„Þetta er áfall fyrir aðstandendur líka“

MeT­oo - #Ég líka | 7. janúar 2022

„Þetta er áfall fyrir aðstandendur líka“

Edda Falak, eigandi og þáttastjórnandi hlaðvarpsins Eigin konur, segir viðtalið sem hún tók við Vítalíu Lazarevu ekki hafa verið ætlað til þess að taka menn niður. „Þetta snerist frekar um að opna á viðbjóðinn sem hún upplifði.“

„Þetta er áfall fyrir aðstandendur líka“

MeT­oo - #Ég líka | 7. janúar 2022

Edda Falak er eigandi og þáttastjórnandi hlaðvarpsins Eigin konur.
Edda Falak er eigandi og þáttastjórnandi hlaðvarpsins Eigin konur. Ljósmynd/Eigin konur

Edda Falak, eigandi og þáttastjórnandi hlaðvarpsins Eigin konur, segir viðtalið sem hún tók við Vítalíu Lazarevu ekki hafa verið ætlað til þess að taka menn niður. „Þetta snerist frekar um að opna á viðbjóðinn sem hún upplifði.“

Edda Falak, eigandi og þáttastjórnandi hlaðvarpsins Eigin konur, segir viðtalið sem hún tók við Vítalíu Lazarevu ekki hafa verið ætlað til þess að taka menn niður. „Þetta snerist frekar um að opna á viðbjóðinn sem hún upplifði.“

Sakar hóp þjóðþekktra manna um kynferðisbrot

Í viðtalinu umrædda, sem birt var á bæði Youtube og Spotify á þriðjudaginn síðastliðinn, lýsti hin 24 ára gamla Vítalía því hvernig hópur manna hefði brotið kynferðislega á henni í heitum potti við sumarbústað í október 2020.

Á þeim tíma var hún í ástarsambandi með 48 ára gömlum kvæntum manni og eru mennirnir sem hún sakar um að hafa brotið á sér í umræddri sumarbústaðarferð vinir hans. Þá lýsir hún því einnig hvernig annar vinur hans hafi brotið á henni í golfferð sem hún hafði farið í með ástmanni sínum.

Þótt Vítalía hafi hvorki nafngreint þáverandi ástmann sinn né mennina sem hún sakar um að hafa brotið á sér í viðtalinu hjá Eddu Falak hafði hún nafngreint þá opinberlega á samfélagsmiðlinum Instagram í október síðastliðnum.

Þar á meðal nafngreindi hún þáverandi ástmann sinn, Arnar Grant, einkaþjálfara í World Class og annan mannanna á bak við próteindrykkina Hámark og Teyg. Auk Arnars nafngreindi hún þrjá vel þekkta menn úr viðskiptalífinu sem voru með henni og Arnari í sumarbústaðarferðinni, þá Ara Edwald, Þórð Má Jóhannesson og Hreggvið Jónsson. 

Vítalía hefur svo deilt skjáskotum af samskiptum við manninn sem hún segir hafa brotið á sér í golfferðinni umræddu en það er fjölmiðlamaðurinn Logi Bergmann.

Reyndi að vekja athygli fjölmiðla á málinu

Innt eftir því segist Edda hafa reynt að vekja athygli fjölmiðla á málinu þegar Vítalía nafngreindi mennina á samfélagsmiðlum en það hafi ekki borið árangur.

„Ég sendi þetta á einhverja blaðamenn til að athuga hvort einhver ætlaði að fjalla um þetta en fékk engin svör.“

Rétt er þó að nefna að mbl.is. hefur ítrekað reynt að ná á Vítalíu vegna málsins síðan hún nafngreindi mennina sem um ræðir á samfélagsmiðlum sínum fyrir jól.

Vítalía hafi þó sjálf ákveðið að leita til Eddu vegna málsins fyrir nokkrum vikum.

„Hún spyr mig hvort þetta sé ekki eitthvað sem þurfi að vekja athygli á og við ákváðum bara að gera það,“ segir Edda.

Samkvæmt skriflegu svari frá Vítalíu við fyrirspurnum mbl.is er hún með lögfræðing í málinu. Hún hefur þó enn ekki greint frá því hver hann er. Það að mennirnir voru ekki nafngreindir í viðtalinu í Eigin konum var ekki ákveðið í samráði við lögfræðing Vítalíu, segir Edda innt eftir því.

„Við vorum í raun bara að vekja athygli á hennar sögu og nafngreinum engan. Við vildum bara vekja athygli á þessari atburðarás.“

Bjuggust ekki við svona miklum viðbrögðum

Edda segir viðbrögðin við viðtalinu hafa verið misjöfn en heilt yfir hafi þau verið góð.

„Ég held að fólk sé bara svolítið í sjokki. Svo verður maður líka að hafa í huga að þetta er ákveðið áfall fyrir aðstandendur líka. Það eru fleiri sem eru þolendur í þessu máli, en bara á annan hátt.“

Síðan viðtalið kom út hafa allir helstu fjölmiðlar landsins fjallað um málið og mennirnir sem bendlaðir eru við það ýmist óskað eftir því eða verið sendir í leyfi frá störfum sínum eða stigið algerlega til hliðar vegna ásakananna. Aðspurð segist Edda ekki hafa búist við svona miklum viðbrögðum við málinu.

„Ég held að við höfum ekki verið að búast við svona mikilli sprengju því Vítalía var búin að vekja athygli á þessu áður. Svo snerist þetta heldur ekki um að taka einhverja menn niður. Þetta snerist frekar um að opna á viðbjóðinn sem hún upplifði og það sem kom fyrir hana. Síðan nafngreina menn sig bara sjálfir ef þeir tengja við söguna.“

Þá segist Edda afar ánægð með Vítalíu og ákvörðun hennar um að koma málinu fram í dagsljósið.

„Það krefst mikils hugrekkis að opna sig svona. Svo kom hún svo vel fyrir í viðtalinu og kom málinu vel frá sér. Ég gæti ekki verið stoltari af henni.“

mbl.is