Sjáum skagann lifna við í fyrsta sinn

Eldgos í Geldingadölum | 30. desember 2021

Sjáum skagann lifna við í fyrsta sinn

Liðið ár hefur reynst gjöfult fyrir rannsóknir á sviði jarð- og náttúruvísinda. Atburðir á borð við jökulhlaup, jarðskjálfta og landris hafa ekki verið af skornum skammti og því af nógu að fylgjast með, skrásetja og draga lærdóm af.

Sjáum skagann lifna við í fyrsta sinn

Eldgos í Geldingadölum | 30. desember 2021

Reykjanesskaginn lifnaði við eftir 800 ár í dvala. Er nú …
Reykjanesskaginn lifnaði við eftir 800 ár í dvala. Er nú áhugavert að sjá hvað gerist á næstu dögum og hvort eldgos hefjist þar á ný. mbl.is/Árni Sæberg

Liðið ár hefur reynst gjöfult fyrir rannsóknir á sviði jarð- og náttúruvísinda. Atburðir á borð við jökulhlaup, jarðskjálfta og landris hafa ekki verið af skornum skammti og því af nógu að fylgjast með, skrásetja og draga lærdóm af.

Liðið ár hefur reynst gjöfult fyrir rannsóknir á sviði jarð- og náttúruvísinda. Atburðir á borð við jökulhlaup, jarðskjálfta og landris hafa ekki verið af skornum skammti og því af nógu að fylgjast með, skrásetja og draga lærdóm af.

Þá hefur gríðarlegt magn af nýrri vitneskju um virkni eldgosa og eldstöðva safnast í sarpinn og er spennandi að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér, segir Páll Einarsson, jarðeðlis­fræðing­ur og pró­fess­or em­er­ít­us, í samtali við mbl.is.

„Þetta er búið að vera mjög lærdómsríkt og það sem gerir þetta svona sérstakt er hvað þetta er vel aðgengilegt og atburðirnir hafa verið – þrátt fyrir allt – mjög hófstilltir. Þetta eldgos og þessir jarðskjálftar hafa allir verið innan hóflegra marka þannig að tjón hefur verið mjög lítið og þetta hefur verið inni í miðju mælakerfi.“

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emerítus.
Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emerítus. mbl.is/Sigurður Bogi

Gott aðgengi lykilatriði

Að sögn Páls hafa vísindamenn ekki alltaf verið jafn heppnir og nú enda hafi atburðir oft og tíðum átt sér stað í óbyggðum sem erfitt er að nálgast.

Það hafi hins vegar ekki verið tilfellið núna þar sem aðgengið hafi verið tiltölulega þægilegt og að auðvelt hafi verið taka þær mælingar sem nauðsynlegar voru.

„Efnafræðingar og eðlisfræðingar, þeir setja upp tilraunir inn á vinnustofu og stýra því hvenær tilraunir fara fram og gera sínar mælingar. En í náttúruvísindunum verðum við oft að láta náttúruna sjá um að gera tilraunirnar. Þannig að við fylgjumst bara með og gerum okkar mælingar og athuganir, og drögum þekkinguna út úr því. Þetta eru öðruvísi vísindi en þessi dæmigerðu tilraunavísindi.“

Gríðarleg vitneskja um eldgosavirkni

Páll segir gríðarlega vitneskju hafa orðið til um eldgosavirkni á liðnu ári sem er afar þýðingarmikið fyrir náttúruvísindin.

„Við höfum séð í fyrsta skipti af alvöru Reykjanesskagann lifna við. Við höfum svo sem vitað lengi að þetta væri eldgosasvæði en það hefur ekki komið svona atburðarás sennilega í 800 ár.“

Aðspurður segir hann þó erfitt að segja til um framhaldið með vissu enda búum við ekki yfir þeirri tæknigetu að geta spáð fyrir um framtíðina. „En við getum fylgst með og greint það sem er í gangi.“

Hann ítrekar þó að þeir atburðir sem eiga sér nú stað séu bara einn kafli í langri sögu. Þó virknin sem hefur verið sjáanleg síðustu daga lognist út af þýðir það ekki að sagan sé búin.

„Þetta byrjaði með skjálftahrinu í desember árið 2019 fyrir tveimur árum síðan. Þessi atburðarás er miklu meira en bara þetta eldgos.“

Askja sýnir nýja og óþekkta hlið

Það voru þó ekki einungis eldsumbrotin á Reykjanesskaganum sem hafa vakið athygli jarðvísindamanna á árinu. Sem dæmi nefnir Páll landrisið við Öskju, hlaupið úr Grímsvötnum, aukna þenslu í Heklu og jarðskjálfta í Bárðarbungu.

„Við erum enn að læra hluti í sambandi við Bárðarbungu. Bárðarbunga gekk í gegnum mikla atburði árið 2014 og 2015 og þar er atburðarás enn í gangi sem er mjög lærdómsrík – ekki bara fyrir okkur hér heldur fyrir jarðfræði alla í heiminum. Þetta orðið eitt best þekkta dæmið um hvernig askja hagar sér í eldfjalli,“ segir Páll og bætir við að jarðskjálftinn sem mældist þar í gær sé enn eitt dæmið um þá atburðarás sem sé í gangi.

„Svo hefur Askja í Dyngjufjöllum verið að síga síðustu 30 árin jafnt og þétt, ár eftir ár. En þetta snerist við núna í ágúst á árinu og byrjaði að þenjast út. Þannig að núna er í gangi hægt landris í Öskju sem er merki um vaxandi þrýsting undir eldstöðinni. Askja er að sýna nýja hlið sem við höfum aldrei haft tækifæri til að sjá áður.“

Að sögn Páls sitja nú íslenskir jafnt sem erlendir vísindamenn sem fastast við skrifborð sitt og rita niður þær uppgötvanir sem hafa orðið á liðnu ári.

„Það eru margar greinar í smíðum sem eiga eftir að koma út í vísindatímaritum. Það er svona mælikvarðinn á hversu lærdómsríkt þetta er.“

mbl.is