Hjálpar taktlausum að ná árangri

Heilsurækt | 2. júní 2022

Hjálpar taktlausum að ná árangri

Alda María Ingadóttir er íþróttafræðingur og einkaþjálfari í Hreyfingu. Hún var aldrei mikil íþróttatýpa sem barn en hafði áhuga á dansi. Í dag kennir hún gríðarvinsæla Zumba-danstíma í Hreyfingu og segir að það hafi verið áskorun, því hún sé í eðli sínu feimin.

Hjálpar taktlausum að ná árangri

Heilsurækt | 2. júní 2022

Alda María Ingadóttir er í draumastarfinu.
Alda María Ingadóttir er í draumastarfinu. mbl.is/Árni Sæberg

Alda María Ingadóttir er íþróttafræðingur og einkaþjálfari í Hreyfingu. Hún var aldrei mikil íþróttatýpa sem barn en hafði áhuga á dansi. Í dag kennir hún gríðarvinsæla Zumba-danstíma í Hreyfingu og segir að það hafi verið áskorun, því hún sé í eðli sínu feimin.

Alda María Ingadóttir er íþróttafræðingur og einkaþjálfari í Hreyfingu. Hún var aldrei mikil íþróttatýpa sem barn en hafði áhuga á dansi. Í dag kennir hún gríðarvinsæla Zumba-danstíma í Hreyfingu og segir að það hafi verið áskorun, því hún sé í eðli sínu feimin.

„Þegar ég var í íþróttafræðinámi í Háskólanum í Reykjavík hafði ég aðgang að Hreyfingu og mætti þangað bæði að eigin frumkvæði og þar sem það var hluti af verknámi. Ég heillaðist af stöðinni, andanum og öllum flottu hóptímunum. Þá setti ég mér það markmið að kenna þar einn daginn. Eftir útskrift og fæðingarorlof sótti ég um í inntökupróf hóptímakennara sem Hreyfing auglýsti. Ég komst í lokahópinn sem fékk þjálfun og möguleika á starfi. Ég var búin að kenna Zumba í tvö ár annars staðar og fékk fyrst tækifæri til að leiða Zumba-tíma. Fljótlega var ég farin að kenna alls konar tíma,“ segir Alda sem lærði einkaþjálfun eftir að hún lauk við íþróttafræðina.

Uppgötvaði margt í Árbæjarþreki

Alda var ekki mikil íþróttatýpa sem barn en það átti eftir að breytast.

„Ég var í samkvæmisdansi sem barn en annars alls enginn íþróttaálfur. Ég fór á unglinganámskeið í hverfisræktinni Árbæjarþreki 15 ára og var farin að vinna í afgreiðslunni þar 16 ára. Þá þróaðist áhuginn á þjálfun og ég vann þar meðfram framhaldsskóla og háskóla. Eigandi Árbæjarþreks hvatti mig svo til að byrja að kenna og sendi mig á Zumba-kennaranámskeið. Því hafði hann klárlega áhrif á hvert lífið leiddi mig,“ segir Alda sem er vinsæll Zumba-kennari í dag. Hún segir að það hafi tekið tíma að byggja þá tíma upp en í dag eru þeir vel sóttir.

„Ég er þakklát fyrir alla sem mæta og gefa af sér í salinn. Margar þeirra sem mæta í dag hafa fylgt mér frá byrjun, svo það er að detta í 9 ár. Ég er frekar feimin og lokuð í eðli mínu, sem hentar ekki alveg í þessu starfi, en ég er alltaf að verða betri og betri í að gefa af mér og tengjast fólki. Það sem ég hrífst af við þetta starf er fjölbreytnin. Á einum degi get ég farið í gegnum orkumikinn Zumba-tíma, rólegan flæðitíma, kraftmikinn lyftingatíma og trúnó í einkaþjálfun,“ segir Alda María.

Alda María var enginn sérstakur íþróttaálfur þegar hún var lítil …
Alda María var enginn sérstakur íþróttaálfur þegar hún var lítil stelpa. Það átti þó eftir að breytast. mbl.is/Árni Sæberg

Taktlausir geta náð árangri

Sumir virðast hafa mikla fordóma fyrir dansi en hvað getur dansinn gefið fólki, annað en betra hjarta- og æðakerfi?

„Ég held að það séu ekki fordómar heldur meira efi um eigin getu. Fólk þorir ekki að láta á það reyna. Dans getur verið algjör útrás, bæði andlega og líkamlega. Við liðkum líkamann, styrkjum vöðvana, ögrum heilanum með samhæfingu, fáum púlsinn upp, losum streitu, brosum og fyllum á gleðihormónin.“

Hvað getur taktlaust fólk gert til þess að bæta sig í dansi?

„Það getur bæði verið erfitt að samhæfa hreyfingar og að heyra taktinn. Sumir heyra ekki taktinn en það gæti hjálpað að kynna sér hvernig tónlist er byggð upp í lotur með 32 töktum og sjá það fyrir sér myndrænt. Þá gæti verið einfaldara að átta sig á því hvenær næsta hreyfing kemur inn. Æfa svo einfaldari hreyfingar, eins og hliðar saman hliðar, við taktfasta tónlist.“

Fyrir hverju finnst þér fólk spenntast núna?

„Að koma sér í gott úthald fyrir göngur, hlaup og golf með þol- og styrktarþjálfun.“

Hvað myndir þú segja að væri vinsælast 2022? Hvað er fólk að gera núna til að bæta heilsuna sem það gerði ekki áður?

„Blóðsykursmælingar og umræða um orkuefnin eru mjög áberandi á miðlunum en annars finnst mér ekkert annað sérstakt vera í gangi. Almennt heilbrigði og að þekkja sinn líkama og það sem hann þarf.“

Þegar Alda er spurð að því hvort hún eigi áhugamál segir hún að dansinn sé alltaf númer eitt.

„Dans er og verður vonandi alltaf aðaláhugamálið. Ég hef svo mikinn áhuga á heilsu, mataræði, æfingum og þar af leiðandi hvernig við getum sinnt líkama okkar vel.“

Hvað drífur þig áfram í leik og starfi?

„Hvetjandi fólkið í kringum mig, bæði viðskiptavinir og samstarfsfólk. Bein áhrif mataræðis og hreyfingar hvetja mig til að sinna sjálfri mér. Mikilvægast er svo að verja tíma með fjölskyldu og vinum, bæði til að slappa af og leika sér.“

mbl.is