„Ekki gefa hundum afganga“

Krúttleg dýr | 30. desember 2021

„Ekki gefa hundum afganga“

Á tyllidögum er súkkulaði gjarnan á boðstólum og þykir sumum það ómissandi hluti af hátíðarhöldum. Þótt enginn hafi gott af of miklu súkkulaðiáti er stundum sagt að allt sé gott í hófi. Það sama gildir þó ekki um ferfætta félaga okkar sem geta hreinlega drepist komist þeir óvart í konfektkassann.

„Ekki gefa hundum afganga“

Krúttleg dýr | 30. desember 2021

Matur sem gjarnan er á boðstólum yfir hátíðirnar getur verið …
Matur sem gjarnan er á boðstólum yfir hátíðirnar getur verið hættulegur hundum. AFP

Á tyllidögum er súkkulaði gjarnan á boðstólum og þykir sumum það ómissandi hluti af hátíðarhöldum. Þótt enginn hafi gott af of miklu súkkulaðiáti er stundum sagt að allt sé gott í hófi. Það sama gildir þó ekki um ferfætta félaga okkar sem geta hreinlega drepist komist þeir óvart í konfektkassann.

Á tyllidögum er súkkulaði gjarnan á boðstólum og þykir sumum það ómissandi hluti af hátíðarhöldum. Þótt enginn hafi gott af of miklu súkkulaðiáti er stundum sagt að allt sé gott í hófi. Það sama gildir þó ekki um ferfætta félaga okkar sem geta hreinlega drepist komist þeir óvart í konfektkassann.

„Súkkulaði er stórhættulegt fyrir hunda enda myndar það eiturviðbrögð í líkama þeirra,“ segir Kristín Sigmarsdóttir, framkvæmdastjóri og hundaþjálfari hjá Gæludýraklíníkinni, í samtali við mbl.is.

Getur valdið miklum veikindum og jafnvel dauða

Innt eftir því segir hún starfsmenn Gæludýraklíníkurinnar daglega fá til sín hunda sem grunaðir eru um að hafa gleypt eitthvað mishættulegt. Sé talið að þeir hafi gleypt eitthvað sem skaðað geti meltingarveginn, t.d. eitthvað oddhvasst, séu hundarnir skornir upp strax.

Þegar nær dregur hátíðunum sé þó algengara að komið sé með hunda á Gæludýraklíníkina sem komist hafa í súkkulaði sem legið hefur á glámbekk. Þegar það gerist skipti þó ekki síður máli að bregðast hratt og vel við, að sögn Kristínar.

„Hundar geta nefnilega orðið mjög ruglaðir, fárveikir og hreinlega bara drepist við það að borða súkkulaði. Þar sem það er kakóbaunin sjálf sem er eitruð fyrir hunda gefum við þeim uppsölulyf til að framkalla uppköst og reyna að koma í veg fyrir að eitrunaráhrifin fari út í blóðstreymið. Því aftar sem súkkulaðið fer í þarmana því verra.“

Éti hundur of mikið súkkulaði geti hann farið að sýna einkenni eins og uppköst, niðurgang, öran hjartslátt, aukna þvaglosun, vöðvalömun og eirðarlesi. Sé um að ræða mjög slæma eitrun geti súkkulaðiátið haft í för með sér öndunarörðugleika, hjartastopp og jafnvel dregið hundinn til dauða.

Best er að geyma konfektið þar sem hvutti kemst ekki …
Best er að geyma konfektið þar sem hvutti kemst ekki í það. Kristinn Magnússon

Ýmislegt annað en konfektið sem ber að varast

Kristín segir konfektið þó ekki það eina sem beri að varast heldur þurfi einnig að passa að hundar komist ekki í jólabaksturinn enda komi súkkulaði oftar en ekki við sögu þar líka.

„Það er mismikið kakó í súkkulaði en fólk er oft að baka úr 80% súkkulaði, sem er stórhættulegt fyrir hunda. Þeim mun dekkra sem súkkulaðið er því verra er það fyrir hundana.“

Þá sé einnig vitað að lakkrís og saltaður og reyktur matur á borð við hangikjöt og hamborgarhrygg geti farið afar illa í hunda, að sögn Kristínar.

„Við ráðleggjum fólki bara að vera ekkert að gefa hundum afganga um jólin. Það er þumalputtareglan,“ segir hún.

Leiki grunur á um að hundur hafi étið eitthvað sem gæti reynst honum skaðlegt skuli eigendur þeirra tafarlaust leita aðstoðar dýralæknis.

„Ef þetta gerist yfir hátíðirnar, á meðan dýraspítalarnir eru lokaðir, er hægt að hringja í vakthafandi dýralækni Matvælastofnunar og þá er betra að hringja strax svo hægt sé að framkalla uppköst sem fyrst.“ 

Upplýsingar um hvaða sjálfstætt starfandi dýralæknir er á bakvakt hverju sinni má finna á vef Matvælastofnunar.

mbl.is