Ævintýrin oft nær en fólk áttar sig á

Fjallganga | 29. janúar 2022

Ævintýrin oft nær en fólk áttar sig á

Dóru Magnúsdóttur, fræðslustjóra og leiðsögukonu, líður best á fjöllum og ákvað að plata unglingana sína með sér upp í dalinn milli jóla og nýárs.

Ævintýrin oft nær en fólk áttar sig á

Fjallganga | 29. janúar 2022

Greinarhöfundur ásamt fjölskyldu sinni.
Greinarhöfundur ásamt fjölskyldu sinni. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir

Dóru Magnúsdóttur, fræðslustjóra og leiðsögukonu, líður best á fjöllum og ákvað að plata unglingana sína með sér upp í dalinn milli jóla og nýárs.

Dóru Magnúsdóttur, fræðslustjóra og leiðsögukonu, líður best á fjöllum og ákvað að plata unglingana sína með sér upp í dalinn milli jóla og nýárs.

„Þau eru reyndar ekkert alltof hrifin af fjallgöngum og hefðu alveg eins kosið að liggja í tölvuleikjum og leti allan daginn þannig að ég lagði á það ríka áherslu að þetta væri ekki fjallganga, heldur dalganga og þá hljómaði þetta mun betur í þeirra eyrum,“ segir Dóra sem hefur sett saman góðar upplýsingar um þessa skemmtilegu dalagöngu: 

Ein af þekktari stuttum gönguleiðum landsins, í nálægð við höfuðborgarsvæðið er leiðin frá Hveragerði upp í Reykjadal. Vinsældir leiðarinnar helgast eflaust af því að gangan upp í dalinn er fremur stutt, um það bil 1,5 klst gangur (aðra leiðina) og göngustígurinn aflíðandi, vel merktur og  því útilokað að villast. Þessi gönguleið er þannig léttari og aðgengileg fleirum en sú gönguleið sem líklega er allra vinsælust á SV horni landsins, sem er leiðin upp að Steini á Esjunni. En þó eru vinsældir hennar mestar vegna rúsínunnar í pylsuendanum sem bíður göngufólks eftir trítlið upp fjallið, sem eru hinar þekktu náttúrulaugar.

Á köldum heiðskýrum vetrardegi er fegurð litanna algert augnakonfekt.
Á köldum heiðskýrum vetrardegi er fegurð litanna algert augnakonfekt. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir

Þar sem fólk fer upp í dalinn í þeim tilgangi að baða sig í náttúrunni er algengast að gengið sé frá vori til hausts. Alla vega er leiðin töluvert fáfarnari yfir háveturinn. Fegurðin á að vetri til á gönguleiðinni upp í Reykjadal er þó síst minni, ef valinn er  heiður og bjartur dagur.

Gönguleiðin upp í Reykjadalinn liggur í vesturhlíðum Dalafells norðan af Hveragerði og er gengið til móts við Hengil, sem liggur NV af Ölkelduhálsi en þar eru litríkustu hverirnir og baðsvæðið skammt frá. Jarðhiti í Reykjadal er í rótum útkulnaðrar eldstöðvar sem var virk fyrir um 120.000 árum í rekbelti sem er  á svipuðum slóðum og Hengill er. Eldstöðina hefur smám saman rekið til austurs frá miðju rekbeltisins og var síðar sorfin niður af jöklum ísaldar. Eldstöðinni fylgir sprungu- og eldstöðvakerfi sem nær frá Selvogi austan við Grindavík, norðaustur um Hengilssvæðið um Nesjavelli til Þingvalla. Jarðhiti á þessu svæði einkennist af leirugum vatnshverum og kolsýruhverum en víða eru merki um aukna virkni í seinni tíð. 

Jarðhiti í Reykjadla liggur í rótum útkulnaðrar eldstöðvar. Heitt vatn …
Jarðhiti í Reykjadla liggur í rótum útkulnaðrar eldstöðvar. Heitt vatn úr fjölmörgum hverum á svæðinu renna í kalda ánna sem gera hana passlega til baðferða. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir

Við fjölskyldan lögðum af stað einn bjartan og góðan veðurdag milli jóla og nýárs þegar veröldin var öll frosin í pastellitum, appelsínugul, hvít og blá. Eftir að gangan hófst var svo sem ekki eins og krakkarnir hefðu haft neitt fyrir henni. Það er nauðsynlegt að labba í góðum marglaga hlífðarfatnaði yfir vetrartímann og bráðnauðsynlegt að vera með þokkalega göngubrodda. Oft duga hefðbundnir borgarbroddar en aðstæður geta fljótt breyst þannig að öflugari broddar, svokallaðir „Esjubroddar“ henti betur. Sömuleiðis er gott að vera með göngustafi á vetrargöngum til að auka stöðugleikann í snjó og hálku. Alla vega öfunduðum við ekki þá útlendinga sem við hittum fyrir og höfðu ekki fengið minnismiðann um brodda. 

Leiðin upp dalinn er ótrúlega falleg en gott að hafa …
Leiðin upp dalinn er ótrúlega falleg en gott að hafa í huga að velja rétta daga með tilliti til veðurs. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir

Loks var komið var á áfangastað, Reykjadalinn með sínum heita leik og fjölmörgu hverum. Aðstaðan er ágæt miðað við staðsetninguna upp á miðju fjalli. Hægt er að fara í sundföt á trépalli og hengja upp fötin sín áður en vaðið er út í heitan lækinn til að finna rétta staðinn til að leggjast og láta heitt vatnið leika um sig. Þessar mínútur, eftir að komið er í sundfötin og vaðið er út í laugina áður en lagst er ofan í eru vissulega krefjandi í brunagaddi en svo sannarlega þess virði. Þetta minnir alveg á það þegar manni er kalt í sundi og fer í heitan pott, en samt einhvern veginn sinnum hundrað, svona út í náttúrunni eftir gönguna upp fjallið. Bara miklu meira „kikk“. Margir ferðalangar taka með sér veitingar og veigar og hafa það kósí í heita vatninu og að það myndist oft skemmtileg stemning meðal Íslendinga og erlendra ferðamanna sem sameinast þarna í læknum.

Leiðin upp í Reykjadal býður upp á skemmtilega og passlega …
Leiðin upp í Reykjadal býður upp á skemmtilega og passlega langa göngu. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir


Þó að við hefðum tekið það skýrt fram við unglingana okkar að þetta væri dalganga þá fullyrtu þau eftir á að þetta hefði verið með skemmtilegri fjallgöngum sem þau hefðu farið með okkur. Ég mæli heilshugar með vetrargöngu upp í Reykjardal með börn og unglinga. Ævintýrin séu oft nær en maður átti sig á.

Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir
Reykjadalur er vinsæl gönguleið meðal erlendra ferðamanna og skyldi engan …
Reykjadalur er vinsæl gönguleið meðal erlendra ferðamanna og skyldi engan undra. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir
mbl.is