Segir stjórnarflokkana tefja rannsókn

Alþingi | 26. apríl 2022

Segir stjórnarflokkana tefja rannsókn

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir umræðu af hálfu stjórnarliða á villigötum hvað varðar sölu á 22,5% hluta ríkisins í Íslandsbanka. Segir hún mikilvægt að leiðrétta nokkra hluti sem hafa verið á floti í umræðunni.

Segir stjórnarflokkana tefja rannsókn

Alþingi | 26. apríl 2022

Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar.
Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir umræðu af hálfu stjórnarliða á villigötum hvað varðar sölu á 22,5% hluta ríkisins í Íslandsbanka. Segir hún mikilvægt að leiðrétta nokkra hluti sem hafa verið á floti í umræðunni.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir umræðu af hálfu stjórnarliða á villigötum hvað varðar sölu á 22,5% hluta ríkisins í Íslandsbanka. Segir hún mikilvægt að leiðrétta nokkra hluti sem hafa verið á floti í umræðunni.

„Í fyrsta lagi er óumdeilt að Rannsóknarnefnd Alþingis hefur mun ríkari heimildir til gagnaöflunar en Ríkisendurskoðun. Ef aðilar neita að mæta í skýrslutöku er hægt að óska úrskurðar dóms um að flytja eigi viðkomandi í skýrslutöku. Þessar heimildir hefur Ríkisendurskoðun ekki.

Í öðru lagi er afar mikilvægt ákvæði í lögum um Rannsóknarnefndir Alþingis, sem Ríkisendurskoðun hefur ekki, það er að sá sem mögulega hefur komið að útboðinu sjálfu í einhverri mynd og þá eftir atvikum tekið þátt í einhverju sem flokkast mætti sem lögbrot, getur mætt fyrir nefndina og óskað eftir að vera leystur undan saksókn gegn upplýsingagjöf um lögbrotið,“ sagði Helga Vala þegar hún steig upp í pontu á Alþingi fyrr í dag.

Meirihlutinn að tefja

Sagði hún síðari þáttinn hafa verið lykilatriði í þeim rannsóknum sem fóru fram í kjölfar bankahrunsins árið 2008. Þá vakti hún athygli á að Rannsóknarnefnd Alþingis tekur einnig fyrir siðferðisleg álitaefni, sem Ríkisendurskoðun fæst ekki við.

„Veita þarf athygli að stjórnarflokkarnir eru einfaldlega að tefja málið með því að neita að setja á stofn rannsóknarnefnd Alþingis.“

Hættuleg sýn á ábyrgð

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar tók í sama streng. Sagði hún ríkisstjórnina vilja beina kastljósinu að þeim sem framkvæmdu söluna en ekki þá sem tóku ákvarðanir. Taldi hún þetta endurspegla hættulega sýn á ábyrgð.

 „Ráðherranefnd um efnahagsmál tók ákvarðanir um aðferðafræði sölunnar. Hér þarf þess vegna að rannsaka pólitískar ákvarðanir. Hvers vegna voru ekki gerðar kröfur um lágmarksupphæðir kaupenda? Var rætt um sölubann? Hvaða kröfur voru gerðar til fagfjárfesta?

Á hvaða forsendum samþykkti forsætisráðherra söluaðferðina sem fjármálaráðherra hennar lagði til? Hver er ábyrgð ráðherra ríkisstjórnarinnar? Allir sem hafa reynslu af rannsóknum vita að lykilpunkturinn þar er að spyrja réttu spurninganna. Það getur rannsóknarnefnd. Til þess er hún,“ sagði Þorbjörg.

„Við erum að rannsaka“

Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri grænna, gat þó ekki tekið undir orð stjórnarandstöðunnar. Hún sagði skipun nefndarinnar vera úrræði sem ekki ætti að notast við nema í þeim tilfellum þar sem ekki er unnt að notast við hin hefðbundnu rannsóknarúrræði. Vísaði hún þá í greinargerð í frumvarpi til laga um rannsóknarnefndir.

„Við erum að rannsaka. Við erum sem samfélag að ræða málið. Við erum að bregðast við á öllum þeim sviðum sem þarf til. Það er ekki til þess fallið að efla traust samfélagsins á stjórnvöldum að umræðan sé óreiðukennd eða byggi á órökstuddum upphrópunum.“

Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður Samfylkingarinnar gaf þó lítið fyrir þessi rök og sagði það innihaldslaust hjal að halda því fram að það þyrfti að tæma önnur rannsóknarúrræði áður en rannsóknarnefnd Alþingis yrði sett á laggirnar. Það væri ákvörðun Alþingis.

mbl.is