler Passage, það er gamall bjórkjallari sem Göthe heimsótti reglulega á sínum tíma og fræg sena í Faust gerist einmitt í þessum bjórkjallara. Maturinn er ekki upp á marga fiska fyrir grænkera en stemningin mjög áhugaverð og hægt að fá algjörlega týpíska saxneska rétti og Leipzig-bjórinn Gose á krana.“

Hvað er ómissandi að sjá og gera?

„Mér finnst mjög mikilvægt að geta skilið almennilega hvers vegna Leipzig er eins og hún er í dag, og hvað hefur gengið hér á síðustu hundruð ára. Því myndi ég alltaf ráðleggja fólki að fara á sem flest söfn, til dæmis Stasí-safnið „Runde Ecke“, byggðasafnið í Altes Rathaus eða Zeittgeschichtliches Forum til að kynna sér betur DDR-tímabilið og það sem gekk á fram að því. Ég fer alltaf beinustu leið með gesti í Tómasarkirkjuna því ég bý mjög nálægt henni og hún er ein merkilegasta bygging Leipzigborgar, og það er eiginlega stórfurðulegt að hún hafi ekki verið jöfnuð við jörðu í seinni heimsstyrjöldinni. Ég myndi líka alltaf hvetja fólk til þess að reyna að fara á sem flesta tónleika og viðburði, til dæmis í Gewandhaus og óperunni eða hlusta á Bach í Tómasarkirkju. Hér er líka svakalega öflugt knattspyrnulið, Red Bull Leipzig, og algjör stemning að skella sér á leik í þýsku deildinni eða meistaradeildinni þegar það er í boði.“

Það er gaman að njóta í garðinum.
Það er gaman að njóta í garðinum.

Hvernig er draumadagurinn í Leipzig?

„Það fer svolítið eftir því hver er með mér. Ef ég er með fólk í heimsókn reyni ég að sýna eitthvað af því fallega sem borgin hefur upp á að bjóða. Þá myndi sá leiðangur vera auðvitað á hjóli, með lautaferðarstoppi í Clara Zetkin-garðinum. Svo myndum við leigja kanó og sigla niður kanalinn yfir í Plagwitz-hverfið þar sem við myndum fá okkur eitthvað svakalega gott að borða á Karl-Heine-Straße og skoða það fallega hverfi. Ef veðrið er gott gætum við hjólað niður að vatninu Cospudener See og þar er hægt að fara á strönd við vatnið eða setjast niður í bjór í bjórgarði, fara á flóamarkað í Connewitz, ég er bara með valkvíða. Það eina sem er víst er að við myndum enda daginn á tónleikum með Gewandhausorchester eða á óperusýningu í Oper Leipzig.“

Í þjóðgarðinum Sächsische Schweiz í Sachen. Þjóðgarðurinn liggur við landamæri …
Í þjóðgarðinum Sächsische Schweiz í Sachen. Þjóðgarðurinn liggur við landamæri Tékklands og Þýskalands.

Hefurðu nýtt tímann og ferðast eitthvað um Þýskaland?

„Já eins mikið og hægt er á tímum Covid! Þegar ég flutti hingað í lok árs 2019 hafði ég séð fyrir mér að fara aðra hverja helgi með lest hingað og þangað að heimsækja vini sem eru að læra í nágrannalöndum Þýskalands en þau plön breyttust auðvitað þegar óþarfa ferðalög voru bönnuð í apríl í fyrra. Ég hef samt verið alveg ágætlega dugleg að gera gott úr hlutunum til dæmis þegar tækifæri gefast á milli bylgna. Ég hef skotist tvisvar yfir til Kölnar að heimsækja vinkonu mína sem er í námi þar og skoða jólamarkaðina frægu þar, og hitti í bæði skiptin aðra Íslendinga sem voru að syngja við óperuna.

Ég hef líka verið dugleg að nýta mér bæði lestakerfið hér og svona Airbnb-þjónustu fyrir bíla þar sem fólk leigir út bílinn sinn í nokkra klukkutíma í senn fyrir lítinn pening og þá hef ég náð að skoða Sachsen á annan hátt. Þar er til dæmis afskaplega fallegur þjóðgarður sem heitir Sächsische Schweiz og þar er gaman að fara í styttri og lengri göngur og skoða afskaplega skrítnu sandsteinsfjöllin sem eru mjög undarleg í útliti. Leipzig er ekki langt frá ánni Saale, en það er mjög gaman að taka hjólið með í lest og hjóla á milli vínekra sem liggja meðfram ánni. Ég hef farið þangað bæði í haust og fyrrahaust með Gulla kærasta mínum sem býr með mér hérna úti,“ segir Harpa.

Harpa býr með Gulla kærasta sínum í Leipzig.
Harpa býr með Gulla kærasta sínum í Leipzig.
mbl.is