„Toppurinn á tilverunni að vera í loftbelg“

Á ferðalagi | 18. apríl 2022

„Toppurinn á tilverunni að vera í loftbelg“

Elísabet Agnarsdóttir hefur tileinkað sér alls konar páskahefðir á ferðalögum sínum í gegnum tíðina. Uppáhaldspáskaferðin til þessa er þegar hún fór til Cappadoccia og flaug í loftbelg við sólarupprás, ásamt á annað hundrað loftbelgjum, yfir stórfenglegt landslagið í Tyrklandi. 

„Toppurinn á tilverunni að vera í loftbelg“

Á ferðalagi | 18. apríl 2022

Elísabet Agnarsdóttir rekur ferðaskrifstofuna Tripical.
Elísabet Agnarsdóttir rekur ferðaskrifstofuna Tripical.

Elísabet Agnarsdóttir hefur tileinkað sér alls konar páskahefðir á ferðalögum sínum í gegnum tíðina. Uppáhaldspáskaferðin til þessa er þegar hún fór til Cappadoccia og flaug í loftbelg við sólarupprás, ásamt á annað hundrað loftbelgjum, yfir stórfenglegt landslagið í Tyrklandi. 

Elísabet Agnarsdóttir hefur tileinkað sér alls konar páskahefðir á ferðalögum sínum í gegnum tíðina. Uppáhaldspáskaferðin til þessa er þegar hún fór til Cappadoccia og flaug í loftbelg við sólarupprás, ásamt á annað hundrað loftbelgjum, yfir stórfenglegt landslagið í Tyrklandi. 

Síðastliðið haust ákvað Elísabet Agnarsdóttir að leggja land undir fót og dvelja í Evrópu yfir vetrartímann. Þegar blaðamaður heyrði í henni var hún stödd í Sitges, rétt fyrir sunnan Barcelona, þar sem hún og samstarfskona hennar, Guðrún Vala Benediktsdóttir, hafa unnið störf sín í fjarvinnu á undanförnum mánuðum. Hún ætlar að færa sig yfir til Ítalíu um páskana og dvelja þar um tíma með vinum og fjölskyldu.

„Ég hef ferðast víða undanfarna mánuði, meðal annars hef ég komið til Portúgals, Frakklands, Andorra og er nú á Spáni. Þegar vinnan er meira og minna í tölvunni eru ferðalög ekki svo mikið mál og það eru margir góðir kostir við að kynna sér fleiri áfangastaði þegar maður starfar í ferðaiðnaðinum líkt og ég geri.“

Nýjar páskahefðir í nýju landi á hverju ári

Sitges þykir einn líflegasti strandbær Spánar og er rómaður fyrir líf og fjör og fallegar strendur.

„Það er einstaklega fallegt allt í kringum mig núna, en hér eru pálmatré, strendur og sól. Hundurinn minn Nala elskar að hlaupa á ströndinni með öllum hundavinum sínum. Þetta er því afar fjölbreytt og skemmtilegt allt saman.“

Elísabet ætlar að dvelja við Amalfi-ströndina um páskana og er spennandi að heyra hvernig páskaferðinni verður háttað.

„Í apríl verð ég á Ítalíu í yndislegu húsi sem kallað er Bóndabærinn hennar ömmu. Húsið er uppi á hæð, og eru 336 tröppur sem ég þarf að ganga upp í húsið, sem er staðsett nálægt Amalfi-ströndinni, rétt fyrir sunnan Napólí.

Flugfélagið Wizz Air er með beint flug frá Íslandi til Napolí, svo það verður fullt hús af gestum hjá mér um páskana. Ég hlakka mikið til að hitta fólkið mitt á þessum draumastað.“

Það skemmtilegasta sem Elísabet gerir er að ferðast. Sérstaklega þegar hún er í góðum félagsskap.

„Að kynnast nýju fólki og menningu er það sem ég leita í og vegna þessa er ég ekki með mikið af páskahefðum sjálf, þess í stað fæ ég að upplifa nýjar páskahefðir í nýju landi á hverju ári.“

Góð æfing að ganga upp 336 tröppur

Á ferðalögum á þessum árstíma sem öðrum skiptir hreyfing Elísabetu miklu máli.

„Ég elska jóga og hlaup, líklega þar sem hægt er að stunda þá hreyfingu hvar sem er. Annars nýti ég hvert tækifæri sem ég get þegar ég er á Íslandi til að fara til Gurrýjar í YAMA, sem er besta og skemmtilegasta líkamsrækt í heimi. Þessa páska fæ ég samt góða hreyfingu við að þramma upp og niður þessar 336 tröppur að húsinu.“

Í sannleika sagt eru ferðalög meira lífsstíll en áhugamál Elísabetar.

„Þess vegna stofnaði ég ferðaskrifstofuna Tripical ásamt syni mínum Viktori Hagalín og má segja að mér leiðist svo sannarlega ekki í vinnunni.“

Mun seint gleyma ævintýrinu í Tyrklandi

Eftirminnilegasta ferðalagið sem Elísabet hefur farið um páska er án efa til Cappadocia í Tyrklandi. „Cappadoccia er ævintýralegur staður með einstaka náttúru, neðanjarðarborgum og húsum sem grafin eru inn í moldarstrompa. Toppurinn á ferðinni var þegar við flugum við sólarupprás, ásamt á annað hundrað loftbelgjum, yfir stórfenglegt landslag Cappadoccia. Ég mun seint gleyma þeirri ferð sem var engu öðru lík.“

Hvert mælir þú með að fólk fari núna?

„Uppáhaldslöndin mín eru án efa Grikkland og Króatía. Það er eitthvað við staði þar sem umhverfið er fallegt, maturinn er góður og sjór er allt um kring, sem heillar mig sérstaklega. Kannski eru það vestfirsku genin. Hver veit?

Króatía er auðvitað alveg einstaklega fallegt land. Dubrovnik er stórbrotinn staður að heimsækja, og fleiri staði má nefna, eins og allan Istria-skagann og bæi þar, svo sem Opatija og Šibenik. Þetta eru án efa ekki staðir sem eru mikið í umræðunni heima, en eru sannarlega þess virði að heimsækja.

Grikkland er einnig æðislegt land, að mínu mati, ekki síst Krít. Fyrir utan fallegt umhverfi og góðan mat er stemningin þar bara svo hárrétt. Andrúmsloftið er afslappað og Grikkir svo skemmtileg þjóð.“

Elísabet Agnarsdóttir, annar eigandi ferðaskrifstofunnar Tripical.
Elísabet Agnarsdóttir, annar eigandi ferðaskrifstofunnar Tripical. Ljósmynd/Aðsend

Skynsamlegt að fjárfesta í upplifun

Hvers vegna er mikilvægt að nýta frístundir til ferðalaga að þínu mati?

„Það er eflaust misjafnt hvaða ástæður fólk hefur fyrir því að ferðast, en fyrir mér er mikið sannleikskorn í því að á þeim ofgnóttar-tímum sem við lifum á er alveg skynsamlegt að eyða tíma og fjármunum meira í upplifanir. Maður heyrir þetta til dæmis mikið um jól, þegar fólk er hvatt til að gefa upplifun í jólagjöf. Það er jafnmikilvægt að gefa sjálfum sér færi á að upplifa. Með flugsamgöngum nútímans og öllum þeim ferðamöguleikum sem í boði eru, er ekkert tiltökumál að ferðast um heiminn og það þarf heldur ekki að kosta svo mikið. Hins vegar eru forsendur fyrir ferðalögum mjög ólíkar og persónubundnar, en ég tók þessa ákvörðun fyrir mig. Ég vil ferðast og skoða heiminn, því mér finnst það bæði mikilvægt og ótrúlega skemmtilegt.“

mbl.is