Vilja draga úr þörf fyrir orku frá Rússum

Úkraína | 3. mars 2022

Vilja draga úr þörf fyrir orku frá Rússum

Alþjóðlega orkustofnunin (IEA) í París setti í dag fram áætlun í tíu liðum um hvernig hægt væri að gera Evrópu minna háða Rússum í orkumálum. Í áætluninni er gert ráð fyrir að hægt sé að minnka þörfina um þriðjung á næsta ári.

Vilja draga úr þörf fyrir orku frá Rússum

Úkraína | 3. mars 2022

Frá höfuðstsöðvum rússneska orkurisans Rosneft í Moskvu.
Frá höfuðstsöðvum rússneska orkurisans Rosneft í Moskvu. AFP

Alþjóðlega orkustofnunin (IEA) í París setti í dag fram áætlun í tíu liðum um hvernig hægt væri að gera Evrópu minna háða Rússum í orkumálum. Í áætluninni er gert ráð fyrir að hægt sé að minnka þörfina um þriðjung á næsta ári.

Alþjóðlega orkustofnunin (IEA) í París setti í dag fram áætlun í tíu liðum um hvernig hægt væri að gera Evrópu minna háða Rússum í orkumálum. Í áætluninni er gert ráð fyrir að hægt sé að minnka þörfina um þriðjung á næsta ári.

Innrás Rússa í Úkraínu hefur beint kastljósinu að því hversu háð Evrópa er Rússum í orkumálum. Rússar sáu Evrópu fyrir 140 milljörðum kúbikmetra af olíu og 15 milljörðum kúbikmetra af jarðgasi, sem er 45% af heildarþörf álfunnar.

Alþjóða orkustofnunin lagði til að ekki yrði skrifað undir neina nýja orkusamninga við Rússa, heldur leita annarra leiða í orkumálum, hvort sem það væri sólarorka, vindorka eða kjarnorka.

Nota aðstöðu sína sem vopn

„Það er deginum ljósara að Rússar nota aðstöðu sína á orkumarkaðnum sem bæði efnahagslegt og stjórnmálalegt vopn og Evrópa þarf að bregðast hratt við óvissunni um orkukaup frá Rússlandi næsta vetur,“ sagði Fatih Birol, framkvæmdastjóri stofnunarinnar í dag.

Tillögur Alþjóða orkustofnunarinnar um að reyna að sniðganga innflutning frá Rússum er mikil áskorun fyrir Evrópu og búist er við að Rússar leggi mikla áherslu á orkusölu til álfunnar, til að halda efnahag sínum eins stöðugum og hægt er í ljósi efnahagsrefsinga umheimsins.

Evrópusambandið er með gasleiðslur til Noregs, Alsírs og Aserbaídsjan, en þau lönd hafa takmarkaða getu til að auka framleiðsluna. Hægt er að flytja inn jarðgas með skipum, frá t.d. Katar, Ástralíu og Bandaríkjunum, en vankantarnir á því er takmörkuð vinnslugeta hafna og olíuhreinsistöðva í Evrópu.

Olíuverð hefur hækkað mikið frá því innrásinni í Úkraínu.
Olíuverð hefur hækkað mikið frá því innrásinni í Úkraínu. AFP

Í samræmi við yfirlýsta stefnu

Alþjóðlega orkustofnunin sagði að áætlunin í dag væri í samræmi við yfirlýsta stefnu um að ná markmiðinu um nánast enga kolefnislosun árið 2050, en þar hafi m.a. einnig verið gert ráð fyrir að hætt væri alveg við orkukaup frá Rússum árið 2030.

„Í húfi er bæði þörfin að flýta fyrir öllum aðgerðum í baráttunni við loftlagsvána og eins skammtímamarkmiðið að tryggja orkuþörf Evrópu hér og nú,“ sagði Barbara Pompili, umhverfisráðherra Frakka, og bætti við að áætlun Alþjóða orkustofnunarinnar væri hvetjandi fyrir nýjar lausnir.

Búist er við áætlun frá framkvæmdasstjórn Evrópusambandsins um leiðir til að lágmarka orkuþörf Evrópu frá Rússlandi strax í næstu viku.

Ónægja með viðbrögð Samtaka olíuflutningslanda

Fatih Birol, framkvæmdastjóri Alþjóða orkustofnunarinnar, lýsti yfir vonbrigðum sínum með ákvörðun stærstu kaupendanna innan Samtaka olíuflutningslanda (OPEC) í dag um að halda óbreyttum kaupum á orku frá Rússlandi þrátt fyrir innrásina í Úkraínu. Olíuverð hefur hækkað mikið vegna óöryggis á markaðnum. Hann bætti þó við að „til séu nægar varabirgðir og hægt að skoða aðra möguleika,“ og tilkynnti síðasta þriðjudag að stofnunin myndi losa um 60 milljón olíutunnur úr varaforða til þess að reyna að gera markaðinn stöðugri.

Meiri hraði, minni umhverfisvernd

Alþjóða orkustofnunin hefur einnig sett fram áætlun ef þörf verður á að minnka orkukaup frá Rússum enn hraðar, en það myndi ekki vera í takt við umhverfisstefnu Evrópusambandsins. Þar er gert ráð fyrir að orkustöðvar verði knúnar með kolum og olía notuð í orkustöðvum sem núna eru knúnar með gasi. Þessi leið myndi minnka kaup á orku frá Rússum um meira en helming.

Ljóst er að það er mikil áskorun fyrir Evrópu að minnka þörf sína fyrir orku frá Rússlandi og það mun krefjast samstillts átaks og hafa víðtæk áhrif á álfuna.

mbl.is