Ítrekar kröfu um að bankar styðji við heimilin

Alþingi | 3. mars 2022

Ítrekar kröfu um að bankar styðji við heimilin

Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra segist ekki ein og óstudd hafa sett fram hugmyndir sínar og brýningu til viðskiptabankanna um að hækka ekki vexti sína í samræmi við nýjustu stýrivaxtahækkun heldur sé flokkurinn hennar, Framsóknarflokkurinn, á bak við orðræðuna.

Ítrekar kröfu um að bankar styðji við heimilin

Alþingi | 3. mars 2022

Lilja Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.
Lilja Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra segist ekki ein og óstudd hafa sett fram hugmyndir sínar og brýningu til viðskiptabankanna um að hækka ekki vexti sína í samræmi við nýjustu stýrivaxtahækkun heldur sé flokkurinn hennar, Framsóknarflokkurinn, á bak við orðræðuna.

Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra segist ekki ein og óstudd hafa sett fram hugmyndir sínar og brýningu til viðskiptabankanna um að hækka ekki vexti sína í samræmi við nýjustu stýrivaxtahækkun heldur sé flokkurinn hennar, Framsóknarflokkurinn, á bak við orðræðuna.

Hún segir í færslu á Facebook-síðu sinni að áhugavert hafi verið fyrir hana að fylgjast með hugmyndum sínum ræddar í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi, þegar líflegar umræður og mikil frammíköll brutust fram, svo mjög að Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, mátti berja fast í bjölluna. 

„Ég mun ekki, nú sem endranær, veigra mér við að taka slagi sem ég tel til hagsbóta fyrir samfélagið,“ skrifar hún í færslunni og segir að þó að það kunni vel að vera að það sé ekki vinsælt hjá sumum í stjórnarandstöðunni, sé það aukaatriði fyrir henni. 

Hún segir í færslunni sanngjarnt og eðlilegt að bankarnir taki frumkvæði í að dreifa birgðum hækkandi stýrivaxta. „Það er sanngjarnt og eðlilegt að bankarnir, fremur en ríkið, geri það, enda þekkja þeir viðskiptavini sína best,“ skrifar hún. 

Horfir til Thatcher

Bendir hún á að hagnaður bankanna á síðasta ári hafi verið 90 milljarðar króna. „Fyrirséð var að 0,75% stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands kæmi sér vel fyrir efnahagsreikning bankanna. Með þetta í huga horfði ég meðal annars til hvalrekaskatts Margrétar Thatcher, fyrrum forsætisráðherra Bretlands og formanns breska Íhaldsflokksins, sem hún lagði á þarlenda banka vegna ofurhagnaðar þeirra sem tilkominn var vegna stýrivaxtahækanna.“ 

Mikla athygli vakti þegar Lilja beindi orðum sínum til viðskiptabankanna og minnist í því sambandi á að hækka mætti bankaskatt, færu bankarnir fram úr sér. Hún veltir því upp hvort að orðræða stjórnmálamanns sem þessi hafi áhrif. 

„Í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar formanns Framsóknar í þinginu í dag, kom réttilega fram að bankarnir hafa ekki hækkað vexti á lánum í samræmi við 0,75% stýrivaxtahækkun Seðlabankans eða eins og hann sagði; „Viðskiptaráðherra hvatti bankana til að skila hluta af þessum fjármunum til viðskiptavinanna. Og hvað gerðist? Og ef þeir myndu ekki gera það væri þingið með tæki. Það væri hægt að leggja á bankaskatt að nýju og hækka skatta, arðgreiðslur eða eitthvað slíkt.““

mbl.is