Fjárfestir í 85 þúsund tonna eldi á Indlandi

Fiskeldi | 4. apríl 2022

Fjárfestir í 85 þúsund tonna eldi á Indlandi

Bandaríska sölufyrirtækið The Fishin’ Company stefnir að því að byggja upp 85 þúsund tonna tilapía eldi á Indlandi. Um er að ræða 16,8 milljarða króna fjárfestingu sem á að skapa 5.000 störf.

Fjárfestir í 85 þúsund tonna eldi á Indlandi

Fiskeldi | 4. apríl 2022

Tilapíaeldi í Kaliforníu. Bandaríkjamenn framleiða aðeins nokkur þúsund tonn og …
Tilapíaeldi í Kaliforníu. Bandaríkjamenn framleiða aðeins nokkur þúsund tonn og flytja inn tugir þúsunda tonna á ári hverju til að anna eftirspurn. Ljósmynd/USDA

Bandaríska sölufyrirtækið The Fishin’ Company stefnir að því að byggja upp 85 þúsund tonna tilapía eldi á Indlandi. Um er að ræða 16,8 milljarða króna fjárfestingu sem á að skapa 5.000 störf.

Bandaríska sölufyrirtækið The Fishin’ Company stefnir að því að byggja upp 85 þúsund tonna tilapía eldi á Indlandi. Um er að ræða 16,8 milljarða króna fjárfestingu sem á að skapa 5.000 störf.

Tilapía er mest selda hvítfisktegundin í Bandaríkjunum og er mestmegnis innflutt af fyrirtækjum eins og The Fishin’ Company sem er stærsti kaupandi tegundarinnar á heimsvísu og stærsti innflutningsaðili í Bandaríkjunum. Þá er fyrirtækið einnig stærsti birgi verslunarkeðjunnar Walmart þegar kemur að frosnum fiski.

Atvinnumálaráðuneyti Telangana, sem er ellefta stærsta ríki Indlands, tilkynnti þann 24. mars að bandaríska fyrirtækið hefði ákveðið að fjárfesta fyrir tíu milljarða indverskra rúpía, jafnvirði 16,8 milljarða íslenskra króna, í tilapíaeldi í Mid Manair-lóni. Um er að ræða fullbúið ferskvatnseldi með klakstöð, fóðurframleiðslu og vinnslustöð. Gert er ráð fyrir að um fimm þúsund störf verði til.

„Fjárfestingin mun styðja enn frekar við bláa byltingu í ríkinu,“ skrifaði ráðuneytið í tilkynningu sinni sem birt var á Twitter.

Mid Manair-lónið er í miðju Indlandi.
Mid Manair-lónið er í miðju Indlandi. SKjáskot/GoogleMaps

Milljónir tonna

Tilapía er hvítfiskur sem hefur sótt í sig veðrið á undanförnum árum og er tegundin í samkeppni við annan hvítfisk eins og ufsa, sérstaklega á sviði frosinna afurða. Tilapía hefur ekki sama orðspor og til að mynda íslenskar sjávarafurðir úr þorski en er töluvert ódýrari vara og vegur verð þungt hjá mörgum neytendum.

Um 7 milljónir tonna af tilapía voru framleidd í eldi á heimsvísu árið 2020 og hefur tvöfaldast á innan við áratug samkvæmt upplýsingum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Langmest var framleitt í Asíu 2020 eða rúmlega 4,5 milljónir tonna, en þar er stærsti framleiðandinn Kína með 1,7 milljónir tonna auk þess sem framleiðsla í Indónesíu og Fillipseyjum er umtalsverð og hefur aukist mikið síðustu ár.

Tilapíaeldi vex ár frá ári í Suður-Ameríku og framleiddi Brasilía 486 þúsund tonn árið 2020 sem var 12,5 meira en árið á undan, en í Mexíkó voru framleidd rúmlega 72 þúsund tonn.

Frosin tilapía flök úr Walmart.
Frosin tilapía flök úr Walmart. Ljósmynd/Walmart

Milljarðar undir

Bandaríkin eru helsti neytendamarkaður fyrir tilapía og voru flutt þangað rúmlega 190 þúsund tonn fyrir um 615 milljónir bandaríkjadali árið 2020, jafnvirði 78,5 milljarða íslenskra króna. The Fishin’ Company ætlar með öðrum orðum að framleiða ígildi rúmlega 44% af því magni sem flutt var af tegundinni til Bandaríkjanna árið 2020.

Fyrirtækið hefur sjálft ekkert gefið út um ástæður ákvörðunarinnar um að hefja eigin framleiðslu en ljóst er að takmarkanir á innflutningi rússneskra sjávarafurða koma á góðum tíma. Rússland framleiðir um 40% af öllum veiddum hvítfiski í heimi og um 60% af alaskaufsa, en töluvert magn af alaskaufsa hefur í gegnum árin farið í vinnslu í Kína og þaðan til Bandaríkjanna. Sífellt versnandi samskipti milli Bandaríkjanna og Kína geta einnig haft áhrif á ákvörðunina um að fjárfesta í framleiðslunni á Indlandi, en The Fishin’ Company hefur til þessa keypt allt sitt framboð af tilapía frá Kína.

Fyrirtækið hefur útvegað Walmart bæði eldisafurðir og afurðir úr villtum fiski í mörg ár og eru flestar þeirra unnar í Kína. Afurðirnar eru úr pangasius (hvítfiskur), villtum laxi, rækju og kyrrahafsþorski, en helsta tegundin er tilapía.

Kjúklingur eldisins

Tilapía er alinn í ferskvatni og þrífst best í hitastigi á bilinu 15 til 26 gráður, fiskurinn vill helst vera í hlýrri hluta þessa bils. Tegundin er sögð heldur auðveld að rækta og þroskast fiskurinn hraðar en flestir aðrir eldisfiskar.

Fiskurinn getur verið fóðraður með þörungum og öðru fóðri úr plöntum og þarf ekki prótein úr öðrum sjávardýrum eins og aðrar eldistegundir. Þetta gerir ræktunina mun ódýrari og hefur tilapía verið kölluð „kjúklingur“ eldisgreinarinnar.

Tilapía sótt úr eldi í Bangladess. Tiltölulega einfalt þykir að …
Tilapía sótt úr eldi í Bangladess. Tiltölulega einfalt þykir að ala tilapía og er að finna víða í Asíu slíkar eldisstöðvar, jafnvel nokkuð frumstæðar. Ljósmynd/WorldFish/Yousuf Tushar
mbl.is