Veikari vistkerfi og veðursveiflur meiri

Loftslagsvá | 15. mars 2022

Veikari vistkerfi og veðursveiflur meiri

„Í loftslagsmálum er þróunin hröð og heimurinn breytist hratt, eins og við þurfum að búa okkur undir,“ segir Anna Hulda Ólafsdóttir, yfirmaður skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands.

Veikari vistkerfi og veðursveiflur meiri

Loftslagsvá | 15. mars 2022

Anna Hulda Ólafsdóttir.
Anna Hulda Ólafsdóttir. mbl.is/Sigurður Bogi

„Í loftslagsmálum er þróunin hröð og heimurinn breytist hratt, eins og við þurfum að búa okkur undir,“ segir Anna Hulda Ólafsdóttir, yfirmaður skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands.

„Í loftslagsmálum er þróunin hröð og heimurinn breytist hratt, eins og við þurfum að búa okkur undir,“ segir Anna Hulda Ólafsdóttir, yfirmaður skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands.

Sú skrifstofa var sett á laggirnar á síðasta ári og hefur meðal annars það hlutverk að fylgjast með þróun og stilla saman strengi þess vísindafólks sem fylgist með hlýnun andrúmsloftsins og afleiðingum þess. Sinnir einnig verkefnum á sviði aðlögunar, teiknar upp sviðsmyndir af loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra auk þess að vakta afleiðingar.

Til viðbótar framangreindu sinna skrifstofan og starfsfólk hennar miðlun um áhrif loftslagsbreytinga til hagsmunaaðila og almennings. Sinna sömuleiðis samstarfi við alþjóðastofnanir svo sem við milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, IPCC, sem á dögunum sendi frá sér ítarlega skýrslu um afleiðingar breytinga á loftslagi fyrir náttúru og samfélög og hvaða aðlögun dugi.

Hlýnun veldur keðjuverkandi áhættu

Hættur á náttúruvá af völdum loftslagsbreytinga verða æ meiri og sveiflur í veðurfari meiri. Þetta er ein af helstu niðurstöðum skýrslunnar þar sem segir að með hlýnun myndist keðjuverkandi áhætta. Þetta kallar á að horfa þarf á sama tíma til loftslags, vistkerfa og manngerðra tenginga þar á milli. Loftslagsvá getur valdið víðtækum breytingum og tjóni við strendur, í þéttbýli og upp til fjalla. Svo viðhalda megi loftslagsþoli vistkerfa og líffræðilegum fjölbreytileika, þurfa 30% til 50% lands, ferskvatns og hafsvæða á jörðinni, þar á meðal vistkerfi, að haldast lítt röskuð.

„Mér finnst sláandi eins og fram kemur í skýrslunni, að um það bil helmingur mannkyns býr við aðstæður sem eru mjög viðkvæmar gagnvart loftslagsbreytingum,“ segir Anna Hulda. Hér eru undir svæði í Afríku, suðurhluta Asíu, víða í Rómönsku-Ameríu, á Kyrrahafseyjum og norðurslóðum.

Breytingar þessar, sem gjarnan eru kallaðar hamfarahlýnun, snerta einnig fjölda dýrategunda. Undir einhverjum kringumstæðum hafa jafnvel átt sér stað óafturkræfar breytingar á náttúru. Þarna má tiltaka breytingar á vatnafari vegna hops jökla og á vistkerfum til fjalla og á norðurskauti vegna þiðnunar sífrera.

Veldur fátækt og fléttast inn í stjórnmálin

„Hlýnun mun í auknum mæli veikja virkni innan vistkerfa, svo sem frjóvgun og samsetningu jarðefna. Sömuleiðis auka ágengni frá skaðvöldum og sjúkdómum og minnka lífmassa sjávardýra, sem mun grafa undan fæðuöflun á landi. Einnig í hafinu sem súrnar vegna upptöku koltvísýrings úr andrúmslofti. Slíkt leiðir af sér að minna verður af uppleystum kalksamböndum,“ segir Anna Hulda og heldur áfram:

„Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna spá því að fólksflutningar verði meiri með tíðari flóðum, hitabeltisstormum, þurrkum og vegna hækkandi sjávarstöðu. Svo er líka þekkt á öllum tímum að náttúran hefur áhrif á félagslega þætti sem geta valið átökum. Bág skilyrði til að draga fram lífið geta leitt til fátækar og þar með átaka sem aftur fléttast inn í stjórn- og efnahagsmál. Samhengi mála hér er stórt og flókið.“

Efla vöktun með hættu á náttúruvá

Á Íslandi hafa verið umhleypingar í veðri að undanförnu. Slíkt er raunar algengt í upphafi hvers árs, en 137 viðvaranir sem Veðurstofan sendi frá sér í febrúarmánuði er þó óneitanlega nokkuð há tala. Röskun á samgöngum og daglegu lífi hafa verið algengar að undanförnu. Anna Hulda segir að vissulega sé tilvikum þar sem ofsaveður gengur yfir landið að fjölga.

Óvarlegt sé þó að setja einstaka atburði á líðandi stundu hér innanlands í slíkt samhengi, til þess sé þekkingin ekki næg. Allar sviðsmyndir geri hins vegar ráð fyrir fjölgun tilvika þar sem veðráttan er öfgakennd, ef svo mætti segja. Undir slíkt flokkist þá afleiddir atburðir, svo sem sjávarflóð og skriðuföll, samanber að úrkomumagn eykst með hækkun sjávarborðs.

Vegna stöðu Íslands gefast hér dýrmæt tækifæri til loftslagsrannsókna; vísindastarfs með niðurstöðum sem nýst geta á heimsvísu. Í því sambandi minnir Anna Hulda á að víða hér á landi séu þessi mál í deiglu, svo sem í háskólasamfélaginu og hjá vísindastofnunum.

„Nú þurfum við að efla vöktun með hættu á náttúruvá, greina áhættuna betur og gera áætlanir um aðlögun á einstaka sviðum, allt í réttri forgangsröð. Út frá þeim niðurstöðum má svo fara í aðgerðir, með möguleikum í boði náttúrunnar sem eru margir og ónýttir. Slíkt er þá ekki bara til að draga úr loftslagsáhrifum heldur líka til að bæta kjör og lífsviðurværi. Bændaskógrækt sem víða er stunduð er gott dæmi um þetta.“

Tækifæri tapist ekki

Á heimsvísu er rauði þráðurinn í aðgerðum í loftslagsmálum sá að halda hlýnun í nálægri framtíð undir 1,5°gráðum. Hvort slíkt tekst er þó undirorpið því að hratt verði dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda. Efling vistvænna samgangna, minni matarsóun og minni kjötneysla og almennt breytt lífsmynstur eru dæmi um þætti sem telja.

„Aðgerðir sem sporna gegn hlýnun andrúmsloftsins, með þekktum afleiðingum þess, ganga ekki upp nema þá aðeins að allir séu saman í liði; stjórnvöld, almenningur og atvinnulíf. Stefnan sem fylgt er þarf líka að byggjast á jafnræði, réttlæti og því að draga úr áhættu. Beinar aðgerðir þurfa að vera minni útblástur og aðlögun svo skaðinn af völdum loftslagsbreytinga, sem búast má við, verði takmarkaðri. Tefjist slíkt að ráði getur það þýtt að tækifæri til að skapa lífvænlegri og sjálfbæra framtíð tapast,“ segir Anna Hulda.

mbl.is