Söguleg stefnubreyting dregin til baka

Úkraína | 26. mars 2022

Söguleg stefnubreyting dregin til baka

Joe Biden Bandaríkjaforseti flutti ávarp frammi fyrir fjölda manna í Varsjá fyrir stundu. Ummæli hans undir lok ræðunnar höfðu vakið mjög mikla athygli og þóttu gefa til kynna stóra og sögulega stefnubreytingu.

Söguleg stefnubreyting dregin til baka

Úkraína | 26. mars 2022

Joe Biden Bandaríkjaforseti flutti ávarp í Varsjá í kvöld.
Joe Biden Bandaríkjaforseti flutti ávarp í Varsjá í kvöld. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti flutti ávarp frammi fyrir fjölda manna í Varsjá fyrir stundu. Ummæli hans undir lok ræðunnar höfðu vakið mjög mikla athygli og þóttu gefa til kynna stóra og sögulega stefnubreytingu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti flutti ávarp frammi fyrir fjölda manna í Varsjá fyrir stundu. Ummæli hans undir lok ræðunnar höfðu vakið mjög mikla athygli og þóttu gefa til kynna stóra og sögulega stefnubreytingu.

Sagði hann þar að Vladimír Pútín Rússlandsforseti gæti ekki verið áfram við völd í Kreml.

Innan Hvíta hússins varð að líkindum mikið fjaðrafok eftir ummælin, enda hafa stjórnvöld bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi lagt sig í líma við að gefa ekki í skyn að þau vilji annan mann í brúnni í Moskvu, jafnvel þó Biden sjálfur hafi til að mynda kallað hann stríðsglæpamann.

Embættismaður frá Hvíta húsinu var fljótur að stíga fram eftir að ræðunni lauk. Fullyrti sá að forsetinn hefði ekki raunverulega átt við það að Pútín væri ekki lengur vært á valdastóli.

„Meining forsetans var sú að Pútín getur ekki verið leyft að beita valdi sínu gagnvart nágrönnum sínum eða á svæðinu,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir embættismanninum.

„Hann var ekki að tala um völd Pútíns í Rússlandi, eða stjórnarskipti.“

Langvinn barátta

Biden flutti ræðuna fyrir utan konunglega kastalann í Varsjá nú í kvöld að staðartíma, en hann kom til Póllands í gær frá Brussel eftir fund með leiðtogum ríkja Atlantshafsbandalagsins á fimmtudag.

Forsetinn sagði andspyrnu Úkraínumanna gegn rússneska innrásarliðinu vera hluta af enn stærri og viðameiri baráttu fyrir frelsi í heiminum. Heimsbyggðin ætti að búa sig undir langvinna baráttu.

Einræðisherra, sem hefur einsett sér að endurreisa heimsveldi, mun aldrei …
Einræðisherra, sem hefur einsett sér að endurreisa heimsveldi, mun aldrei útmá ást fólks á frelsinu, sagði forsetinn. AFP

„Þetta verður ekki auðvelt“

„Við verðum að skuldbinda okkur núna, til að vera í þessum slag til lengri tíma. Við verðum að standa sameinuð í dag, á morgun og daginn þar á eftir. Og um ókomin ár og áratugi,“ sagði forsetinn ákveðinn.

„Þetta verður ekki auðvelt. Þetta mun kosta. En það er gjald sem við verðum að inna af hendi, því að myrkrið sem knýr áfram alræði er á endanum máttlaust gagnvart frelsisloganum, sem lýsir upp sálir frjálsra manna hvarvetna.“

Sagan sýni að upp úr myrkustu augnablikunum rísi mestu framfarirnar.

Horft yfir borgina Lvív eftir loftárásir í dag.
Horft yfir borgina Lvív eftir loftárásir í dag. AFP

Minnumst hamarshöggsins

„Og sagan sýnir að þetta er verkefni okkar tíma. Verkefni þessarar kynslóðar. Minnumst hamarshöggsins, sem felldi Berlínarmúrinn, og máttarins, sem hóf upp járntjaldið.

Þetta voru ekki orð eins leiðtoga, heldur fólkið í Evrópu sem í áratugi barðist fyrir frelsi sínu. Eintómt hugrekki þeirra opnaði landamærin á milli Austurríkis og Ungverjalands, fyrir samevrópsku lautarferðina. Þau héldust hönd í hönd í Eystrasaltskeðjunni. Þau stóðu fyrir samstöðu hér í Póllandi.

Og í sameiningu, var það ótvíræður og óneitanlegur kraftur fólksins, sem Sovétríkin gátu ekki staðist.

Við sjáum það enn og aftur í dag, í hugrökku úkraínsku þjóðinni, sem sýnir að kraftur margra er sterkari en vilji einhvers eins einræðisherra,“ sagði Biden og hlaut þá lófaklapp fyrir.

Forsetinn var ómyrkur í máli þegar hann vék að Vladimír …
Forsetinn var ómyrkur í máli þegar hann vék að Vladimír Pútín Rússlandsforseta. AFP

Neita að lifa í heimi vonleysis og myrkurs

„Svo að á þessari stundu, skulum við leyfa orðum Jóhannesar Páls páfa brenna jafn skært í dag: Aldrei, nokkurn tíma, gefa upp vonina. Aldrei efast. Aldrei þreytast. Aldrei láta hugfallast. Verið óhrædd,“ bætti hann við og heyra mátti fólk fagna þessari tilvísun í heimalandi páfans heitins.

„Einræðisherra, sem hefur einsett sér að endurreisa heimsveldi, mun aldrei útmá ást fólks á frelsinu. Grimmd mun aldrei mala niður viljann til að vera frjáls. Í Úkraínu fæst aldrei sigur fyrir Rússland. Því að frjálst fólk neitar að lifa í heimi vonleysis og myrkurs.

Við munum eiga öðruvísi framtíð, bjartari framtíð, sem reist er á lýðræði og gildum. Á von og ljósi. Á velsæmi, virðingu og frelsinu í möguleikunum,“ sagði hann áður en hann lauk ávarpinu á þessum orðum:

„Í Guðs bænum, þessi maður getur ekki haldið áfram við völd.“

Þóttu ummælin eins og áður sagði gefa til kynna stóra stefnubreytingu bandarískra stjórnvalda gagnvart stjórnvöldum í Kreml.

Nú er aftur á móti ljóst að forsetinn meinti annað, það er ef marka má Hvíta húsið.

mbl.is