Spyr spurninga um líkgeymslur

Alþingi | 4. mars 2022

Spyr spurninga um líkgeymslur

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, hefur lagt fram skriflegar fyrirspurnir til heilbrigðisráðherra, dómsmálaráðherra og innviðaráðherra um líkgeymslur.

Spyr spurninga um líkgeymslur

Alþingi | 4. mars 2022

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Arnþór Birkisson

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, hefur lagt fram skriflegar fyrirspurnir til heilbrigðisráðherra, dómsmálaráðherra og innviðaráðherra um líkgeymslur.

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, hefur lagt fram skriflegar fyrirspurnir til heilbrigðisráðherra, dómsmálaráðherra og innviðaráðherra um líkgeymslur.

Hún spyr innviðaráðherra hvaða sveitarfélög eigi líkgeymslur og hver sé rekstraraðili þess húsnæðis. Dómsmálaráðherra er spurður hvar líkgeymslur á vegum sóknarnefnda og kirkjugarða séu staðsettar og hver sé rekstraraðili þeirra. Þá er heilbrigðisráðherra spurður á hvaða heilbrigðisstofnunum og hjúkrunarheimilum séu líkgeymslur og hver reki það húsnæði.

Virðist vera óskýrt í lögum

Líneik segir að umræða hafi kviknað um hver eigi að reka líkhúsin; heilbrigðiskerfið, kirkjugarðarnir eða sveitarfélög. Við fyrstu sýn virðist enginn eiga að annast þetta samkvæmt lögum. Útfararstofur annast þessa þjónustu á höfuðborgarsvæðinu en hvergi úti á landi, að sögn Líneikur. Aðstöðu til líkgeymslu hefur verið komið upp sums staðar úti á landi, stundum í tengslum við hjúkrunarheimili eða heilbrigðisstofnanir eða jafnvel í húsnæði sveitarfélaga eða félagasamtaka.

Þingsályktunartillaga komin

Líneik kveðst vera meðflutningsmaður að þingsályktunartillögu Jódísar Skúladóttur, alþingismanns VG, um skipan starfshóps um umönnun og geymslu líka. Tillagan gengur út á að Alþingi feli dómsmálaráðherra „að skipa starfshóp um úttekt á aðstöðu til umönnunar og geymslu líka, aðgengi að líkhúsum eða viðeigandi húsnæði, regluverki þar að lútandi og mögulegum úrbótum á núverandi lagaumhverfi“. Starfshópurinn skili skýrslu fyrir 1. maí 2022. Í greinargerð kemur fram að ekki sé skýrt í lögum hver skuli tryggja geymslu líka.

Kostnaður við líkflutninga

„Þetta getur orðið vandamál ef t.d. heilbrigðisstofnanir telja það ekki vera í sínum verkahring að reka líkhús. Það virðist ekki vera skýrt í lögum hver ber ábyrgð á því að líkgeymsla sé í sveitarfélagi eða á tilteknu svæði,“ segir Líneik. Hún segir þessi mál hafa borið á góma í samtölum við sveitarstjórnarfólk í hennar kjördæmi. Einnig hefur fólk nefnt kostnaðinn við líkflutning ef einstaklingur utan af landi deyr t.d. á heilbrigðisstofnun á höfuðborgarsvæðinu og er jarðaður í heimabyggð. Sama gildir um flutningskostnað líks utan af landi ef óskað er eftir bálför en eina bálstofa landsins er í Reykjavík. Þessi flutningskostnaður er nú hluti af útfararkostnaði og lendir oft á ættingjum, að minnsta kosti að hluta.

mbl.is