„Hvað ef við hefðum ekkert gert?“

Kórónuveiran Covid-19 | 18. janúar 2022

„Hvað ef við hefðum ekkert gert?“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir enn þörf á samkomutakmörkunum í samfélaginu þó svo að jákvæð teikn séu á lofti um að Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar valdi minni veikindum. Álagið á Landspítala og heilbrigðiskerfið er enn mjög mikið en það er ábyrgðarhluti stjórnvalda að tryggja það að Íslendingar hljóti viðunandi heilbrigðisþjónustu.

„Hvað ef við hefðum ekkert gert?“

Kórónuveiran Covid-19 | 18. janúar 2022

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir enn þörf á samkomutakmörkunum í samfélaginu þó svo að jákvæð teikn séu á lofti um að Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar valdi minni veikindum. Álagið á Landspítala og heilbrigðiskerfið er enn mjög mikið en það er ábyrgðarhluti stjórnvalda að tryggja það að Íslendingar hljóti viðunandi heilbrigðisþjónustu.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir enn þörf á samkomutakmörkunum í samfélaginu þó svo að jákvæð teikn séu á lofti um að Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar valdi minni veikindum. Álagið á Landspítala og heilbrigðiskerfið er enn mjög mikið en það er ábyrgðarhluti stjórnvalda að tryggja það að Íslendingar hljóti viðunandi heilbrigðisþjónustu.

„Við auðvitað erum búin að taka stefnubreytandi ákvörðun eftir að bólusetningar náðu þessu marki. Við stefnum ekki lengur að því að bæla niður smitin heldur erum við fyrst og fremst að horfa á hvernig við getum temprað fjöldann þannig að við séum ekki að kaffæra heilbrigðiskerfinu okkar. Það er sú stefna sem við höfum fylgt frá því í haust. Við teljum okkar aðgerðir vera innan þeirrar stefnu,“ segir Katrín.

Hún bindur þó vonir við að raunverulegar breytingar á eðli faraldursins muni eiga sér stað og að hættan af honum fari nú minnkandi. Myndi það hafa mikil áhrif á ráðstafanir stjórnvalda. Segir hún jafnframt jákvæð teikn á lofti um að Ómíkron-afbrigðið valdi vægari veikindum enda sé innlagnartíðni að lækka og innlagnartími að styttast.

„Það breytir því ekki að álagið á spítala er ennþá mjög mikið. Líka vegna þess fjölda sem er þar í einangrun og sóttkví, eðlilega. Þetta er svo dreift um samfélagið þannig að það hefur áhrif á starfsemi spítalans. Þannig ég myndi segja að við erum enn á þeim stað að það sé þörf á ráðstöfunum.“

Vona að aðgerðirnar beri árangur

Nú virðist fjöldi smita ekki fara lækkandi þrátt fyrir miklar samkomutakmarkanir. Það velta því eflaust margir fyrir sér hvers vegna við séum yfirhöfuð að standa í þessum sóttvarnaaðgerðum. Hvað hefur þú að segja við því?

„Við stöndum frammi fyrir því að svara: Hvað ef við hefðum ekkert gert? Hvar værum við stödd þá? Það er auðvitað mikill ábyrgðarhluti fyrir stjórnvöld á hverjum tíma að tryggja þannig aðstæður að við getum öll sótt viðunandi heilbrigðisþjónustu. Við hertum aðgerðir síðasta föstudag og við vonum að það hafi þau áhrif að fækka smitum.“

Ekki tími sem kemur aftur

Spurð hvort henni þyki raunhæft að ná fjölda smita í samfélaginu niður á meðan að skólahaldi er haldið úti, segir Katrín þetta hafa verið mikið til umræðu.

„Við horfum náttúrulega líka á aðra þætti í þessu, ekki eingöngu fjölda smita. Eins og ég hef sagt, það er gríðarlega mikilvægt fyrir börn að njóta menntunar. Það er ekki tími sem kemur aftur í þeirra líf og eins þessi mikilvæga rútína í lífi barna.

Þó það sé að sjálfsögðu misbrestur í því að það sé hægt að halda úti skólahaldi vegna fjölda smita þá erum við samt að horfa á það að það er venjan að halda úti skólahaldi og það er mjög mikilvægt mál fyrir hvert og eitt barn.“

Stöðugt samtal við atvinnulífið

Spurð hvort að kallað hafi verið eftir samráðsvettvangi með stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins varðandi efnahagsmál og faraldurinn, segir Katrín stöðugt samtal vera þar á milli.

Hafi þá til að mynda frumvarp um styrki til veitingageirans, sem áætlað er að muni nema ríflega milljarði króna, verið til umræðu á ríkisstjórnarfundi í morgun.

„Við áttum fund með aðilum vinnumarkaðar nú fyrr í janúar og ég hef átt fundi með sérstaklega þeim sem eru í veitingageiranum. Það sem við vorum að afgreiða hér í dag er frumvarp sem er ætlað að koma sérstaklega til móts við veitingageirann vegna þeirra áhrifa sem að faraldurinn og ráðstafanir hafa haft á þessa aðila,“ segir Katrín.

„Síðan vorum við að afgreiða sérstakan fjárstuðning til menningarinnar, þá aðallega tónlistar og sviðslista sem hafa auðvitað sömuleiðis orðið fyrir miklum áhrifum, bæði af faraldrinum og af ráðstöfunum vegna faraldurs.“

mbl.is