Óróapúls mældist og keimlík staða og fyrir gosið

Eldvirkni á Reykjanesskaga | 25. desember 2021

Óróapúls mældist og keimlík staða og fyrir gosið

Óróapúls mældist við Fagradalsfjall upp úr klukkan 10 í morgun og fylgdi þar með í kjölfarið á skjálfta upp á 4,2 sem hafði mælst fyrr um morguninn. Er óróapúlsinn talinn til marks um áhlaup kviku undir yfirborðinu sem ekki hafi þó náð alla leið upp á yfirborðið.

Óróapúls mældist og keimlík staða og fyrir gosið

Eldvirkni á Reykjanesskaga | 25. desember 2021

Óróapúlsinn mældist við Syðri-Merardali. Ekki hefur sést kvika í nokkurn …
Óróapúlsinn mældist við Syðri-Merardali. Ekki hefur sést kvika í nokkurn tíma frá gosstöðinni, en möguleiki er að gos taki sig upp að nýju miðað við síðustu virkni að sögn sérfræðings á náttúruvársviði. mbl.is/Sigurður Bogi

Óróapúls mældist við Fagradalsfjall upp úr klukkan 10 í morgun og fylgdi þar með í kjölfarið á skjálfta upp á 4,2 sem hafði mælst fyrr um morguninn. Er óróapúlsinn talinn til marks um áhlaup kviku undir yfirborðinu sem ekki hafi þó náð alla leið upp á yfirborðið.

Óróapúls mældist við Fagradalsfjall upp úr klukkan 10 í morgun og fylgdi þar með í kjölfarið á skjálfta upp á 4,2 sem hafði mælst fyrr um morguninn. Er óróapúlsinn talinn til marks um áhlaup kviku undir yfirborðinu sem ekki hafi þó náð alla leið upp á yfirborðið.

Í mars mældist einnig óróapúls á svæðinu og byrjaði að gjósa í Geldingadölum tveimur vikum síðar og nokkrum óróapúlsum. Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, sérfræðingur á náttúruvársviði Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að jarðskjálftavirknin og óróapúlsinn séu keimlík í hegðun og varðandi staðsetningu og var áður en byrjaði að gjósa í mars.

„Til marks um áhlaup kviku undir yfirborðið“

Jarðskjálftavirknin á svæðinu hefur verið nokkuð þétt frá því á miðvikudaginn. Um klukkan hálfátta í morgun reið svo yfir skjálfti upp á 4,2 við Fagradalsfjall og um þrettán mínútum síðar varð annar skjálfti upp á 3,3 sem mældist austan við Kleifarvatn. Salomé segir mat Veðurstofunnar að sá síðari hafi verið gikkskjálfti í kjölfarið á breyttu spennuástandi á Reykjanesskaga og sem afleiðing af fyrri skjálfta.

Eftir skjálftana í morgun var nokkuð rólegt fram til tæplega 10, en þá byrjaði óróapúlsinn. „Er það til marks um áhlaup kviku undir yfirborði,“ segir Salóme. „Hún náði ekki upp á yfirborðið – annars væri komið gos,“ bætir hún við. Hins vegar sé ljóst að kvikan hafi rutt sér smá undir yfirborðinu, en erfitt sé að segja til um hvort það hafi verið lóðrétt eða lárétt hreyfing.

Styður þá ályktun að atburðarásin nú sé svipuð

Sem fyrr segir mældist óróapúls um tveimur vikum fyrir gosið í mars og svo komu nokkrir slíkir fram að gosinu. „Þetta virkar keimlíkt og styður þá ályktun að atburðarásin nú sé svipuð,“ segir Salóme. Hún tekur þó fram að erfitt sé að segja til um hversu líklegt eða ólíklegt nýtt gos sé. „Það kæmi ekki á óvart ef það færi að gjósa, en þetta þarf þó ekki að enda með gosi.“

Þá segir Salóme jafnframt að erfitt sé að spá um mögulegan tímaramma. „En við höfum sagt frá því á miðvikudaginn að atburðarásin gæti verið hraðari því það er þegar búið að brjóta upp hluta og kvikan gæti átt auðveldara með að komast upp.“ Sem fyrr ítrekar Salóme að það sé alltaf með þeim varnagla að erfitt sé að spá og reyndin gæti líka verið að ekki gjósi eða fyrirvarinn verði lengri núna.

Óróapúlsinn var í Syðri-Meradölum

Staðsetning jarðskjálftanna og óróapúlsins segir Salóme að sé svo gott sem á sama stað og gaus fyrr á árinu. Óróapúlsinn hafi verið í Syðri-Meradölum, sem sé einmitt þar sem hraunbreiða sé núna, austan megin við Gónhól. Hefur skjálftavirknin í morgun einnig verið þar.

Spurð hvort það gefi eitthvað í skyn með mögulegt eldgos aftur þar segir Salóme að það gefi til kynna að virknin sé á nákvæmlega sama stað og áður og því væri svipaður staður líklegastur ef aftur kæmi til goss.

Megi búast við skjálftum áfram

Íbúar Grindavíkur hafa síðustu daga þurft að búa við tíða jarðskjálfta og segir Salomé að þeir þurfi að búa sig undir að skjálftarnir muni halda áfram í einhvern tíma, allavega fram að gosi ef af því verður. Bendir hún á að svæðið hafi síðan í desember 2019 verið mjög virkt, bæði með innskoti við Þorbjörn og Eldvörp og svo eldgosasvæðinu. „Það er greinilega komið í svona fasa að þarna séu kvikuinnskot.“

mbl.is