„Blaut tuska í andlitið“

Kórónuveiran Covid-19 | 4. júní 2022

„Blaut tuska í andlitið“

Öllum hjúkrunarfræðingum á Læknavaktinni var sagt upp störfum fyrir mánaðamót. Þetta staðfestir Elva Björk Ragnarsdóttir, fagstjóri hjúkrunar á Læknavaktinni, í samtali við mbl.is. Segir Elva þetta jafnast á við að fá blauta tusku í andlitið eftir starfið sem hjúkrunarfræðingar hafa sinnt á meðan á kórónuveirufaraldrinum stóð.

„Blaut tuska í andlitið“

Kórónuveiran Covid-19 | 4. júní 2022

Læknavaktin er til húsa í Austurveri á Háaleitisbraut 68.
Læknavaktin er til húsa í Austurveri á Háaleitisbraut 68. mbl/Arnþór Birkisson

Öllum hjúkrunarfræðingum á Læknavaktinni var sagt upp störfum fyrir mánaðamót. Þetta staðfestir Elva Björk Ragnarsdóttir, fagstjóri hjúkrunar á Læknavaktinni, í samtali við mbl.is. Segir Elva þetta jafnast á við að fá blauta tusku í andlitið eftir starfið sem hjúkrunarfræðingar hafa sinnt á meðan á kórónuveirufaraldrinum stóð.

Öllum hjúkrunarfræðingum á Læknavaktinni var sagt upp störfum fyrir mánaðamót. Þetta staðfestir Elva Björk Ragnarsdóttir, fagstjóri hjúkrunar á Læknavaktinni, í samtali við mbl.is. Segir Elva þetta jafnast á við að fá blauta tusku í andlitið eftir starfið sem hjúkrunarfræðingar hafa sinnt á meðan á kórónuveirufaraldrinum stóð.

Að sögn Elvu barst öllum hjúkrunarfræðingum á Læknavaktinni uppsagnarbréf fyrir mánaðamót og mun þjónustan vera færð yfir á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 1. september þegar hjúkrunarfræðingarnir hafa unnið upp uppsagnarfrestinn sinn.

Sér ekki fram á hvernig heilsugæslan geri þetta

Alls vinna 30 hjúkrunarfræðingar hjá Læknavaktinni og því talsverður fjöldi sem tapar starfi sínu við þessa ákvörðun. Elva kveðst ekki vita til þess að heilsugæslan hafi starfsmannafjöldann til að starfrækja þessa þjónustu sem hjúkrunarfræðingar Læknavaktarinnar hafi hingað til getað haldið uppi.

Bendir Elva á að um sé að ræða sólarhringsþjónustu sem að þarf að sinna alla daga ársins og að það geti oft reynst erfitt að manna þannig vaktir, sérstaklega þegar kemur að frídögum eins og um jól og áramót. Nefnir Elva að heilsugæslan sé ekki að manna dagvaktir hjá sér. Af þeim sökum sér Elva ekki fram á hvernig heilsugæslan ætlar að gera þetta. 

Aðspurð segist hún ekki vita af hverju ákveðið var að færa þjónustuna frá Læknavaktinni en bætir við að hún sé búin að liggja í loftinu í heilt ár. Beðið hafi verið með að setja hana í framkvæmd vegna kórónuveirufaraldursins. „Útgefin ástæða er að öll upplýsingagjöf og vegvísun í heilbrigðiskerfinu eigi að vera undir sama hatti en það er eina útskýringin sem við höfum fengið á þessu,“ segir Elva. 

Að mati Elvu mun þetta bitna mest á fólki sem býr út á landi. „Fyrir fólk út á landi er oft eina leiðin til að fá samband við lækni í gegnum okkur og þetta tefur það ferli,“ segir Elva.

Blaut tuska

Spurð um hvernig hjúkrunarfræðingarnir hafa tekið þessari uppsögn segir hún að öllum finnist þetta heldur leiðinlegt. 

„Stemmingin hérna á vaktinni er alltaf góð en auðvitað finnst okkur þetta mjög leiðinlegt, þetta er pínu svona blaut tuska í andlitið eftir allt sem að við höfum lagt á okkur í gegnum Covid,“ segir Elva og bætir við: „Við sátum hérna dag eftir dag og margar okkar komu hingað beint úr 100 prósent vinnu annars staðar til að sitja hérna á kvöldin og um helgar.“

Þá bætir hún við að margir af þeim sem var sagt upp hjá Læknavaktinni muni ekki geta sinnt þessu starfi hjá heilsugæslunni þar sem að margir hjúkrunarfræðinganna vinni nú þegar í miklu starfshlutfalli hjá ríkinu og bendir á að erfitt sé að bæta við það. „Þú getur bara ráðið þig á einhverri sérstakri undanþágu í meira en 100 prósent vinnu hjá ríkinu,“ segir Elva.

Segir hún að mannauðurinn tapist við þetta fyrirkomulag.

Rugga bát sem siglir lygnan sjó

Að mati Elvu er þessi breyting tilgangslaus eins og stendur. „Manni finnst skrítið þegar ástandið er eins og það er núna og allt er einhvern veginn að hruni komið og allir búnir á því og úttaugaðir að fara rugga einhverjum bát sem siglir lygnan sjó. Frekar ætti að einbeita sér að því að byggja upp starfsemi sem þarf á því að halda. Síðan er hægt að skoða það að færa þessa þjónustu,“ segir Elva.

Hún segist ekki vita til þess að þessum hjúkrunarfræðingum sem var sagt upp hafi verið boðið starf hjá heilsugæslunni.

mbl.is